Örn Gunnlaugsson
Örn Gunnlaugsson
Blóm, kransar og gjafakort eru afþökkuð en þeim sem vilja gleðja mig er bent á bágstadda.

Örn Gunnlaugsson

Nú er í uppsiglingu mikil vertíð hjá trúboði Mammons og verður gríðarlegur fyrirgangur í lærisveinum hans eins og ávallt í aðdraganda jólanna. Trúboðar þessir eru snillingar í að telja okkur sauðsvörtum almúganum trú um að ekki bara okkur sjálf bráðvanti alls kyns óþarfa heldur að okkar nánustu vanhagi einnig um alls kyns drasl sem upplagt sé að kaupa í jólagjafir. Svo rammt kveður að sannfæringarkrafti trúboðanna að þeim tekst oftar en ekki að sannfæra okkur um að detti okkur ekkert sniðugt í hug þá sé upplagt að kaupa gjafakort sem þiggjandinn geti notað til að kaupa þann óþarfa sem okkur hefur yfirsést að hann vantaði svo sárlega. Sá hængur er á þessum gjafakortum að þau hafa yfirleitt takmarkaðan gildistíma að ógleymdum þeim annmarka að ekki er alls staðar hægt að nýta þau. Sjálfur er ég haldinn þeim króníska kvilla að mig vantar ekkert og langar ekki í neitt veraldlegt, ég kalla þennan sjúkdóm minn lúxusvandamál en sökum eðlis hans er hann illmeðhöndlanlegur. Engin meðöl eru til við þessum meinlega kvilla en honum má halda niðri með góðum ásetningi og ríflegum skammti af óskynsemi.

Móðir mín heitin átti síðustu árin sem hún dvaldi með okkur í þessu tilverustigi í stöðugum vandræðum með að finna eitthvað huggulegt í gjafir sem komið gætu að góðum notum fyrir þiggjandann. Skyldurækni var henni í blóð borin og því kom aldrei til greina annað en að færa sínum nánustu jólagjafir í stað þess að láta nægja fallegar jólakveðjur og þær yndislegu samverustundir sem fjölskyldan átti í tilefni hátíðanna. Slíkt er nefnilega mun verðmætara en veraldlegur óþarfi sem gleymist á augabragði. Góðar samverustundir lifa í minningunni og birtast eftirlifendum jafnvel löngu eftir að hinir eru horfnir til vistar í blómabrekkunni þar sem við sameinumst öll að lokum. Í seinni tíð birtist þetta jólagjafastand með þeim hætti að þetta var meira eins og verkefni hjá mömmu frekar en hugulsemi við að gleðja aðra með gjöfum, nokkuð eins og fyrirtæki leysa þessar ímynduðu skyldur sínar. Var þá farið á stúfana og keyptur bílfarmur af heilsukoddum eitt árið, handklæði annað árið, rúmföt og svo koll af kolli og allir fengu það sama, jafnvel pakkað inn í eins pappír. Síðustu árin var móðir mín hins vegar orðin algjörlega uppiskroppa með hugmyndir og komu þá frasar mammonstrúboðanna um gjafakort eins og himnasending til hennar.

Nú tók gjafakortatímabilið við hjá móður minni sem greip í þetta haldreipi ekki aðeins á jólunum heldur öllum tilefnum sem hægt var að finna upp á. Gjafakort í Borgarleikhúsið voru henni sérstaklega hugleikin og færði hún nú sínum nánustu heilu umslögin bólgin af þessum kortum við hvert tækifæri. Slíkur var fjöldi þessara korta að ég og eiginkona mín komumst engan veginn yfir að nýta þau áður en önnur birtust og því safnaðist þetta upp hjá okkur. Nú, fjórum árum frá því að sú gamla kvaddi þennan heim, eigum við enn dálítinn bunka sem við erum að reyna að nýta upp. Trúboðar Mammons náðu mömmu nefnilega algjörlega og átti hún mikil viðskipti við Borgarleikhúsið þá daga sem hún átti eftir meðal okkar hér.

Nú heimsótti ég miðasölu Borgarleikhússins fyrir nokkrum dögum og hugðist nýta eitthvað af bunkanum góða til að sjá verk sem verið er að hefja sýningar á. Ég verð nú að viðurkenna að ég er svolítið grænn í þessum efnum og taldi að texti á gjafakortinu sem segir að gegn framvísun þess fengi ég afhentan einn miða á sýningu að eigin vali ætti að túlka með þeim hætti að skiptin væru á jöfnu. En því var nú aldeilis ekki að heilsa. Til að fá einn miða þurfti ég að reiða fram tvö gjafakort og reyndar gott betur. Blásið var á athugasemdir mínar um að í gjafabréfinu stæði að ég ætti að fá einn miða á sýningu að eigin vali. Kona á besta aldri sem afgreiddi mig tjáði mér að gjafakortin væru ekki verðtryggð en jafnvel því sýndi ég lítinn skilning þar sem ekki var tiltekin nein sérstök upphæð á kortunum heldur aðeins einn miði á sýningu að eigin vali. Það varð mér sennilega til bjargar að verða ekki snúinn niður og járnaður á staðnum að nefnd kona var einstaklega geðug með húmorinn í lagi og hló hún bara að þessum nöldrara sem taldi sig hlunnfarinn. Þarna fékk ég í raun aðeins pláss undir aðra rasskinnina og tæplega það fyrir gjafakortið.

Það hefur alla tíð þótt óbrigðult að uppfæra hluti til verðmætis með tilliti til þess hvað brennivínsflaskan kostar hverju sinni. Víst er að mér hefði þótt súrt í broti ef ég hefði ætlað að innleysa gjafabréf fyrir einni flösku í Vínbúðinni og upplifað það að kassastarfsmaðurinn tæki gúlsopa niður í hálfa flösku áður en hann hleypti mér út með hana.

Einu alvörugjafakortin eru í raun bandaríkjadollarar sem breyta má í verðmæti alls staðar í heiminum. Nú vil ég koma því á framfæri að hvað mig varðar þá eru blóm, kransar og gjafabréf afþökkuð en þeim sem vilja gleðja mig bent á bágstadda. En kannski voru gjafakort mömmu frá Borgarleikhúsinu ógalin og slungin leið hjá henni til að láta muna eftir sér um ókomna framtíð. Að minnsta kosti kemur sú gamla alltaf ljóslifandi upp í hugann þegar ég sé þessi gjafakort.

Höfundur er fyrrverandi atvinnurekandi.