Fjölskyldufrí Arnór Sveinn, Einar Bragi, Elísabet, Alexander Atlas, Aðalsteinn, Hrafney Aþena og Bjarki um jólin í fyrra.
Fjölskyldufrí Arnór Sveinn, Einar Bragi, Elísabet, Alexander Atlas, Aðalsteinn, Hrafney Aþena og Bjarki um jólin í fyrra.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Elísabet Berglind Sveinsdóttir fæddist 16. október 1963 í Keflavík. Þar sleit hún barnsskónum þangað til hún fór í framhaldsskóla – Kvennaskólann í Reykjavík árið 1980. „Ég ólst upp í Keflavík þar sem allt föðurfólkið mitt bjó og var mikill samgangur okkar á milli

Elísabet Berglind Sveinsdóttir fæddist 16. október 1963 í Keflavík. Þar sleit hún barnsskónum þangað til hún fór í framhaldsskóla – Kvennaskólann í Reykjavík árið 1980.

„Ég ólst upp í Keflavík þar sem allt föðurfólkið mitt bjó og var mikill samgangur okkar á milli. Ég var mikið á Suðurgötu 19, hjá ömmu minni og nöfnu, Elísabetu Sveinsdóttur, meðan hún lifði. Amma átti einnig sumarbústað í Þrastaskógi sem var minn uppáhaldsstaður. Móðuramma og -afi bjuggu á Sveinsstöðum í Mosfellsbæ, en þau bjuggu lengi vel á Skálum á Langanesi og Þórshöfn. Síðan varð ég svo fræg að vera sumarpart í sveit á Dýrfinnustöðum í Skagafirði þar sem bróðir minn var í sveit. Annars var ég mestmegnis bara í „Sunny Kef“ og mikið í boltanum.“

Elísabet var ákaflega virkt barn og tók þátt í öllum íþróttum sem í boði voru í bænum. Hún vann með skóla á Aðalstöðinni og síðar í Íslenskum markaði og í Fríhöfninni í Leifsstöð.

„Hér í gamla daga var tekið við öllum mögulegum og ómögulegum myntum í verslunum í gömlu flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Einu sinni vorum við að gera upp kassana eftir flugtraffíkina og þá voru afgreiðsluborðin undirlögð af klinki og seðlum. Hófst þá mikið bank og bjölluhringingar, en verslunin var lokuð og læst enda ekki leyfilegt að opna meðan uppgjörið fór fram.

Enn var bankað þegar verslunarstjórinn bað mig að kanna hvað væri í gangi og vinsamlega segja fólkinu að róa sig niður og bíða meðan við gerðum upp. Þegar ég hratt upp harmonikkuhurðinni og hreytti í fólkið sem stóð þar fyrir framan að það gæti bara beðið rólegt hálfpartinn leið yfir samstarfskonur mínar þar sem þetta var Frank Sinatra. Hann fékk því heldur óblíðar móttökur hjá þessari 19 ára gömlu stúlkukind, sem vissi ekki hver hann var. Þess má þó geta að hann lét greipar sópa í handprjónuðu lopapeysunum og keypti handa öllum fjölskyldumeðlimunum sem ég hjálpaði honum að velja.“

Elísabet lauk grunnskólagöngu í Keflavík og stúdentsprófi við Kvennaskólann í Reykjavík. Hún fór til Bandaríkjanna í nám við Rockford University, tók hagnýta fjölmiðlun við Háskóla Íslands og lauk MBA við HÍ árið 2007.

Síðar starfaði Elísabet í markaðsdeild Iðnaðarbankans, var fréttamaður á RÚV, markaðsstjóri hjá Íslandsbanka og Advania svo eitthvað sé nefnt. Elísabet stýrði einnig Gettu betur ásamt Hermanni Gunnarssyni. Árið 1988 flutti fjölskyldan til Þýskalands þar sem eiginmaður hennar, Aðalsteinn Jónsson, fékk atvinnumannssamning í handbolta. Þau bjuggu við rætur Svartaskógar, í Offenburg og síðar Freiburg.

„Þýskalandstíminn okkar var frábær og ég sakna hans alltaf. Arnór Sveinn var tveggja ára þegar við fluttum út og síðan fæddist Bjarki í Emmendingen sem er dásamlegur lítill bær rétt hjá Schwarzwaldklinik. Við eigum sterkar tengingar þangað og góða vini sem við erum dugleg að rækta.“

Núna starfar Elísabet sjálfstætt sem markaðskona og fararstjóri auk þess sem hún sinnir hlutverki bæjarfulltrúa í Kópavogi og er forseti bæjarstjórnar. „Það er alveg ný reynsla að vera komin í þann geira og eitthvað sem tekur sennilega tíma að venjast – en mitt markmið er ofureinfalt þ.e. að efla bæinn minn og öll þau lífsins gæði sem hann hefur að bjóða.“

Elísabet var stjórnarformaður ÍMARK, félags markaðsfólks, um árabil og stofnaði síðan „Á allra vörum“ árið 2008 ásamt vinkonum sínum þeim Gróu Ásgeirsdóttur og Guðnýju Pálsdóttur.

„Við höfum staðið fyrir fjölda vitundarvakninga og safnað um milljarði sem hefur nýst til góðra mála. Til dæmis hefur Kvennaathvarfið notið þess, Ljósið, Erindi samskiptasetur, Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna, Eitt líf, Krabbameinsfélag Íslands, Neistinn, geðdeild Landspítalans og Leiðarljós. Ég er stolt af þessu framtaki okkar og að eiga þátt í því að vekja athygli á málefnum sem oft á tíðum fá litla athygli.

Áhugamál mín tengjast fjölskyldunni, barnabörnunum mínum, göngum og gleði með öllum skemmtilegu vinkonum mínum og svo bara almennri mannrækt.“

Fjölskylda

Eiginmaður Elísabetar er Aðalsteinn Jónsson, f. 13.11. 1962, íþróttakennari og þjálfari. Þau eru Kópavogsbúar. Foreldrar Aðalsteins eru hjónin Þorgerður Aðalsteinsdóttir, f. 31.12. 1940, fv. framkvæmdastýra Álforms ehf. og Jón Björnsson, f. 29.6. 1937, fv. flugumferðarstjóri, búsett í Kópavogi.

Synir Elísabetar og Aðalsteins eru: 1) Arnór Sveinn, f. 26.1. 1986, kennari og fótboltamaður, búsettur í Kópavogi. Maki: Sandra Sif Magnúsdóttir, deildarstjóri hjá Icepharma. Börn þeirra eru Alexander Atlas, f. 7.9. 2018, og Hrafney Aþena, f. 14.12. 2020; 2) Bjarki, f. 10.10. 1991, kennari og fótboltamaður, búsettur í Kópavogi. Maki: Agnes Guðlaugsdóttir, byggingarverkfræðingur M.Sc og starfar hjá Eflu; 3) Einar Bragi, f. 22.8. 2002, nemi í lögfræði og handboltamaður í FH, búsettur í Kópavogi.

Bræður Elísabetar eru Gunnar Már Paris, f. 23.3. 1956, byggingafræðingur, búsettur í Kópavogi, og Einar Sigurbjörn Sveinsson, f. 1.4. 1966, flugmaður, búsettur í Bandaríkjunum.

Foreldrar Elísabetar: Sveinn Valtýr Einarsson, f. 24.6. 1920, d. 28.6. 1984, bifreiðarstjóri og sjómaður í Keflavík, og Stefanía Arnfríður Magnúsdóttir, f. 8.10. 1934. fv. verslunarstjóri í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli, búsett í Garðabæ.