Stjórnarandstaðan hefur fátt að bjóða. Ríkisstjórnin hefur verk að vinna.

Á laugardag gerðist það sem beðið hafði verið eftir í nokkra daga, að breytingar voru gerðar á ríkisstjórninni. Breytingarnar eru ekki miklar en reyndar kom einnig fram hjá forystumönnum ríkisstjórnarinnar að ekki væri útilokað að frekari breytingar yrðu síðar. Þegar rýnt er í ríkisstjórnina og einstaka ráðherra hennar er ekki ólíklegt að til þess komi.

Hér hefur áður verið lýst þeirri skoðun að sú breyting sem varð hafi verið með öllu óþörf. Nýlegt álit umboðsmanns Alþingis kallaði ekki á að Bjarni Benediktsson færði sig á milli ráðuneyta enda hefur ekkert komið fram um Íslandsbankasöluna sem krefst slíkrar breytingar og álit umboðsmanns bætti engu við, nema ef vera skyldi misskilningi sem óþarfi var að elta.

Formaður Sjálfstæðisflokksins tók engu að síður þá ákvörðun að farsælla væri til að tryggja starfsfrið að hann skipti um ráðuneyti við varaformann flokksins. Hugsanlega skapar það meiri starfsfrið og væri það óskandi enda þarf ríkisstjórn á því að halda, að svo miklu leyti sem hægt er að gera kröfu um starfsfrið á þeim starfsvettvangi. Ekki verður þó sagt að öll viðbrögð stjórnarandstöðunnar bendi til að hún muni leitast við að auðvelda ríkisstjórninni störfin, enda svo sem ekki hennar hlutverk. Miklu frekar virðast sumir þeim megin hinnar pólitísku víglínu sjá fyrir sér að nú megi reka flóttann. Ætli ríkisstjórnin að hafa vinnufrið utan frá er henni nauðsynlegt að sýna að innra sé friður og enginn flótti að bresta á. Ásýndin um helgina styður þetta, en meira þarf til.

Næstu dagar og vikur skipta mestu í þessu og þar er til að mynda þýðingarmikið að ráðherrar einbeiti sér að því sem mestu skiptir nú, sem eru efnahagsmálin og verðbólgan og þar með að leggja grunninn að þeim langtímasamningum á vinnumarkaði sem flestir telja æskilega. Forystumenn stjórnarflokkanna voru skýrir um helgina um að þetta væru brýnustu verkefnin og þá skiptir líka máli að önnur verkefni, einkum þau sem ekki eru aðkallandi og eru jafnvel beinlínis til þess fallin að valda ósætti, verði lögð til hliðar.

Samfylkingin virðist telja að í þeim óróleika sem verið hefur innan ríkisstjórnarinnar að undanförnu séu tækifæri fyrir sig. Þetta mátti til að mynda sjá á flokksráðsfundi Samfylkingarinnar um helgina þar sem formaður flokksins, lítillátur að vanda, bauð ríkisstjórninni að nýta sér „kjarapakka Samfylkingarinnar“ til að takast á við efnahagsmálin fram undan. Ríkisstjórnin mætti meira að segja „taka heiðurinn“ af pakkanum, „okkur er sama“, sagði formaðurinn.

Vandinn við „kjarapakka Samfylkingarinnar“ er að hann er hefðbundin vinstri lausn; hærri skattar, auknar millifærslur og verðlagshöft. Verðlagshöftin heita að þessu sinni „leigubremsa“ og eiga að mæta hækkandi húsnæðiskostnaði. En hvernig væri að Samfylkingin liti sér nær í þeim efnum? Flokkurinn hefur um árabil stýrt skorti á uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Reykjavík og stuðlað að ört hækkandi húsnæðisverði á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Í stað „leigubremsu“ gæti flokkurinn bremsað borgarfulltrúa sína af og reynt að koma þeim inn á rétta braut, en ekkert í ræðu formanns flokksins um helgina benti til að svo færi, nema síður sé.

Ísland er á áhugaverðum og jafnvel öfundsverðum stað í mörgu tilliti. Lífskjör eru með allra besta móti og kaupmáttur hefur vaxið langt umfram það sem annars staðar þekkist þó að slegið hafi í bakseglin að undanförnu. Að því hlaut að koma. Ísland getur ekki eitt ríkja farið í gegnum samdrátt vegna heimsfaraldurs og svo verðbólgu án þess að það komi niður á lífskjörum.

Ef rétt er á haldið þarf þetta þó aðeins að vera tímabundið ástand og ef aðilar vinnumarkaðarins hafa þann styrk og þolinmæði að gera langtímasamninga þar sem hófs er gætt og sígandi lukka höfð að leiðarljósi, þá getur verið stutt í að lífskjör fari að vaxa á ný. Hér eru gríðarlega mikil tækifæri í atvinnuuppbyggingu og nóg af eftirsóknarverðri orku, sem víða í nágrannalöndum okkar er af skornum skammti. Hér þarf aðeins viljann til að nýta hana.

Þegar horft er til stjórnarandstöðunnar á þingi sést að þar er fátt um fína drætti. Þeir flokkar eru fæstir líklegir til geta fylgt þeirri stefnu eða sýnt þá festu og ábyrgð sem nauðsynleg er við ríkisstjórnarborðið. Þess vegna skiptir miklu að sú ríkisstjórn sem endurnýjaði umboð sitt í síðustu kosningum, og að nokkru leyti endurnýjaði erindi sitt á undanförnum dögum, einbeiti sér á næstunni að þeim verkum sem mestu skipta og geta tryggt áframhaldandi vöxt lífskjara í landinu til framtíðar.