Alþjóðlega barna- og unglingabókmenntahátíðin Mýrin hefst á morgun og stendur til 14. október. Hátíðin, sem er tvíæringur og er nú haldin í 11. sinn, fer fram í Norræna húsinu. Í ár ber hún yfirskriftina Á kafi úti í mýri. Frítt er inn á alla viðburði, en skrá þarf þátttöku í gegnum netfangið: myrinfestival@gmail.com.
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra flytur setningarávarpið í Norræna húsinu kl. 9 á morgun. Kl. 9.15 verður boðið upp á upplestur og viðtal við Jessicu Love, höfund bókarinnar Júlían er hafmeyja. Milli kl. 10 og 11 verður pallborð undir yfirskriftinni „Hafið og fantasían í myndum“ þar sem þátt taka myndhöfundarnir Anne Fiske, Jenni Desmond, Anais Brunet og Linda Ólafsdóttir. Klukkan 11.15 verður í boði upplestur og viðtal við Kent Kielsen. Milli kl. 13 og 14 verður pallborð undir yfirskriftinni „Hafið og fantasía í sögum“ þar sem þátt taka rithöfundarnir Kristín Björg Sigurvinsdóttir, Gunnar Theodór Eggertsson, Ævar Þór Benediktsson og Eva Rún Þorgeirsdóttir. Milli kl. 15.30 og 17 verður boðið upp á vinnustofur með myndhöfundum. Á föstudag verða vinnustofur fyrir skólahópa, en allar nánari upplýsingar eru á vefnum nordichouse.is. Laugardaginn 14. október verður boðið upp á fjölskyldudagskrá. Kl. 10 leiðir Eva Rún Þorgeirsdóttir slökun í neðansjávarhelli barnabókasafnsins. Á sama tíma í fyrirlestrasalnum er boðið upp á hvalasmiðju með Jenni Desmond. Kl. 11 leiða Erling Kjærbo og Hrafnhildur Gissurardóttir þátttakendur um undur hafsins í neðansjávarsýningu hússins. Á sama tíma verður í fyrirlestrasalnum vatnsrennibrautasmiðja með Noch White. Kl. 13 verður í fyrirlestrasalnum boðið upp á hafmeyjusmiðju með Jessicu Love. Á sama tíma verður boðið upp á ball í neðansjávarhelli barnabókasafnsins.