Skot Jón Bjarni Ólafsson sækir að varnarmönnum Partizan í Kaplakrika á laugardaginn en hann gerði sér lítið fyrir og skoraði fimm mörk í leiknum.
Skot Jón Bjarni Ólafsson sækir að varnarmönnum Partizan í Kaplakrika á laugardaginn en hann gerði sér lítið fyrir og skoraði fimm mörk í leiknum. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
Íslandsmeistarar ÍBV og Valur tryggðu sér bæði sæti í 3. umferð Evrópubikars karla í handknattleik um helgina. ÍBV hafði betur gegn Red Boys Differdange frá Lúxemborg í 2. umferð keppninnar en báðir leikirnir fóru fram í Niederkorn í Lúxemborg, á laugardaginn og í gær

Evrópubikarinn

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Íslandsmeistarar ÍBV og Valur tryggðu sér bæði sæti í 3. umferð Evrópubikars karla í handknattleik um helgina.

ÍBV hafði betur gegn Red Boys Differdange frá Lúxemborg í 2. umferð keppninnar en báðir leikirnir fóru fram í Niederkorn í Lúxemborg, á laugardaginn og í gær.

Fyrri leiknum lauk með fjögurra marka sigri ÍBV, 34:30, þar sem þeir Daniel Vieira og Kári Kristján Kristjánsson voru markahæstir með sjö mörk hvor.

Síðari leik liðanna, sem fram fór í gær í Niederkorn, lauk með eins marks sigri Eyjamanna, 35:34. Elmar Erlingsson fór mikinn fyrir Eyjamenn í gær og skoraði tíu mörk og Arnór Viðarsson fimm en Eyjamenn unnu einvígið samanlagt 69:64.

Þá höfðu Valsmenn, sem léku í Evrópudeildinni á síðustu leiktíð, betur gegn Pölva Serveti frá Eistlandi en líkt og hjá Eyjamönnum fóru báðir leikir Valsmanna fram ytra í Eistlandi.

Fyrri leiknum á laugardaginn lauk með naumum sigri Vals, 32:29, í Pölva þar sem þeir Úlfar Páll Monsi Þórðarson, Benedikt Gunnar Óskarsson, Magnús Óli Magnússon og Alexander Pettersson voru markahæstir Valsmanna með fimm mörk hver. Þá varði Björgvin Páll Gústavsson 12 skot og var með 32% markvörslu.

Síðari leiknum lauk með stórsigri Vals, 39:28, þar sem þeir Benedikt Óskar Ólafsson og Andri Finnsson skoruðu sex mörk hvor. Björgvin Páll varði 15 skot og var með 43% markvörslu. Valur vann einvígið samanlagt 71:57.

Íslensku liðin þurfa sigur

Á laugardaginn tók FH svo á móti Partizan frá Serbíu í fyrri leik liðanna í Kaplakrika í Hafnarfirði.

Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann en staðan í hálfleik var jöfn, 15:15. Hafnfirðingar náðu mest fjögurra marka forskoti í síðari hálfleik, 23:19 og Hafnfirðingar leiddu með þremur mörkum þegar tíu mínútur voru til leiksloka, 31:28. Uros Kojadinovic jafnaði hins vegar metin fyrir Partizan með lokaskoti leiksins og lokatölur því 34:34 í Hafnarfirðinum.

Jóhannes Berg Andrason skoraði níu mörk fyrir FH og Jón Bjarni Ólafsson skoraði fimm. Þá varði Daníel Freyr Andrésson 14 skot í markinu og var með 30% markvörslu.

Síðari leikur liðanna fer fram í Belgrade í Serbíu á laugardaginn kemur og þarf FH sigur til þess að tryggja sér sæti í 3. umferðinni.

Bikarmeistarar Aftureldingar þurftu að sætta sig við fimma marka tap gegn Nærbö frá Noregi í fyrri leik liðanna í Nærbö í gær, 27:22.

Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik þar sem þau skiptust á að skora en staðan að loknum fyrri hálfleik var 11:10, norska liðinu í vil.

Þegar fimmtán mínútur voru til leiksloka var Nærbö tveimur mörkum yfir, 18:16, en þá seig norska liðið hægt og rólega fram úr og fagnaði nokkuð þægilegum sigri í leikslok.

Þorsteinn Leó Gunnarsson og Ihor Kopyshynskyi voru markahæstir hjá Aftureldingu með fimm mörk hvor en síðari leikur liðanna fer fram í Mosfellsbænum á laugardaginn eftir viku.

Dregið verður í 32-liða úrslitin í höfuðstöðvum EHF í Vín í Austurríki hinn 24. október en leikirnir fara fram dagana 25. og 26. nóvember og 2. og 3. desember.