Björgvin var fæddur 5. september 1937 á Arnarnúpi í Keldudal við Dýrafjörð. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Hrafnistu Ísafold í Garðabæ 2. október 2023.

Foreldrar hans voru Guðbjörg Kristjana Guðjónsdóttir, f. 1897, d. 1989 og Kristján Guðmundsson, f. 1889, d. 1973. Systkini Björgvins voru: Guðmundur Jón, f. 1921, d. 1988, tvíburabróðir Guðmundar Jóns, drengur, f. 1921, sem lést í fæðingu, Guðmunda, f. 1921, d. 1959, Guðjón Örn, f. 1922, d. 2021, Sigríður Guðný, f. 1925, d. 2016, Elís Gunnar, f. 1926, d. 2021, Bjarni Sverrir, f. 1928, d. 2023 og Ingvar Stefán, f. 1931, d. 1979.

Einnig voru á bænum Bjarni Guðbjörnsson (Daddi), Inga, sem var ekkja og mágkona Guðbjargar og hennar sonur Markús Stefánsson, sem ólst upp sem einn af systkinunum.

Hinn 6. ágúst 1960 giftist Björgvin Matthildi Gestsdóttur frá Ólafsfirði, f. 1936, en hún lést 30.11. 2021. Foreldrar hennar voru Gestur Árnason og Kristjana Einarsdóttir.

Börn og afkomendur Matthildar og Björgvins eru: 1) Gunnar, f. 1961, d. 2009, dóttir hans er Matthildur, f. 1981, maki Jóhann Vignir Gunnarsson. Börn þeirra eru Hekla Sóley, Snædís Lilja og Friðrik Hrafn. 2) Kristján, f. 1964, maki Hrefna Gunnarsdóttir. Börn þeirra eru: a) Björgvin Smári, f. 1987, maki Iðunn Elva Ingibergsdóttir. Dóttir þeirra er Harpa Sif. b) Gunnhildur, f. 1996. 3) Guðlaug, f. 1972, d. 2019, sonur hennar er Þorgeir Örn Tryggvason, f. 1996, maki Hulda Ósk Bergsteinsdóttir.

Björgvin var alinn upp við hefðbundin sveitastörf þess tíma allt til ársins 1956. Hann gekk í farskóla sem var í Keldudal.

Sumarið 1956 starfaði Björgvin við brúarvinnu á Vestfjörðum. Hann flutti til Reykjavíkur haustið 1956 og hóf störf hjá Byggingarfélaginu Bæ. Þá vann hann einnig við löndun úr ísfisktogurum þar til hann fór að læra húsasmíði vorið 1957 hjá Kristni Sveinssyni. Hann kláraði iðnskólann með glæsibrag og bauðst að fara til Danmerkur að læra tæknifræði, en hafði ekki hug á því.

Í maí 1963 fór hann að vinna við byggingu orlofshúsa fyrir Alþýðusamband Íslands í Ölfusborgum. Hann réð sig til Olíufélagsins í janúar 1965 og kom þar að byggingu flestra bensínstöðva Olíufélagsins um allt land og höfuðstöðvum félagsins á Suðurlandsbraut 18. Árið 1997 gerðist hann húsvörður þar og starfaði þar uns hann lét af störfum í árslok 2004, þá 67 ára gamall.

Eftir að hann hætti störfum hjá Olíufélaginu sinnti hann smærri verkefnum á eigin vegum, en hann var mjög hjálpsamur og aðstoðaði marga við uppsetningar á innréttingum eða með annarri smíðavinnu.

Björgvin var með meistararéttindi í húsasmíði og lærði Gunnar sonur hans húsasmíði hjá honum. Hann tók þátt í störfum Trésmíðafélags Reykjavíkur og Dýrfirðingafélagsins.

Björgvin og Matthildur bjuggu lengi í Kjalarlandi 16, Reykjavík en árið 1997 fluttu þau í Lautasmára 3 í Kópavogi. Frá maí 2023 dvaldi Björgvin á hjúkrunarheimilinu Hrafnistu Ísafold í Garðabæ.

Jarðarför hans fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 16. október 2023, klukkan 13.

Þegar ég hugsa til pabba renna margar minningar um liðna tíma í gegnum hugann. Pabbi vann reyndar mjög mikið þegar ég var lítill og var í löngum túrum um landið þar sem hann byggði upp bensínstöðvar og söluskála fyrir Olíufélagið Esso. Það átti vel við hann því hann unni landinu og náttúrunni, enda sjálfur sveitastrákur úr Dýrafirði. Á ferðum sínum um landið kynntist hann mörgum enda félagslyndur. Hann eignaðist þar marga góða vini og kunningja sem hann hélt síðan sambandi við. Hann var einnig mjög ættrækinn og hélt góðu sambandi við systkini sín sem nú eru öll farin, en hann var yngstur þeirra. Hann var löngum stundum í símanum á kvöldin að ræða við bræður sína. Hann hafði mikinn áhuga á að fræða mig um marga ættingja sína og segja mér mér frá skyldleika okkar. Ég vona að ég hafi náð að grípa eitthvað af því.

Ég var svo heppinn að fá að vinna með honum nokkur sumur á trésmíðaverkstæðinu á Gelgjutanga. Þar kenndi hann mér margt og síðar hjálpaði hann mér við mínar húsbyggingar, girðinga- og pallasmíði og notaði tækifærið til að kenna mér réttu handtökin í leiðinni. Fyrir það verð ég honum ævinlega þakklátur. Hann var einnig duglegur að hjálpa öðrum með stór og smá viðvik og nutu barnabörnin m.a. góðs af því. Mér er minnisstætt þegar við Hrefna byggðum okkur hús í Aflakór í Kópavogi, þá var tengdapabbi byggingarstjóri og pabbi með honum í eftirlitinu. Þeir voru báðir komnir yfir sjötugt og voru þarna alla daga með kústinn á lofti að taka til og segja byggingarverktakanum til, enda veitti ekki af því. Þeir höfðu báðir gaman af þessu og nutu sín vel enda áttu þeir einstaklega vel saman og sögustundir urðu margar.

Síðustu ár voru honum erfið, Gunni bróðir lést árið 2009 og tók hann það nærri sér. Síðan lést Gulla systir í desember 2019 eftir skamma baráttu við krabbamein og mamma lést ári síðar. Ofan á þetta allt bættust síðan veikindi hans sem hófust fyrir alvöru haustið 2020 og bætti það ekki úr skák að fyrir var hann kominn með hjartakvilla. Síðustu þrjú ár dvaldi hann talsvert á sjúkrahúsum. Í maí síðastliðnum var hann fluttur af Landspítalanum yfir á Hrafnistu Ísafold í Garðabæ þar sem hann dvaldi þar til hann lést.

Eftir stendur minningin um heiðarlegan hjálpsaman dugnaðarfork sem gaf mér mikið og gott veganesti fyrir lífið. Minningin um hann mun lifa. Elsku pabbi, hvíldu í friði.

Kristján
Björgvinsson.

Elsku besti tengdapabbi hefur kvatt þetta líf, en dýrmætar minningar lifa með okkur.

Björgvin tengdapabbi var heiðarlegur, hjálplegur, kærleiksríkur, svolítið þrjóskur og mikill dugnaðarforkur. Yfirbragð hans var oft alvarlegt en undir niðri var gleðipinni og stríðnispúki sem braust reglulega fram með flissi, hlátri og einstökum gleðisvip sem færðist yfir andlit hans. Hann var algjört gull af manni.

Lífið var ekki alltaf auðvelt, en stærstu áföllin voru að missa tvö af þremur börnum sínum langt fyrir aldur fram. Þetta mótlæti beygði hann, en engu að síður fylltist hann eldmóði til að styðja sitt fólk sem átti einnig um sárt að binda.

Lengst af bjó fjölskyldan í Kjalarlandi 16, í húsi sem Björgvin byggði í lok sjöunda áratugarins og fjölskyldan flutti inn í árið 1970. Heimilið var oft á tíðum mannmargt þar sem vinir og ættingjar dvöldu hjá þeim um lengri eða skemmri tíma. Miklar fjarverur Björgvins frá heimilinu vegna vinnu fyrir Olíufélagið víðs vegar um landið leiddu til þess að Matta bar hitann og þungann af heimilishaldi og barnauppeldi. Það verk fórst henni vel úr hendi.

Það var gaman að koma við í nýjum söluskálum Olíufélagsins og sjá þann metnað sem Björgvin og vinnufélagar höfðu lagt í framkvæmdirnar. Ofarlega í minningabankanum er söluskálinn á Þingeyri, á æskuslóðum Björgvins, sem heimafólk tók fagnandi og börnin mynduðu biðröð fyrir utan skálann áður en hann var opnaður í október 1991.

Við húsbyggingar okkar Stjána í Kópavogi, við Lækjarhjalla og Aflakór, nutum við þekkingar og dugnaðar Björgvins. Faðir minn, Gunnar Smári, og Björgvin lögðu grunninn að báðum húsunum með uppslætti á sökklum auk þess sem þeir lögðu ómælda vinnu og aðstoð við ýmis verkefni og eftirlit með byggingarframkvæmdum. Milli Björgvins og pabba myndaðist góð vinátta og virðing. Það var því alltaf kærkomið fyrir þá að hittast og aldrei skorti umræðuefnin.

Björgvin var sveitastrákur alla ævi og hafði sterkar taugar til æskuslóða í Dýrafirði. Berjatínslu stundaði hann frá unga aldri og þar til fæturnir gátu ekki lengur borið hann út í berjamó. Hann hafði komið sér upp góðum berjatínum og útbúið sérstakt sigti til að nota við hreinsun berjanna, enda voru afköstin ótrúleg.

Undanfarin ár höfum við spurt hann reglulega hvort hann væri ekki til í að fara vestur og heimsækja Dýrafjörð. Svörin voru á þá lund að hann ætlaði að gera það þegar hann yrði betri í fótunum og ætti auðveldara með gang. Ég vil trúa því að í Sumarlandinu bíði hans fallegir dalir í líkingu við Keldudalinn, þar sem lyngið bíður berjablátt eftir sveitastráknum.

Hvíl í friði, elsku tengdapabbi, ég er endalaust þakklát fyrir ferðalag okkar í gegnum lífið í tæplega 40 ár.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

(V. Briem)

Hrefna Gunnarsdóttir tengdadóttir.

Þakklæti er mér efst í huga þegar ég hugsa um elsku afa minn Björgvin. Það er erfitt að útskýra tómarúmið sem hefur myndast eftir að afi og amma hafa nú bæði kvatt okkur. Þegar ég var barn var ég mikið í heimsókn hjá þeim í Kjalarlandinu. Amma var yfirleitt að stússa í eldhúsinu og á meðan komum við afi okkur fyrir í stiganum á milli hæða og spiluðum mikado, veiðimann og ólsen. Ég kubbaði ótal kastala með litríku kubbunum sem þau áttu og byggði líka spilaborgir. Þessar byggingarframkvæmdir má segja að hafi þurft að úthugsa vel og þá var gott að leita ráða hjá afa.

Afi var náttúrubarn og hafði gaman af því að ferðast og veiða. Ég man eftir því þegar hann gaf mér steinasafn sem hann átti sem mér fannst ótrúlega spennandi. Steinarnir voru alls kyns og ætli söfnunaráráttan mín hafi ekki byrjað þarna. Ég man eftir ættarmótunum fyrir norðan þegar afi og amma tóku mig með sér og við gistum í tjaldvagninum þeirra. Stoppað var á vel völdum stöðum og við gæddum okkur á heimasmurðu nesti úti í náttúrunni, það besta sem afi gat hugsað sér var að liggja í grasinu og gæða sér á nesti og berjum. Hann var algjör berjakarl og tíndi heilu lítrana af bláberjum þegar hann komst í hlíðarnar. Þetta var stórt áhugamál og sauð hann jafnframt sultu úr uppskerunni og átti krukkur í tugatali í Lautasmáranum sem var heimili þeirra í seinni tíð. Þær voru ófáar samverustundirnar sem við áttum við eldhúsborðið þar og rætt var um allt sem var að gerast hjá okkur öllum.

Afi spurði mig alltaf um fólkið í kringum mig, mömmu, systur, tengdafjölskylduna og skilaði kveðju á alla í hvert sinn sem við kvöddumst, ávallt með faðmlagi. Afi var alltaf til staðar og ég fylltist alltaf mikilli öryggiskennd við að vita af honum og ömmu í tilveru minni. Hann var traustur og áreiðanlegur og oftar en ekki var leitað til hans með verkefni og ráðgjöf, sérstaklega þegar málið sneri að smíðavinnu, enda var hann mjög vandvirkur og með allt í röð og reglu. Í kringum hann var líka alltaf snyrtilegt.

Afi og amma stóðu alltaf þétt við bakið á mér og það sama átti við um börnin mín þegar þau komu til sögunnar og við bættist hlutverkið afi og amma lang. Það er skrítið að hugsa til þess að nú sé ekki hægt að taka upp símann eða kíkja í kaffi og kókómjólk. Síðustu vikurnar vorum við í góðu sambandi sem fyrr og það var ljóst að það var farið að draga af þér afi minn. Ég reyndi mitt besta að styðja þig og vera til staðar fyrir þig eins og þú hefur alltaf verið fyrir mig. Ég vil fyrst og fremst þakka þér fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig og fjölskylduna mína í öll þessi ár sem við vorum svo lánsöm að hafa ykkur ömmu í okkar lífi.

Elsku afi, kletturinn minn og einn besti vinur minn í gegnum lífið. Ég óska þér góðrar ferðar yfir í sumarlandið þar sem fólkið okkar breiðir út faðminn sinn og tekur á móti þér. Ég og litla fjölskyldan mín munum alltaf hugsa til þín með þakklæti og hlýju í hjarta, því minningarnar um þig og okkar tíma saman eru fjársjóður sem við munum varðveita um alla tíð.

Þín

Matthildur
og fjölskylda.

Nú hefur Björgvin afi kvatt í síðasta sinn, en við geymum með okkur yndislegar minningar frá heimsóknum í Kjalarlandið og Lautasmárann þar sem Matta amma og Björgvin afi stjönuðu við okkur.

Það var gott að leita til afa, hann vildi allt fyrir okkur gera, var hjálpsamur og úrræðagóður. Hann var alltaf tilbúinn að keyra og skutla þegar við vorum krakkar. Þegar Björgvin Smári og Iðunn Elva stóðu í endurbótum í Ásakórnum lá hann ekki á liði sínu. Þá átti hann það til að birtast úti á golfvelli til að fylgjast með okkur systkinunum og á tímabili prófaði hann sjálfur golfíþróttina.

Minningar um afa tengjast líka sterkt bláberjum, en afi var mikill berjakarl og hafði gaman af því að leyfa öðrum að njóta uppskerunnar með sér, hvort sem það var út á skyr eða með pönnukökunum hennar ömmu.

Það er með miklum söknuði sem við kveðjum afa, en við vitum að hann er kominn á betri stað og laus við allar þjáningar. Við munum ávallt minnast hans með hlýju, væntumþykju og þakklæti fyrir þann tíma sem við fengum að njóta með honum og Möttu ömmu.

Gunnhildur og Björgvin Smári Kristjánsbörn.

Til afa.

Ég sit hér og reyni að skrifa orð sem lýsa því hversu mikilvægur þú varst í mínu lífi og hversu vænt mér þótti um þig.

Vinur er víðtækt hugtak sem hægt er að skilgreina á margan hátt. Skilgreiningin að vinur sé einstaklingur sem hafi áhuga og trú á þér, sá sem styrkir og styður þig á jafnt góðum sem erfiðum stundum á vel við um þig.

Þú varst vinur allra, vildir allt fyrir alla gera og gerðir aldrei upp á milli manna. Þú tókst á þig öll stóru hlutverkin í lífi mínu, varst afi minn, pabbi og einn minn besti vinur, allt í senn. Þú varst alltaf til staðar og alltaf tilbúinn að hjálpa ef eitthvað bjátaði á.

Ég mun sakna daglegra símtala okkar með þínum einlæga áhuga á hvað væri að gerast í lífi mínu og hvernig þú gætir aðstoðað mig. Ég mun sakna þess að þurfa að útskýra fyrir liðsfélögum mínum hvernig stæði á að ég væri kominn með kíló af vínberjum (og stundum harðfisk með þeirri lykt sem fylgdi) í hálfleik því afi minn hefði áhyggjur af að ég væri ekki að borða nógu mikið fyrir leiki.

Ég mun sakna þess að setja ekki lengur upp jólatréð fyrir jólin með þér meðan amma bakaði í eldhúsinu. Ég mun sakna allra bílferðanna sem við fórum saman. Ég mun sakna þess að geta ekki átt fleiri stundir með þér, komið og horft á enska boltann, spilað saman rommí eða talað um hvað væri að gerast hjá okkur. Listinn gæti verið endalaus, en allt var betra með góðan afa og enn betri vin sér við hlið.

Frá því að ég man eftir mér hefur þú alltaf verið til staðar, tilbúinn að skutla mér um, hlusta á mig og veita mér ráð. Þér þótti vænt um alla vini mína, vildir vita hvernig þeir hefðu það og hvort þú gætir gert eitthvað til að aðstoða. Stundum varstu of hjálpsamur, því ég man eftir þegar ég var lítill að stundum stoppaði ekki dyrabjallan út af öllum konunum í blokkinni sem þurftu aðstoð með eitthvað.

Síðustu ár voru þér erfið þar sem líkaminn fylgdi ekki sálinni síðustu sporin. Þrátt fyrir að geta ekki hjálpað mér lengur að klára pallinn, setja upp eldhúsinnréttingu, kítta í göt og ýmislegt fleira var skoðun þín á hvernig best væri að gera hlutina sjaldan langt frá. Stundum þurfti maður að passa sig á að segja þér ekki frá öllum plönum því maður vissi hvað það var erfitt fyrir þig að geta ekki aðstoðað. En að lokum var alltaf fengin skoðun frá þér, því til að standast fullgildingu þurfti alltaf að fá mat frá afa.

Ég er þakklátur fyrir allar okkar stundir og að hafa náð að segja þér hversu vænt mér þótti um þig gegnum samtöl okkar þegar við vissum að ekki væri alltof mikið eftir. Það er erfitt að hugsa til þess að þú hafir kvatt okkur og það verði aldrei hægt að fá þína skoðun á hlutum eða hvatningarorð aftur. Ég er þó þakklátur fyrir að nú getir þú loks hvílt þig og vonandi fengið að hitta alla þá ættingja sem þú saknaðir. Skilaðu góðu knúsi til mömmu, ömmu, Gunna og allra hinna.

Þinn „sonur“,

Þorgeir Örn.

Að leiðarlokum þegar Björgvin hefur kvatt er í huga einlægt þakklæti til frænda og vinar.

Björgvin kom að smíðum í foreldrahúsum mínum, hjá fjölskyldu minni og afkomendum. Þar fór reyndur og glöggur smiður og man ég vel eftir að hafa fjögurra ára gamall fylgst af aðdáun með smiðnum vinna verk sitt. Við gátum alltaf leitað til Björgvins vegna smíða og var hann snöggur til, en á síðustu árum þegar heilsu hans fór að hraka og ég gat ekki lengur kallað hann til verka hringdi ég oft í hann og leitaði ráða og kallaði ég það „Bréfaskóla Björgvins“ og hafði hann gaman af. Það voru mörg símtölin og alltaf gott spjall þegar við Björgvin hittumst.

Síðasta samtal okkar var fyrri hluta september og fjallaði um hreina tekkolíu til utanhússnotkunar. Hugsun hans var skýr og leiðbeiningarnar í samræmi við það. Símtölin voru þó ekki alltaf bundin verkum, heldur héldum við góðu sambandi gegnum árin á báða vegu, gamansögur fylgdu gjarnan með.

Björgvin starfaði í áratugi hjá Olíufélaginu hf., ESSO, og kom þar að margs konar verklegum framkvæmdum og smíðum, en langur yrði sá listi ef tekinn væri saman. Elís bróðir Björgvins var yfir trésmíðaverkstæðinu og listi þeirra beggja enn lengri.

Björgvin kom að smíði fjölda húsa, þjónustustöðva og söluskála ESSO víða um land, stórum sem smáum, og talaði ég oft á ferðum mínum um „Björgvinslag“ á skálunum, þótt fleiri hefðu nú oft komið að verki. Einnig má nefna Suðurlandsbraut 18. Þeir standa enn margir söluskálar ESSO, nú N1, en sumir hafa farið til annarra nota, t.d. hjá félagasamtökum, svo sem á golfvöllum. Burðarvirkið stóðst álag, þannig vildi Björgvin hafa það. Fyrir örfáum árum var einn af söluskálunum rifinn, sem hann hafði byggt og síðan unnið að viðbyggingu. Verktakarnir sem falið var að rífa viðkomandi skála með gröfu náðu ekki að brjóta hann niður í fyrstu og kom það þeim á óvart. Ég sagði Björgvini frá þessu atviki, „já sagði hann, þeir hafa náttúrlega ekki áttað sig á og séð límtrésbitana sem við settum þegar byggt var við, svo allt héldist nú saman“, svo hló hann sínum einlæga hlátri. Kannski var þetta dæmigert fyrir öll hans verk, þau áttu að þola álag burðar, veðurs og vinda.

Sl. sumar dvaldi ég um tíma í Dýrafirði og hringdi í Björgvin á fögrum sumardegi þegar náttúran þar skartaði sínu fegursta, og rifjaði upp minningar um aðstæður og lífið á æskuslóðum hans, Keldudal, en þangað á föðurætt mín líka rætur að rekja. Það var dýrmætt samtal.

Guð blessi minningu Björgvins Kristjánssonar, sem var einkar umhyggjusamur og kom það fram í ýmsu sem hann þurfti að takast á við í lífinu. Að leiðarlokum drúpum við höfði við fráfall einstaks manns, frænda og vinar.

Magnús
Ásgeirsson.