Þegar leikkonan Unnur Ösp Stefánsdóttir var smástelpa, þá var hún þegar farin að leika í Iðnó. Leikarinn Gísli Halldórsson orti til hennar: Sú er einlæg ósk til þín að þú njótir vistarinnar og þú verðir Unnur mín Ösp í skógi listarinnar

Þegar leikkonan Unnur Ösp Stefánsdóttir var smástelpa, þá var hún þegar farin að leika í Iðnó. Leikarinn Gísli Halldórsson orti til hennar:

Sú er einlæg ósk til þín

að þú njótir vistarinnar

og þú verðir Unnur mín

Ösp í skógi listarinnar.

Guðni Ágústsson fékk séra Hjálmar Jónsson til að ímynda sér í einn klukkutíma að hann væri framsóknarmaður. Innan stundar bárust Guðna vísurnar sem hann óskaði eftir og flutti hann þær í stórafmæli ráðherrans Lilju Alfreðsdóttur.

Framsóknarmanna er fagur dagur.

Þeir fagna með töktum lotningar.

Á frúnni er augljós forystubragur,

forseta, biskups og drottningar.

Hjálmar var afkastasamur og til varð önnur vísa:

Þolir allskyns bras og bögg,

bara tekur á sig rögg;

fellur ei við fyrsta högg

frækin kona Lilja Dögg.

Að auki færði Guðni Lilju forystugimbur frá Þingeyingum, „þannig að hún yrði bóndi“, og fylgdi sögunni að hún myndi heita Hrifla. Og úr því Hrifla berst í tal, þá er hermt að Eiður Jónsson Sörlatungu í Hörgárdal hafi ort til Guðrúnar Stefánsdóttur rjómabússtýru í Þingeyjarsýslu, sem síðar varð eiginkona Jónasar:

Féllu tár um föla kinn

flaut í bárum hugur minn.

Fregnin sár um fardag þinn

flaug sem ljár í hjartað inn.

Í afmælisfrétt í Morgunblaðinu um Einar Baldvin Guðmundsson hæstaréttarlögmann vildi ekki betur til en hann var sagður kominn á sjötugasta tuginn. Af því tilefni orti Pétur Benediktsson:

Heldur aldinn Einar Baldvin þykir.

Senn án lasta sómakær

sjötugasta tugnum nær.

Í ævisögu Péturs eftir Jakob F. Ásgeirsson greinir frá því, að eftir heimkomuna hafi hann lesið lofgrein í Morgunblaðinu eftir Örlyg Sigurðsson um Eyþór í Lindu, athafnamann á Akureyri, sem átti stórafmæli þennan dag. Fyrirsögnin var: „Úr líkkistum í Lindukonfekt“. Eyþór hafði verið líkkistusmiður áður en hann hóf konfektgerð. Þetta varð Pétri efniviður í afmæliskveðju í bundnu máli:

Er árum fjölgar oft sú spurning getur

ásótt gamla menn, hvort fleiri vetur

þeir tórað fái. En tilhlakk að þeim setur

ein tilhugsun, af Örlyg færð í letur:

Úr líkkistunni Lindukonfekt étur

líkið. Punktur. Hjartans kveðjur, Pétur.