Stríð Pútín sagði gagnsóknina hafa algerlega mistekist hjá Úkraínu.
Stríð Pútín sagði gagnsóknina hafa algerlega mistekist hjá Úkraínu. — AFP
Vladimír Pútín forseti Rússlands segir rússneskar hersveitir hafa náð árangri í sókn sinni í Úkraínu. Pútín nefndi í gær að sóknin gengi vel á Avdívka-svæðinu en hann segir það táknrænt. Avdívka hefur verið tákn úkraínskrar andspyrnu en bardagar þar hafa verið harðir í stríðinu

Vladimír Pútín forseti Rússlands segir rússneskar hersveitir hafa náð árangri í sókn sinni í Úkraínu.

Pútín nefndi í gær að sóknin gengi vel á Avdívka-svæðinu en hann segir það táknrænt. Avdívka hefur verið tákn úkraínskrar andspyrnu en bardagar þar hafa verið harðir í stríðinu.

Úkraínskar hersveitir segjast halda áfram að hrekja rússneska hermenn á brott af svæðinu.

„Hersveitir okkar eru að bæta stöðu sína á næstum öllu þessu svæði, sem er nokkuð víðfeðmt,“ segir Pútín í viðtali á rússneskri sjónvarpsstöð. Hann segir svæðin sem um ræðir vera Kúpiansk, Saporisjía og áðurnefnt Avdívka.

Óbreyttur borgari lést

Úkraína greindi frá því á laugardag að harðir bardagar ættu sér stað í kringum Avdívka-svæðið. Rússneskar hersveitir hefðu ekki hætt að ráðast á svæðið í marga daga til að reyna að umkringja það.

Í gær lýsti lögreglan í Úkraínu því að Rússar hefðu hafið stórskotahríð á Avdívka sem leiddi til þess að óbreyttur borgari lést.

Árás Rússa á Avdívka kemur eftir fjögurra mánaða gagnsókn Úkraínu sem hefur gengið hægar en margir bjuggust við. Pútín sagði í viðtalinu í gær að gagnsóknin hefði algerlega mistekist.

„Við vitum að á sumum bardagasvæðum er óvinurinn að undirbúa nýjar sóknaraðgerðir,“ sagði hann. „Við sjáum það, við vitum það. Og þar af leiðandi erum við að bregðast við.“ karifreyr@mbl.is