Ragnar Bergsveinsson fæddist 15. júlí 1922. Hann lést 3. október 2023.

Útför Ragnars fór fram 12. október 2023.

Fallinn er frá tengdafaðir minn Ragnar Bergsveinsson, fyrrverandi aðalvarðstjóri lögreglunnar. Ragnar var af vestfirskum ættum og kom það berlega fram hversu hraustur hann var og skarpgreindur.

Hann hélt upp á 100 ára afmælið sitt í fyrra og komu þá margir og héldum við glæsilega veislu til heiðurs honum. Það var gaman að sjá hversu vænt honum þótti um þetta og að sjá allt sitt fólk samankomið þarna.

Við hjónin fórum oft með þeim Ragnari og Gyðu til Flórída og naut hann sín mjög vel þar.

Minning um traustan tengdapabba lifir með okkur um ókomin ár.

Með þakklæti fyrir allt.

Þinn tengdasonur,

Magnús
Steinþórsson.

Elsku Ragnar.

Mig minnir að við höfum kynnst eitthvað fyrir brúðkaup dóttur þinnar og tengdapabba míns árið 1999 þó að ég hafi ekki verið í brúðkaupinu sjálfu þar sem dóttir okkar María Rakel fæddist viku fyrir það.

Við fyrstu kynni fannst mér þú mjög skemmtilegur maður, góður hlustandi, léttur og kátur. Kvikur í hreyfingum og orkumikill. Við áttum eftir að eiga mörg skemmtileg samtölin frá þeim tíma í jólaboðum, afmælum og þess háttar. Það var gaman að heyra þig tala um tímann í lögreglunni og hlusta á ýmsar áhugaverðar sögur sem gerðust í starfi þínu þar. Þú varst mikill félagi frænda míns og samstafsmanns þíns hans Bjarka Elíassonar og talaðir alltaf fallega um þann góða mann.

Það er ótrúlegt þegar maður horfir til baka yfir þennan aldarfjórðung frá því ég kynntist þér og rifjar upp allar stundirnar, samtölin og viðburðina í gegnum þennan tíma. Það koma svo mörg minningabrot upp í hugann að maður veit ekki hvað maður á að setja niður á blað. Kannski er það sem stendur upp úr hversu vanafastur þú varst. Ég man þegar við vorum saman í Flórída þá vildir þú alltaf sama morgunmatinn og alltaf sama magn, hvorki meira né minna. Einnig var alltaf ís í eftirrétt … og bara ein skál. Ef ég setti tvær kúlur í skálina þá kláraðir þú það og ef ég setti þrjár kúlur í skálina þá var það klárað en það var ekki séns ef ég setti tvær kúlur í byrjun að bæta við einni. Bara klárað það sem var í skálinni og ekki aðra skál. Frábær karakter og gaman að fá að fylgja þér í lífinu. Takk fyrir það.

Kveðja,

Dagmar Þorsteinsdóttir.