Hinrik Thorarensen fæddist 11. nóvember 1956 í Reykjavík. Hann lést á líknardeild Landspítalans á Landakoti 17. september 2023.

Foreldrar hans voru hjónin Hinrik Thorarensen, f. 27.2 1927, d. 21.9. 2010 og Emilía Ellertsdóttir Thorarensen, f. 13.2. 1930, sem lifir son sinn. Þau hjón bjuggu fyrst á Laugavegi 34a, en fluttu 1960 í Álfheima 20 og þar átti Hinrik heima til æviloka. Systir Hinriks er Svanlaug Dóra Thorarensen, f. 1960. Maki hennar er Haukur Harðarson, f. 1952. Börn þeirra eru Haukur Örn, f. 1981 og Sara, f. 1986.

Hinrik gekk í Langholtsskóla og lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskólanum við Lindargötu 1976 og verslunarprófi frá Verzlunarskóla Íslands tveimur árum síðar. Hann vann svo skamman tíma skrifstofustörf hjá Tízkuskemmunni, fyrirtæki foreldra sinna, en eftir það fór hann að vinna í Landsbankanum, fyrst í Múlaútibúi og svo á Laugavegi 77, þar sem hann starfaði í nær tvo áratugi.

Áhugamál Hinriks sem átti hug hans allan frá 17 ára aldri og til æviloka var fornbílar. Hinrik var ötull liðsmaður Fornbílaklúbbsins um árabil, þar af gjaldkeri í tíu ár. Hann beitti sér fyrir byggingu þriggja bílageymslna á Esjumelum og lét með ýmsu móti mjög um sig muna í starfinu. Hann ferðaðist víða bæði innlands og utan vegna þessa áhugamáls síns.

Útför hefur farið fram.

Elsku Hinrik frændi. Takk fyrir allar góðu stundirnar þegar ég var smástelpa. Margs er að minnast og margs er að sakna. Takk fyrir brúðurnar og gamla bangsa, fyrir að kenna mér allt um fiska og fyrir að sýna mér og fjölskyldu minni hlýhug. Það fennir í fótsporin en þau hverfa aldrei.

Guðdómlegur geisli blíður

greiðir skuggamyrkan geim;

á undra vængjum andinn líður

inn í bjartan friðarheim.

(Hugrún)

Elsku Hinrik frændi. Guð gefi þér ljós og frið.

Þín frænka,

Sara
Hauksdóttir.

Í dag kveður fornbílaáhugafólk tryggan vin. Hinrik Thorarensen var einn af stofnendum Fornbílaklúbbs Íslands árið 1977, en hann var þá rétt rúmlega tvítugur að aldri. Áhugi hans á gömlum bílum var einstakur og má segja að hann hafi helgað líf sitt þessu göfuga áhugamáli, en fáir voru jafn iðnir og Hinrik við að safna að sér gömlum bílum og lagfæra þá. Félagsstörfin voru honum einnig hugleikin, en fljótlega eftir stofnun Fornbílaklúbbsins gerðist Hinrik stjórnarmaður og var lengi gjaldkeri. Þeim málaflokki sinnti hann af einstakri nákvæmni, nokkuð sem var grundvöllur þess að ungt félag með háleit markmið næði að vaxa og dafna. Á upphafsárum klúbbsins var ráðist í byggingu þriggja stórra bílageymslna við Esjumel og var Hinrik fenginn til að hafa yfirumsjón með því vandasama verkefni á miklum verðbólgutímum. Áður en klúbburinn hafði náð tíu ára aldri átti hann stærri húsakynni en nokkurt annað sambærilegt félag í landinu. Áhugi Hinriks á bílasögunni og varðveislu hennar fór ekki fram hjá neinum og eftirminnilegasta verkefni hans á því sviði var uppgötvunin á gamla forsetabílnum í geymslum Þjóðminjasafnsins, en gamli Packardinn hefur nú verið gerður upp og er í dag flaggskip íslenska fornbílaflotans. Hinrik átti einnig stóran þátt í uppgerð gamla mjólkurbílsins á Selfossi, en í því verkefni fengu menn að kynnast fyrir alvöru nákvæmum vinnubrögðum hans varðandi upprunaleika, eða það sem fornbílamenn kalla í daglegu tali að hafa hlutina „original“. Að Hinriki gengnum standa þessar menningarminjar eftir sem glæstir minnisvarðar um einstakling sem lagði líf sitt og sál í einstakt áhugamál sem átti hug hans allan allt til hinsta dags.

Á meðan stjórn Fornbílaklúbbs Íslands vill koma á framfæri miklu þakklæti fyrir svo mörg og óeigingjörn störf Hinriks í þágu félagsins viljum við fornbílafólk færa aðstandendum og öllum vinum hans okkar innilegustu samúðaróskir. Blessuð sé minning hans.

F.h. stjórnar Fornbílaklúbbs Íslands,

Rúnar Sigurjónsson, formaður.