Halla Kristbjarnardóttir fæddist 24. mars 1951 í Reykjavik og ólst upp í fjölskylduhúsinu á Miklubraut 48. Hún lést á sjúkrahúsinu í Holbæk í Danmörku 18. september 2023. Frá árinu 1996 bjó hún í Hvalsø í Danmörku.

Foreldrar Höllu voru Guðbjörg Helgadóttir Bergs, f. 6. mars 1919, d. 13. júlí 2002, og Kristbjörn Tryggvason barnalæknir, f. 29. júlí 1909, d. 23. ágúst 1983.

Halla var yngst þriggja systkina. Elstur var Helgi geðlæknir og stofnandi Flögu hf., f. 25. júní 1947, d. 30. september 2002, eiginkona hans var Sigríður Sigurðardóttir tölvukennari, f. 12. ágúst 1946, d. 30. júlí 2017. Systir Höllu er Fanney, f. 24. september 1949, eiginmaður hennar er Gunnar Rafn Einarsson, f. 12. júní 1949.

Halla giftist Kurt Oskar Nielsen, f. 5. apríl 1944, d. 2010. Hann starfaði sem hljóðfærasmiður í Danmörku og á Íslandi. Síðustu árin var Halla í sambúð með Kurt Bjarne Nielsen.

Halla gekk í Hlíðaskóla og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð vorið 1972.

Hún lauk svo námi í tómstundafræði frá kennaraháskólanum í Stokkhólmi og starfaði lengst af við barnagæslu og barnakennslu. Systkinabörnin eru sjö: Birna, f. 1969, Tryggvi, f. 1971, Halla, f. 1976, Kristbjörn, f. 1979, Kristbjörn, f. 1974, Helgi Pétur, f. 1976, og Einar Jón, f. 1978.

Þótt Halla hafi lengst af búið í Danmörku átti hún einstaklega gott og kærleiksríkt samband við fjölskyldu sína og vini á Íslandi.

Frá árinu 1996 starfaði Halla á hjúkrunarheimili aldraðra í Hvalsø.

Útför Höllu fór fram í Hvalsø 28. september, en hún verður jarðsungin frá Fossvogskirkju í dag, 16. október 2023, klukkan 15.

Það var á fallegu vorkvöldi í Reykjavík fyrir rúmum 70 árum sem Halla föðursystir mín fæddist. Hún ólst upp á Miklubraut í stórfjölskylduhúsi þar sem ávallt var mikill umgangur og líf og Esjan heilsaði inn um eldhúsgluggann. Ég man þetta augljóslega ekki sjálf, en það má segja að ég hafi upplifað það samt, því 25 árum síðar fæddist ég, Halla litla, inn í sömu stórfjölskyldu í sama húsi með útsýni yfir sömu Esju. Sigga mamma mín, líkt og amma Dúdda forðum, eldaði gjarnan ríflegan kvöldverð, því það var aldrei að vita hver dúkkaði upp í heimsókn og það gerði Halla oft. Ég man svo vel eftir húsinu við Miklubraut þar sem dyrnar voru aldrei læstar og vinir og stórfjölskylda áttu stöðugt leið um.

Halla var Reykjavíkurmær í allar ættir og hún bjó lengi á Skólavörðustíg, þangað heimsótti ég hana oft sem barn. Henni var mjög umhugað um frænkubörnin sín. Fyrir mig og Helga frænda, miðjubörn systkina sinna, stofnaði hún sérstakt Fimmárafélag og fann upp á skemmtilegum hlutum fyrir okkur þrjú. Þegar Halla svo flutti til Danmerkur grét ég svo mikið að foreldrar mínir splæstu í flug fyrir mig eina í sumarfrí og alla tíð síðan ég þvældist til hennar með flugmiða í plastvasa um hálsinn hefur hún leyft mér að vera hluti af lífi sínu.

Halla var sniðug og fyndin, hún svaraði hratt með snjöllum tilsvörum sem skildu mann eftir í hláturskasti. En lífið var ekki alltaf auðvelt og hún þurfti að upplifa fleiri áföll og erfiðleika í gegnum ævina en við flest. En hún stóð upp og hélt áfram og ég dáist að því hvernig henni tókst með sínum ljúfa og hlýja persónuleika að koma sér fyrir og umkringja sig vinum og fólki sem þótti vænt um hana hvert sem hún fór.

Síðustu árin bjó hún í fallegu gulu húsi í danska þorpinu Hvalsø með sínum góða sambýlismanni Kurt. Húsið stendur við Hovedgaden þar sem er kjörbúð, kaffihús, fatabúðir og bæjarkráin þar sem vinirnir mæltu sér mót. Halla elskaði garðinn sinn og blómin og sólina. Í einu herberginu stóð saumavél og þar gerði hún við föt fyrir vini sína og nágranna, þáði bros og stöku rósavínsflösku fyrir viðvikið.

Núna í september bankaði ég upp á á gula húsinu, það var ofar öllum tilviljunum að ég stóð þar. Enginn svaraði svo ég gekk um Hvalsø í leit að fólki sem þekkti hana og fljótlega komst ég að því að hún væri á gjörgæslu mikið veik. Ég sat við rúmstokkinn hennar síðustu dagana og ég verð ævinlega þakklát fyrir þann tíma. Þessa daga á spítalanum talaði Halla bara íslensku við dönsku læknana. Í huganum var hún komin til baka þar sem rætur hennar voru, til fjölskyldunnar á Miklubraut og á Skólavörðuholtið sitt. Hún áttaði sig samt á tímanum sem var liðinn og hvíslaði að mér í gríni að við þyrftum að stofna Fimmtíuárafélagið, það munum við svo sannarlega gera.

Kirkjan í Hvalsø var full af vinum þegar danska jarðarförin var haldin, hún var augljóslega mikils metin og elskuð. Ég mun klæðast litríkum sumarkjól og minnast góðu stundanna þegar Halla verður jarðsungin í Sóllandinu undir Esjunni okkar á fallegum haustdegi undir sólroðnu skýi.

Halla Helgadóttir.

Halla Kristbjarnardóttir lést í Danmörku 18. september síðastliðinn eftir stutta sjúkdómslegu. Halla var móðursystir Helga Péturs, en Una hafði líka notið þeirrar gæfu að þekkja hana alla ævi, og hún var okkur fjölskyldunni allri afar kær og náin.

Halla var sérlega glaðlynd og jákvæð kona, og einstaklega barngóð. Henni þótti vænt um systkinabörn sín og afkomendur þeirra sem væru þau hennar eigin, og þau voru að sama skapi hænd að henni. Halla var einnig sú í nærfjölskyldu Helga Péturs sem skildi hann hvað best. Þegar hann var lítill drengur, ör og hvatvís og um margt ólíkur bræðrum sínum, tók hún hann upp á sína arma og stofnaði Fimm ára félagið fyrir hann og jafnöldru hans, Höllu litlu nöfnu sína. Félagið taldi alltaf bara þessa þrjá meðlimi – Höllu stóru, Höllu litlu og Helga Pétur – og með þeim mynduðust sérstök bönd væntumþykju og samkenndar. Í Fimm ára félaginu var margt brallað, mikið föndrað og jafnvel búið til múslí. Á síðari árum sneri starfsemi þess þó meira að kaffi- eða hvítvínsdrykkju, hlátri og spjalli, en samvera þeirra þriggja, þar sem allir félagar voru jafnir og frábærir akkúrat eins og þeir voru, var samt alltaf það sem skipti meginmáli í félagsstarfinu.

Við fjölskyldan erum svo heppin að eiga oft leið til Danmerkur, og var ferðum til Höllu þá alltaf forgangsraðað, jafnvel þegar stoppin voru stutt. Stundum hittumst við reyndar annars staðar, meðal annars bauð hún eitt sinn í Tívolí, en það var okkur samt alltaf hjartfólgnast þegar við gátum hist heima hjá Höllu. Þegar Helgi Pétur stundaði nám í DTU einn vetur bjó hann meira að segja um stund hjá Höllu frænku sinni, því þótt vissulega væri langt að fara daglega þangað með lest, var alltaf opið öruggt og kærleiksríkt athvarf í litla húsinu hennar í Hvalsø. Við eyddum sjaldnast miklum tíma inni við í heimsóknum okkar til Höllu, því í minningunni var alltaf dásamlegt veður þegar við heimsóttum hana. Þá sátum við klukkustundum saman í sólríkum garðinum, skrafandi um allt milli himins og jarðar. Stelpurnar hlógu með Höllu og átu rifsber og sólber beint af runnunum og við hin sátum undir sólhlíf við dúkað borð, sem yfirleitt taldi allt það besta sem hægt var að bjóða heiðursgestum; smørrebrød, osta, ávexti og ís! Þannig áttum við einnig síðustu stundirnar okkar með henni nú í júlí – ræddum alvörumál heimsins, velgengni stelpnanna okkar og fréttir af systkinabörnum Höllu og öllum þeirra afkomendum. Að lokinni langri sólarsetu og miklu skrafi veifaði Halla okkur úr hlaði með björtu brosi, þangað til við sæjumst næst.

Það er okkur mikil huggun að Helgi Pétur náði aftur til Höllu sinnar hálftíma fyrir andlátið. Við trúum því einlægt að Halla hafi vitað að fundur Fimm ára félagsins væri þá fullmannaður, nú væri í lagi að kveðja, með bróðurdætur og systursyni hjá sér – þau mundu passa vel hvert upp á annað, Kurt og hennar góðu vini í Danmörku.

Við þökkum yndislegri konu samfylgdina, rík af minningum um ást, kærleik, umhyggju og gleði.

Helgi Pétur, Una, Iðunn og Gerður.