Jón Sigurgeirsson
Jón Sigurgeirsson
Hvernig geta menn þá neitað hinu að fólk hafi ódæmigerðan skilning á kynhlutverki sínu og kynferðislegum hneigðum?

Jón Sigurgeirsson

Þegar ég lærði líffræði fannst mér alveg stórkostlegt hvernig sá kóði – þ.e. DNA – sem ræður gerð efnahvata geti ráðið svona miklu um hvernig við erum bæði andlega og líkamlega. Síðan hefur komið í ljós kerfi sem skýra þetta að nokkru leyti, kerfi sem ræsa eða bæla ákveðin gen, alls konar hormónar og boðefni sem stjórna hvernig við erum og stjórna sérhæfingu og samskiptum milli frumna. Á síðustu árum hefur verið tekið stökk fram á við í skilningi á þessum kerfum og enn eru menn að uppgötva eitthvað nýtt.

Það er ljóst að maðurinn mótast allt frá getnaði og þar til hann yfirgefur þetta líf. Það er haft fyrir satt að öll fóstur hafi kvenkynseinkenni í byrjun. Á ákveðnu stigi fósturþroskans kemur ein gusa af karlhormónum hjá þeim sem hafa Y-litning og fer um allar frumur líkamans og kveikir eða slekkur á eiginleikum og úr verður oftast karlkyns einstaklingur. Eins og allt í lífinu getur þetta farið úrskeiðis og einstaklingar fæðast með ódæmigerð kyneinkenni. Við getum kallað það þroskafrávik, þ.e. fóstrið þroskast ekki eins og flestir aðrir með sömu kynlitninga.

Sumum finnst þeir vera af öðru kyni en kynfærin segja til um. Þá eru margir sem laðast að sínu kyni en ekki því gagnstæða. Mér er ekki kunnugt um hvað veldur frekar en um mörg önnur frávik frá meðaltalinu. Það er t.d. ekki hægt að afneita einhverfu þó orsakirnar fyrir henni séu ekki þekktar.

Mér finnst það ótrúlega merkilegt að menn sem ég hef talið með fullu viti, sumir jafnvel talsmenn einstaklingsfrelsis, vilji afneita tilvist slíks breytileika og ráðast með illsku að þeim sem eru þeim ósammála. Það er sagt að forsætisráðherra Bretlands hafi sagt að aðeins væru til tvö kyn. Hann skautar fram hjá því augljósa að ytri kyneinkenni eru barasta alls ekki alltaf augljós þó læknar hafi reynt að „laga“ þetta að kreddum sínum. Þá fara ekki alltaf saman genin og útlit kynfæranna. Hvernig geta menn þá neitað hinu án allra vísindalegra sannana, að fólk hafi ódæmigerðan skilning á kynhlutverki sínu og kynferðislegum hneigðum. Ég veit ekki af hverju ég laðast að konum en ekki körlum. Ég veit ekki af hverju ég er sáttur við mitt kynhlutverk og er því að þessu leyti eins og flestir af mínu kyni. Ástin er ekki lært fyrirbrigði. Það er eitthvað sem varð þess valdandi snemma á fósturstigi eða í frumbernsku – líklegast hormónar. Við vitum að slík boð geta farið úrskeiðis. Hvernig geta þá menn – sem tala jafnvel fyrir einstaklingsfrelsi – neitað mönnum um að vera það sem þeir telja sig vera þó það falli ekki að meðaltalinu á meðan þeir skaða engan með því?

Höfundur er aldraður lögfræðingur.

Höf.: Jón Sigurgeirsson