— Ljósmynd/Sigurður Ægisson
Fuglinn gulerla hefur glatt fuglaskoðara landsins undanfarna daga en hann hefur sést á Höfnum á Reykjanesi. Gulerla er afar sjaldséður fugl hérlendis og hefur borist til Íslands með sterkum vindum úr austri eða suðaustri fyrir nokkrum vikum síðan

Fuglinn gulerla hefur glatt fuglaskoðara landsins undanfarna daga en hann hefur sést á Höfnum á Reykjanesi.

Gulerla er afar sjaldséður fugl hérlendis og hefur borist til Íslands með sterkum vindum úr austri eða suðaustri fyrir nokkrum vikum síðan. Fuglinn er byggðarfugl og er skyldur og áþekkur maríuerlu. Liturinn er þó allt annar, en gulerla er skærgul að neðanverðu þegar hún er fullorðin. Hún lifir eingöngu á skordýrum, einkum flugum, og tekur þær mest á jörðinni.

Kjörlendi gulerlunnar eru engi, mýrar og rakt akurlendi og oftast nærri vatni.

„Gulerlan þykir einn af hinum fegurstu smáfuglum Norðurlanda,“ ritar Bjarni Sæmundsson í bók sinni, Fuglarnir, sem kom út árið 1936, og bætir við: „… er fjörug og snyrtileg, eins og frænka hennar, maríuerlan, syngur lítið og tekur ekki eins mikil stökk á fluginu og hún, og er aldrei eins hænd að mönnum, né sækist eftir skipum á sjó ...“.