Búðardalur Þorpið er miðlægt þar sem leiðir af Norðurlandi, Vestfjörðum og Vesturlandi mætast. Sveitarstjórnir vilja vegabætur því til samræmis.
Búðardalur Þorpið er miðlægt þar sem leiðir af Norðurlandi, Vestfjörðum og Vesturlandi mætast. Sveitarstjórnir vilja vegabætur því til samræmis. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Gagnrýnt er í ályktunum haustþings Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi hve litlum fjármunum skuli varið til vegaframkvæmda á svæðinu skv. samgönguáætlun 2024-2028 sem nú er til umfjöllunar á Alþingi

Gagnrýnt er í ályktunum haustþings Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi hve litlum fjármunum skuli varið til vegaframkvæmda á svæðinu skv. samgönguáætlun 2024-2028 sem nú er til umfjöllunar á Alþingi. Bent er á að 14% af þjóðvegum landsins séu á Vesturlandi og framkvæmdafé verði að fylgja því.

„Vegakerfið á Vesturlandi er því víða orðið svo lélegt að það er beinlínis hættulegt og annars staðar er það til mikils ama og óþæginda, bæði fyrir íbúa og þá sem eiga leið um,“ segir í ályktun.

Brýnt er, að mati SSV, að halda áfram og ljúka framkvæmdum við Skógarstrandarveg sem tengir saman utanvert Snæfellsnes og Dali. Algerlega óviðunandi að nú sé gert hlé á framkvæmdum og þær hefjist ekki að nýju fyrr en 2027. Vegir á sunnanverðu Snæfellsnesi séu sömuleiðis í slæmu ástandi og í öryggisskyni verði að bæta úr. Slíkt skipti m.a. máli vegna fiskflutninga.

Þá sé brýnt að vegurinn um Laxárdalsheiði, sem tengir saman Hrútafjörð og Dali, verði settur í forgang. Breikka þurfi brýr og leggja slitlag á þessa leið; mikilvæga tengingu milli Norðurlands, Vestfjarða og Vesturlands.

Sveitarstjórnarmenn vilja að uppbyggingu Uxahryggjavegar, sem tengir saman Þingvelli og Lundarreykjadal, verði hraðað. Kaldadalsleið, sem tekur við inn til landsins þegar Uxahryggjum sleppir, verði sömuleiðis að vera opin umferð í fleiri mánuði á ári. Vegurinn sé fjölfarinn af ferðamönnum, sérstaklega eftir að ísgöng í Langjökli ofan við Húsafell voru opnuð. sbs@mbl.is