Þráinn G. Gunnarsson fæddist í Garðshorni í Flatey á Skjálfanda 4. desember 1950. Hann lést á Sjúkrahúsinu á Húsavík 28. september 2023.

Foreldrar hans voru Þorgerður Gunnarsdóttir, f. í Flatey á Skjálfanda 8. júlí 1923, d. 28. júní 2019, og Gunnar Sturlaugsson Fjeldsted, f. 18. febrúar 1930, d. 6. janúar 2003. Þau slitu samvistir eftir stutta sambúð. Systkini Þráins samfeðra eru Eygló, f. 20. febrúar 1952, og Grétar Ingi, f. 5. mars 1970.

Þráinn kvæntist Ingibjörgu Jónsdóttur frá Siglufirði, f. 25. apríl 1956. Þau skildu. Börn Þráins og Ingibjargar eru: 1) Þorgerður Kristín, f. 24. júlí 1975, búsett í Garðabæ, var gift Ingvari Jóhanni Kristjánssyni, f. 25. nóvember 1969. Börn þeirra eru: Þórey, f. 31. ágúst 2007, Kristján, f. 4. júlí 2009, og Vala, f. 4. júlí 2009. 2) Jón Skúli, f. 20. apríl 1982, búsettur í Finnlandi, kvæntur Milu Koponen. Börn þeirra eru: Elísabet Rose, f. 18. júní 2013, Ian Hrafn, f. 5. febrúar 2016, Móeiður Lily, f. 6. júlí 2018, Noel Örn, f. 11. desember 2020, og Antero Valur, f. 16. febrúar 2023. 3) Ásmundur Ýmir, f. 11. ágúst 1988, búsettur á Húsavik.

Þráinn ólst fyrstu tvö árin upp í Flatey. Þá fluttist hann, ásamt þeim sem eftir voru af fjölskyldunni í Flatey, til Húsavíkur. Þráinn, ásamt móður sinni, tveimur systkinum hennar og ömmu, settist að í Hallanda sem er tignarlegt og nokkuð sérkennilegt hús, byggt inn í bakkann við höfnina. Þráinn og Ingibjörg hófu búskap á efri hæðinni í Hallanda. Þau byggðu sér síðar hús í Brúnagerði þar sem Þráinn bjó alla tíð síðan.

Þráinn vann ýmis störf og kom að rekstri nokkurra fyrirtækja í gegn um tíðina. Upp úr tvítugu hóf hann störf hjá verktakafyrirtækinu Varða hf. á Húsavík og gerðist einn af hluthöfum þess. Varði sá um múrverk, rak steypustöð og steypubíla og kom að flestum byggingum á Húsavík frá stofnun og fram til ársins 1980. Frá Varða fór Þráinn að starfa hjá Samvinnubankanum en réð sig svo til Höfða hf. útgerðarfélags sem gerði m.a. út togarann Júlíus Hafstein og seinna Kolbeinsey. Þráinn undi sér vel í útgerðarbransanum og starfaði hjá félögunum Höfða og Íshafi allt þar til þau voru seld. Þá færði hann sig yfir til Flugfélags Íslands og sá um skrifstofu félagsins á Húsavík. Hann tók svo við sem rekstrarstjóri Shell-stöðvarinnar á Húsavík og rak þar um árabil eina helstu félagsmiðstöð bæjarins. Síðustu ár starfaði Þráinn hjá Flugfélaginu Erni. Þráinn og Ingibjörg stofnuðu og ráku íþrótta- og útivöruverslunina Tákn frá 1995-2008. Samhliða störfum sínum sinnti Þráinn ýmsum trúnaðar- og nefndarstörfum og kom víða við.

Þráinn lét þjóðfélagsmál og umræðu sig varða alla tíð. Hann var um tíma virkur þátttakandi í sveitarstjórnarmálum í Norðurþingi og leiddi m.a. lista Samfylkingarinnar í kosningum árið 2010. Hann var félagsmaður í Lions og einn af stofnendum Kótelettufélags Íslands.

Útför fer fram frá Húsavíkurkirkju í dag, 16. október 2023, klukkan 13.

Í dag kveðjum við elsku pabba.

Hann var ekki tilbúinn að fara og barðist eins og hetja við illvígan og óvæginn sjúkdóm fram á síðasta dag. Þrátt fyrir hvert áfallið á fætur öðru undanfarnar vikur þá hélt hann í vonina nánast fram á síðasta dag. Um páskana sátum við saman og skipulögðum næstu utanlandsferð grunlaus um hvað næstu vikur bæru í skauti sér. Þetta átti að vera fjölskylduferð. Hann ásamt okkur systkinunum og öllum barnabörnunum að eiga gæðastundir saman. Pabbi komst því miður ekki með en ekki áttum við von á því að við þyrftum að kveðja hann í hinsta sinn svona stuttu síðar.

Pabbi var kletturinn í lífi mínu. Alltaf til staðar. Tilbúinn að aðstoða með það sem þurfti sama hvað það var, smíða, bora, gera og græja. Hann var mættur með allar græjur og gekk í málið. Alltaf tilbúinn að veita ráð, hlusta og spjalla. Kaldhæðinn með svartan og beittan húmor sem hann greip ógjarnan til annaðhvort til að slá hlutunum upp í grín eða jafnvel til að stuða menn og koma af stað líflegum rökræðum.

Hann var góður afi og lagði sig fram við að kynnast barnabörnunum og fá að verja með þeim tíma. Við eigum dýrmætar minningar frá Húsavík og úr ferðalögunum sem hann fór í með okkur þar sem yfirleitt voru einhver ævintýri eða óvæntar uppákomur sem gerður ferðina enn eftirminnilegri.

Takk fyrir allt elsku pabbi. Þín er sárt saknað.

Þorgerður K. Þráinsdóttir.

Elsku afi.

Það er sárt og erfitt að þurfa að kveðja þig svona fljótt. Það er svo stutt síðan við vorum að skipuleggja næstu ferðalög og ævintýri. Þú varst góður afi, skemmtikraftur með stórt hjarta og alltaf tilbúinn að gera eitthvað og brasa með okkur.

Við eigum góðar minningar um fríin á Húsavík og ferðalögin sem þú fórst í með okkur. Skemmtilegast þótti okkur samt alltaf að fara með þér út á bátinn. Sigla um flóann, skoða hvali og kíkja í Flatey.

Takk elsku afi fyrir allar góðu stundirnar.

Minning þín mun lifa með okkur.

Þórey, Kristján og Vala Ingvarsbörn.