Elín Vilborg Friðvinsdóttir fæddist á Sauðárkróki 1. apríl 1958. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 29. september 2023.

Elín var dóttir hjónanna Friðvins Jóhanns Svans Jónssonar, f. 11. janúar 1932, d. 5. janúar 1999, frá Steini á Reykjaströnd, og Ingibjargar Vilhjálmsdóttur, f. 19. febrúar 1939, d. 4. maí 2013, frá Ingveldarstöðum á Reykjaströnd.

Elín var alin upp hjá móðurömmu og –afa sínum í Háaskála á Hofsósi, Elínu Hermannsdóttur, f. 8. apríl 1903, d. 3. september 1982 og Vilhjálmi Guðmundssyni, f. 30. janúar 1898, d. 18. janúar 1980. Í Háaskála, þegar Elín var að alast upp, bjuggu einnig tveir frændur hennar, Hermann Skarphéðinn Ragnarsson, f. 29. janúar 1927, d. 24. apríl 1990 og Bragi Vilhjálmsson, f. 4. febrúar 1938, d. 20. janúar 2006 og tóku þeir virkan þátt í uppeldi Elínar og seinna sonar hennar Óðins og má með sönnu segja að Bragi hafi litið á Óðin sem dótturson sinn.

Bræður Elínar eru Jón Sigurður Friðvinsson, Heimir Örn Friðvinsson, Valur Smári Friðvinsson og Halldór Frosti Friðvinsson.

Eiginmaður Elínar er Jón Sævar Sigurðsson, f. 5. maí 1962. Sonur Elínar er Óðinn Már Kristjánsson, f. 28. október 1978, búsettur á Sauðárkróki og ömmustelpa Elínar er Hafdís Braga Óðinsdóttir, f. 14. apríl 2006.

Elín bjó mestan hluta ævi sinnar á Hofsósi sem barn og unglingur í Háaskála og svo á Kárastíg 5 með eiginmanni sínum.

Elín var alla tíð verkakona og vann hún mestan hluta starfsævinnar í frystihúsinu á Hofsósi.

Útför Elínar Vilborgar fer fram í dag, 16. október 2023, og hefst athöfnin klukkan 15.

Mín kæra systir Elín Vilborg eða Ella eins og ég kallaði hana alltaf er dáin og eftir sitja minningarnar einar. Þegar ég var barn í Árbakka, næsta húsi við Háaskóla, lékum við okkur alltaf við ána, þá passaði Ella okkur bræður og sá til þess að við færum okkur ekki að voða.

Ella var skemmtileg kona, hún hafði hárbeitt skopskyn og minnti oft á móður okkar hvað það varðar. Hún hafði líka mjög ákveðnar skoðanir og lá ekki á þeim ef því var að skipta. Gott var að sækja Ellu heim, hún tók alltaf fagnandi á móti okkur hjónum. Við heimsóttum hana í síðasta sinn í sumar. Þá var hún orðin mjög veik en þrátt fyrir veikindin tók hún vel á móti okkur og spjallaði um alla heima og geima eins og hennar var von og vísa. Hún var glöð og gat gantast þrátt fyrir allt.

Ekki munum við aftur hitta Ellu á Hofsósi, hún hefur nú kvatt þessa jarðvist, farðu í friði elsku systir og mágkona.

Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

(Valdimar Briem)

Valur og
Sigríður (Sigga).