Dómur Húsnæði Hæstaréttar að Lindargötu 2 í miðbæ Reykjavíkur.
Dómur Húsnæði Hæstaréttar að Lindargötu 2 í miðbæ Reykjavíkur. — Morgunblaðið/Eggert
Fimm utanaðkomandi lögfræðingar verða settir dómarar við Hæstarétt til að dæma í máli Ástríðar Grímsdóttur héraðsdómara og íslenska ríkisins. Er það sökum þess að allir dómarar landsins eru taldir vanhæfir til að leggja dóm á málið

Fimm utanaðkomandi lögfræðingar verða settir dómarar við Hæstarétt til að dæma í máli Ástríðar Grímsdóttur héraðsdómara og íslenska ríkisins. Er það sökum þess að allir dómarar landsins eru taldir vanhæfir til að leggja dóm á málið.

Guðmundur Sigurðsson, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, verður einn dómara í málinu. Hrefna Friðriksdóttir mun einnig dæma í málinu en hún er prófessor við lagadeild Háskóla Íslands.

Auk þeirra dæma lögmennirnir Kristinn Bjarnason og Lára V. Júlíus­dóttir. Róbert Spanó, fyrrverandi forseti Mannréttindadómstóls Evrópu, verður fimmti dómarinn.

Málið er á dagskrá Hæstaréttar 6. desember.

Málavextir eru þeir að íslenska ríkið breytti útreikningsaðferð launa dómara og annarra embættismanna ríkisins og lækkuðu launakjör þeirra við það. Fjársýsla ríkisins greindi frá því að launin hefðu verið ofgreidd um árabil.

Héraðsdómur féllst á kröfur Ástríðar um að ógilda ákvarðanir ríkisins um að krefja hana um ofgreidd laun ásamt því að lækka launin hennar til samræmis við breytta útreikningsaðferð.

Ríkið vildi ekki una niðurstöðunni og áfrýjaði málinu beint til Hæstaréttar eftir dóm héraðsdóms í málinu og tók Landsréttur það því ekki til meðferðar.