Kennileiti Íslandsbankahúsið eins og það leit út fyrir rúmum áratug.
Kennileiti Íslandsbankahúsið eins og það leit út fyrir rúmum áratug. — Morgunblaðið/Ómar
Lóðarhafi á Kirkjusandi 2 hefur auglýst niðurrif á Íslandsbankahúsinu svokallaða á lóðinni. Byggingarfulltrúi Reykjavíkur veitti nýverið leyfi til að rífa húsið, sem var sem kunnugt er dæmt ónýtt vegna myglu

Lóðarhafi á Kirkjusandi 2 hefur auglýst niðurrif á Íslandsbankahúsinu svokallaða á lóðinni. Byggingarfulltrúi Reykjavíkur veitti nýverið leyfi til að rífa húsið, sem var sem kunnugt er dæmt ónýtt vegna myglu.

„Verktaki tekur við byggingunni í því ástandi sem hún er á tilboðsdegi og sér um að rífa hana niður og fjarlægja þar með talið sökkla og botnplötu og allar lagnir tengdar við byggingu í grunni hennar. Verktaki sér um alla aðstöðusköpun, girðingu, rekstur vinnusvæðis o.fl. á framkvæmdatíma verksins,“ segir í auglýsingu en heildarstærð niðurrifsins er 6.920 fermetrar. Útboðsgögn voru afhent á fimmtudaginn síðasta og tilboð verða svo opnuð hinn 31. október næstkomandi.

Eins og komið hefur fram í Morgunblaðinu er mikil uppbygging fyrirhuguð í stað hússins en niðurrif þess hefur dregist af ýmsum ástæðum. Áform eru um byggingu fjölbýlishúsa á lóðinni. Heimilt verður að byggja 27.100 fermetra ofan jarðar og 23.900 fermetra bílastæðahús neðan jarðar. Leyfilegt heildarbyggingarmagn verður því 51.000 fermetrar. Heimilaður heildarfjöldi íbúða verður 225. hdm@mbl.is