Sjókvíaeldi Matvælastofnun hefur heimilað notkun á lúsalyfjum á átta fiskeldissvæðum. Nauðsynlegt er að ráðast í aðgerðir gegn lús fyrir veturinn.
Sjókvíaeldi Matvælastofnun hefur heimilað notkun á lúsalyfjum á átta fiskeldissvæðum. Nauðsynlegt er að ráðast í aðgerðir gegn lús fyrir veturinn. — Ljósmynd/Havforskningsinstituttet
Hermann Nökkvi Gunnarsson hng@mbl.is Matvælastofnun (MAST) hefur heimilað að lyf verði gefin á átta fiskeldissvæðum á sunnanverðum Vestfjörðum, vegna óvenju mikils ágangs lúsa á fiska sem þar eru í sjókvíum. Um er að ræða tvö eldissvæði í Tálknafirði, fjögur eldissvæði í Arnarfirði og tvö í Dýrafirði. Svæðin verða meðhöndluð með baðlyfi annars vegar og lyfjafóðri hins vegar.

Hermann Nökkvi Gunnarsson

hng@mbl.is

Matvælastofnun (MAST) hefur heimilað að lyf verði gefin á átta fiskeldissvæðum á sunnanverðum Vestfjörðum, vegna óvenju mikils ágangs lúsa á fiska sem þar eru í sjókvíum. Um er að ræða tvö eldissvæði í Tálknafirði, fjögur eldissvæði í Arnarfirði og tvö í Dýrafirði. Svæðin verða meðhöndluð með baðlyfi annars vegar og lyfjafóðri hins vegar.

Berglind Helga Bergsdóttir, Sérgreinadýralæknir hjá Matvælastofnun, segir í samtali við Morgunblaðið að þetta sé vísbending um það að lús sé farin að aðlagast hitastiginu í sjónum hér á landi. Magnið af lús sem nú sést á sunnanverðum Vestfjörðum er nær fordæmalaust að hennar sögn.

„Í vor sáum við mikið lúsaálag sem við erum ekki vön að sjá þar sem lúsin lifir illa af íslenskan vetur.“

Hún segir að engar rannsóknir hafi verið gerðar á kuldaþoli lúsarinnar við Ísland nýlega, en kveður hún sérfræðinga telja að lýsnar séu byrjaðar að aðlagast kuldanum betur. Spurð að því hvort að rannsókn verði gerð á næstunni kveðst hún ekki hafa heyrt af neinum slíkum fyrirætlunum.

„Við erum að hvetja alla sem koma að þessu eins og við getum en ég hef ekki heyrt af rannsóknum. Ég tel mjög mikilvægt að kortleggja kuldaþol lúsarinnar því þetta breytir leiknum alveg.“

Nærast á roðinu

Lyfin sem notuð eru núna geta haft slæm áhrif á vistkerfi í nærumhverfi eldiskvía og í Noregi og Færeyjum er lúsin búin að mynda ónæmi gegn lyfjunum. Ekki er hægt að meðhöndla lús um vetur og því þurfti að grípa til þess úrræðis að nota lyf núna.

„Það er ekki gott fyrir fiskinn að fara með laxalús inn í veturinn því að laxalúsin er með bitkróka í kjaftinum og nærist á roðinu og vessum. Þannig getur komið sáramyndun sem tækifærissýklar fara í og í vetur þegar hitastigið í sjónum er orðið lágt þá minnkar gróandinn í fisknum til muna. Þess vegna reynum við að losa fiskinn við lúsina fyrir veturinn,“ segir Berglind.

Það eru til aðrar fyrirbyggjandi aðferðir til að stemma stigu við ágengi lúsa og segir hún að hægt sé að setja svokallað „lúsapils“ utan um efsta hluta kvíanna. Lúsin heldur sig ofarlega í sjónum og er sú aðferð notuð til að verja yngri fisk, sem er nýbúið að setja út.

„En það hefur líka reynst vel að setja hrognkelsi í kvíarnar. Hrognkelsin éta lúsina og það lítur út fyrir að hrognkelsin hafi verið að hjálpa til með lúsaálag í Arnarfirði, það er mikið af hrognkelsum þar. Þetta er eitthvað sem þarf að leggja meiri áherslu á.“

Lús er að hennar sögn áhyggjuefni á vorin fyrir villt laxaseiði sem koma niður úr ám og synda fram hjá kvíum.

„Kynþroska kvennlýs sem eru á eldisfiskinum gefa frá sér egg sem klekjast í lirfur. Þessar lirfur eru svo syndandi í sjónum og leita sér af öðrum fiskum til að festa sig á. Laxaseiðin eru viðkvæm fyrir þessu.“ hng@mbl.is

Höf.: Hermann Nökkvi Gunnarsson