7 Ómar Ingi Magnússon fór mikinn gegn Hannover-Burgdorf í gær.
7 Ómar Ingi Magnússon fór mikinn gegn Hannover-Burgdorf í gær. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Ómar Ingi Magnússon var markahæstur hjá Magdeburg þegar liðið vann nauman heimasigur gegn Hannovar-Burgdorf í þýsku 1. deildinni í handknattleik í gær. Leiknum lauk með tveggja marka sigri Magdeburgar, 31:29, en Ómar Ingi gerði sér lítið fyrir og…

Ómar Ingi Magnússon var markahæstur hjá Magdeburg þegar liðið vann nauman heimasigur gegn Hannovar-Burgdorf í þýsku 1. deildinni í handknattleik í gær.

Leiknum lauk með tveggja marka sigri Magdeburgar, 31:29, en Ómar Ingi gerði sér lítið fyrir og skoraði sjö mörk í leiknum ásamt því að leggja upp þrjú mörk til viðbótar. Janus Daði Smárason komst ekki á blað hjá Magdeburg og Gísli Þorgeir Kristjánsson er frá vegna meiðsla.

Magdeburg er í öðru sæti deildarinnar með 15 stig, þremur stigum minna en topplið Füchse Berlín sem er með fullt hús stiga, en bæði lið hafa leikið níu leiki á tímabilinu. Heiðmar Felixsson er aðstoðarþjálfari Hannovar-Burgdorf sem er með 8 stig í áttunda sætinu.

 Þá var Teitur Örn Einarsson markahæstur hjá Flensburg þegar liðið tók á móti Balingen í Íslendingaslag í gær en leiknum lauk með fjögurra marka sigri Flensburgar, 32:28.

Teitur Örn skoraði sjö mörk úr tíu skotum en Oddur Gretarsson og Daníel Þór Ingason skoruðu eitt mark hvor fyrir Balingen.

Flensburg er með 12 stig í fjórða sætinu en Balingen er í sautjánda og næstneðsta sætinu með 5 stig.

 Viggó Kristjánsson átti svo stórleik fyrir Leipzig gegn Þýskalandsmeisturum Kiel þegar liðin mættust í Leipzig á laugardaginn.

Viggó skoraði átta mörk og lagði upp fjögur til viðbótar í naumum sigri Leipzig, 35:34.

Andri Már Rúnarsson komst ekki á blað hjá Leipzig, sem Rúnar Sigtryggsson þjálfar, en liðið er með sjö stig í tíunda sætinu.