Kosningar Donald Tusk leiðtogi Borgaravettvangsins var kátur og sýndi friðarmerki þegar niðurstöðurnar úr útgönguspánum lágu fyrir í gærkvöldi.
Kosningar Donald Tusk leiðtogi Borgaravettvangsins var kátur og sýndi friðarmerki þegar niðurstöðurnar úr útgönguspánum lágu fyrir í gærkvöldi. — AFP/Janek Skarzynski
Pólskir stjórnarandstöðuflokkar eru líklegir til að ná þingmeirihluta eftir þingkosningar þar í landi í gær samkvæmt útgönguspám þegar Morgunblaðið fór í prentun. Myndi það binda enda á átta ára valdatíð popúlíska flokksins Laga og réttlætis

Kári Freyr Kristinsson

karifreyr@mbl.is

Pólskir stjórnarandstöðuflokkar eru líklegir til að ná þingmeirihluta eftir þingkosningar þar í landi í gær samkvæmt útgönguspám þegar Morgunblaðið fór í prentun.

Myndi það binda enda á átta ára valdatíð popúlíska flokksins Laga og réttlætis.

Af stjórnarandstöðuflokkunum er talið að Borgaravettvangur fái flest þingsæti eða 163. Auk hans er því spáð að stjórnarandstöðuflokkurinn Þriðja leiðin fái 55 þingsæti og Vinstriflokkurinn fái 30 sæti. Gangi þessi spá eftir geta þessir flokkar myndað meirihluta með 248 þingsætum en alls eru 460 sæti á þingi.

Lögum og réttlæti, sem nú situr í ríkisstjórn, er spáð 200 sætum og hugsanlegum samstarfsflokki þeirra, Samtökunum, 12 sætum.

Sagði lýðræði hafa sigrað

Eftir fyrstu útgönguspána sagði Donald Tusk, leiðtogi Borgaravettvangsins, valdatíð Laga og réttlætis vera liðna undir lok. „Pólland hefur sigrað, lýðræðið hefur sigrað.“

Tusk var forsætisráðherra Póllands frá árinu 2007 og til ársins 2014. Þá gegndi hann forsetaembætti í Evrópska ráðinu á árunum 2014 til 2019.

Tusk lofaði að bæta sambandið milli Póllands og Evrópusambandsins fyrir kosningarnar. Hann lofaði einnig að heimila aftur þungunarrof en Lög og réttlæti þrengdu verulega að rétti einstaklinga til þungunarrofs í valdatíð sinni.

Vongóður formaður

Leiðtogi Laga og réttlætis, Jaroslaw Kacynski, sagðist vona að flokkur hans gæti myndað næstu ríkisstjórn.

„Við munum gera allt til að tryggja að áætlun okkar komi til framkvæmda, þrátt fyrir bandalagið sem er á móti okkur,“ sagði hann. „Þetta er ekki lokaður vegur í augnablikinu.“

Stjórnmálagreinandinn Stanslaw Mocek er ekki bjartsýnn á framtíð Laga og réttlætis í ríkisstjórn. „Ég held að þetta séu í raun endalok ríkisstjórnar Laga og réttlætis,“ segir hann, samkvæmt AFP.

Greinandinn Michal Baranowksi sagði útgönguspána benda til möguleika á stöðugri stjórn.

Greinendurnir vöruðu báðir við því að þrátt fyrir að stjórnarandstöðuflokkarnir kunni að komast í meirihluta sé forseti Póllands, Andrzej Duda, bandamaður Laga og réttlætis.

Kosningaþátttaka var góð og benda útgönguspár til þess að 72,9% hafi kosið. Það er met í sögu Póllands eftir fall kommúnismans, eða frá árinu 1989, er haft eftir Sylwester Marciniak, yfirmanni landskjörstjórnar í Póllandi.

Marciniak segir suma kjörstaði hafa orðið uppiskroppa með kjörseðla og hafi þurft að lengja kosninguna vegna þessa. Fréttamenn AFP-veitunnar sáu fjölmenni á ýmsum kjörstöðum og marga kjósendur lýsa yfir gremju í garð ríkisstjórnarinnar.

Donald Tusk, formaður Borgaravettvangsins og leiðtogi stjórnarandstöðunnar, hefur sagt ríkisstjórnina vera leiða þjóðina í vitlausa átt. Þá hefur hann jafnframt sagt kosningarnar vera þær mikilvægustu frá falli kommúnismans, eða frá árinu 1989.

Fjölmenn mótmæli í Varsjá

Skoðanakannanir gáfu til kynna að Lög og réttlæti væru sigurstranglegust og fengju flest þingsæti. Flokkurinn hefði þó ekki auðveldlega getað myndað ríkisstjórn.

Bæru Lög og réttlæti sigur úr býtum í kosningunum voru taldar líkur á því að spennan milli Póllands, Evrópusambandsins og Úkraínu myndu aukast. Mateusz Morawiecki forsætisráðherra Póllands tilkynnti í síðasta mánuði að Pólland myndi ekki lengur senda vopn til Úkraínu og bannaði Pólland innflutning á korni frá Úkraínu.

Tveimur vikum fyrir þingkosningarnar mótmæltu milljón manns ríkisstjórninni í höfuðborginni Varsjá. Tusk hafði hvatt til mótmælana og sagði í ræðu sinni að Pólverjar ættu betra skilið en Lög og réttlæti.

Monika Beauth, talskona borgarstjórnar Varsjár, sagðist telja þetta stærstu mótmæli í sögu Varsjár.

Höf.: Kári Freyr Kristinsson