Leiðtogar Åge Hareide gaf það sterklega til kynna að þeir Gylfi Þór Sigurðsson og Aron Einar Gunnarsson myndu byrja gegn Liechtenstein.
Leiðtogar Åge Hareide gaf það sterklega til kynna að þeir Gylfi Þór Sigurðsson og Aron Einar Gunnarsson myndu byrja gegn Liechtenstein. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Åge Hareide, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, ætlar ekki í einhverja tilraunastarfsemi gegn botnliði Liechtenstein þegar liðin mætast í J-riðli í undankeppni EM 2024 á Laugardalsvelli í kvöld

EM 2024

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Åge Hareide, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, ætlar ekki í einhverja tilraunastarfsemi gegn botnliði Liechtenstein þegar liðin mætast í J-riðli í undankeppni EM 2024 á Laugardalsvelli í kvöld. Þetta tilkynnti Normaðurinn á blaðamannafundi íslenska liðsins í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal í gær.

Ísland er með 7 stig í fimmta og næstneðsta sæti riðilsins en Liechtenstein er án stiga í neðsta sætinu. Ísland er sem stendur í 67. sæti á styrkleikalista Alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA á meðan Liechtenstein er í 199. sætinu.

Ísland vann fyrri leik liðanna í Vaduz í mars, 7:0, en þá var Arnar Þór Viðarsson þjálfari íslenska liðsins. Reyndist það síðasti leikur hans með liðið en landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson skoraði þrennu í leiknum og þeir Davíð Kristján Ólafsson, Hákon Arnar Haraldsson, Andri Lucas Guðjohnsen og Mikael Egill Ellertsson eitt mark hver.

Davíð Kristján og Mikael Egill eru ekki í leikmannahóp Íslands fyrir leikinn gegn Liechtenstein en þeir Andri Lucas, Aron Einar og Hákon Arnar eru allir á sínum stað í hópnum og klárir í slaginn í kvöld.

„Við erum ekki að fara í einhverja tilraunastarfsemi gegn Liechtenstein,“ sagði Hareide, á blaðamannafundi gærdagsins.

Mikilvægt upp á framhaldið

„Þetta er mikilvægur leikur fyrir okkur upp á framhaldið að gera og við erum á þeim stað núna að leikmennirnir þurfa að spila saman og læra inn á hvorn annan. Hver einasti leikur er mikilvægur fyrir okkur sem lið og það eru þrír leikir eftir í undankeppninni.

Við munum stilla upp okkar sterkasta liði í þeim leikjum sem eftir eru því það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að koma bæði Aroni Einari Gunnarssyni og Gylfa Þór Sigurðssyni inn í það sem við erum að gera á vellinum, sérstaklega ef við horfum til mögulegs umspils í mars,“ sagði Hareide.

Landsliðsþjálfarinn gaf það sterklega til kynna á blaðamannafundinum í gær að Aron Einar og Gylfi Þór yrðu báðir í byrjunarliðinu gegn Liechtenstein.

„Við erum með unga og mjög hæfileikaríka leikmenn og það er gríðarlega mikilvægt fyrir þá að hafa Aron Einar og Gylfa Þór með sér því þetta eru leikmennirnir sem hafa séð þetta allt saman áður og þekkja þennan alþjóðlega fótbolta út og inn.

Við þurfum að finna réttu blönduna í liðinu fyrir marsleikina og það er nákvæmlega það sem við ætlum okkur að gera í þessum leikjum sem eftir eru. Sem landsliðsþjálfari þá færðu mjög takmarkaðan tíma með leikmönnunum og við þurfum því að nýta tímann eins og best verður á kosið.“

Norðmaðurinn er bjartsýnn fyrir hönd íslenska liðsins og vonast til þess að koma liðinu aftur á stórmót.

„Við þurfum fyrst og fremst að vera stekari andlega, sérstaklega þegar að við erum í mótvindi. Það er eitthvað sem kemur meðal annars með reynslu en ég hef fulla trú á því að þetta lið geti komist á sama stað og Ísland var eitt sinn.

Það er ekki langt síðan Ísland fór í lokakeppni Evrópumótsins og heimsmeistaramótsins og þá var liðið mjög andlega og líkamlega sterkt. Leikmennirnir þar vissu nákvæmlega hvað þeir þurftu að gera til þess að ná í úrslit og það er sá staður sem við viljum komast aftur á,“ bætti Hareide við.

Höf.: Bjarni Helgason