Einbeiting Frá viðureign Skákdeilda KR og Fjölnis í dag.
Einbeiting Frá viðureign Skákdeilda KR og Fjölnis í dag. — Ljósmynd/Skáksamband Íslands
Skákdeild Fjölnis er efst í Íslandsmóti skákfélaga, sem kalla mætti árshátíð skákmanna, sem lauk um helgina í Rimaskóla. Eftir fimm umferðir eru Fjölnismenn efstir í úrvalsdeild, Kvikudeildinni, með 10 stig

Skákdeild Fjölnis er efst í Íslandsmóti skákfélaga, sem kalla mætti árshátíð skákmanna, sem lauk um helgina í Rimaskóla.

Eftir fimm umferðir eru Fjölnismenn efstir í úrvalsdeild, Kvikudeildinni, með 10 stig.

Taflfélag Reykjavíkur er í öðru sæti með 7 stig og Víkingaklúbburinn í því þriðja með 6 stig.

Þessi þrjú félög munu því berjast um titilinn í síðari hlutanum sem tefldur verður 29. febrúar til 3. mars.

Í öðrum deildum eru tefldar sjö umferðir í heildina og lauk fjórum þeirra um helgina, en síðari hluti mótsins fer fram í vor.

Skákdeild Breiðabliks leiðir fyrstu deild

Skákdeild Breiðabliks er í efsta sæti í 1. deild með fullt hús stiga og eru Blikar líklegir til að endurheimta sæti sitt í úrvaldsdeild að ári. Skákfélag Akureyrar er í öðru sæti með 7 stig en þessi lið mætast í síðustu umferð í viðureign sem gæti verið hrein úrslitaviðureign.

B-sveit Akureyringa er á toppnum í 2. deild með 7 stig, B-sveit KR og c-sveit Taflfélags Reykjavíkur eru í 2.-3. sæti með 6 stig. B- sveit Fjölnis er í efsta sæti í 3. deild með 7 stig og Skákfélag Sauðárkróks í öðru sæti með 6 stig.

B-sveit Fjölnis er í efsta sæti í 3. deild með 7 stig, Skákfélag Sauðárkróks í öðru sæti með 6 stig og Skákfélag Selfoss og nágrennis í því þriðja með 5 stig.

Skákfélagið Dímon, frá Hveragerði, er langefst í fjórðu deild með fullt hús stiga. B-sveit Vinaskákfélagsins, e-sveit KR og c-sveit Skákfélags Akureyrar eru í 2.-4. sæti með 6 stig.