Ingibjörn Tómas Hafsteinsson fæddist á Sveinsstöðum við Nesveg 2. júlí 1944. Hann lést á Landspítalanum 30. september 2023.

Foreldrar hans voru Guðný Hulda Steingrímsdóttir, f. 14. ágúst 1924, d. 13. janúar 2013, og Hafsteinn S. Tómasson, f. 27. febrúar 1922, d. 27. maí 1967.

Systkini Ingibjörns eru María Gunnhildur, f. 1950, Sverrir, f. 1955, Ásmundur, f. 1957, og Hulda, f. 1958.

Ingibjörn kvæntist 24. maí 1969 Hildi Kristjánsdóttur, f. 14. október 1950. Börn þeirra eru: 1) Stúlka, nefnd Hafdís, f.d. 30.10. 1968. 2) Hafsteinn, f. 17 október 1970, kvæntur Þórönnu Rósu Ólafsdóttur, f. 25. júlí 1971. Börn: Tómas Þorgeir, f. 1994, og Davíð Ingi, f. 2003. 3) Kristján Örn, f. 14. ágúst 1973, kvæntur Helgu Kristjánsdóttur, f. 11 október 1979. Börn: Hildur Jóhanna, f. 2000, Kristján Hrafn, f. 2008, og Árdís Hólmfríður, f. 2013. 4) Stúlka, nefnd Ingibjörg, f.d. 20. mars 1976. 5) Ingibjörn, f. 7. febrúar 1981, kvæntur Evu Ásmundsdóttur, f. 14. september 1978. Börn: Kristófer, f. 1997, Sara Ósk, f. 2000 (sonur hennar er Valdemar f. 2022), Emma Karítas, f. 2009, og Birna Dís, f. 2014. 6) Guðný Hulda, f. 12. apríl 1983, gift Kristni V. Kjartanssyni, f. 9. júlí 1980. Börn: Viktoría Hildur, f. 2007, og Emilía Katrín, f. 2011.

Ingibjörn ólst upp í Vesturbænum í faðmi stórfjölskyldunnar á Sveinsstöðum þar til foreldrar hans fluttu að Kaplaskjólsvegi 64, í fallegt og reisulegt hús sem þau byggðu. Hann stundaði fótbolta hjá KR sem barn og unglingur og studdi sitt lið alla tíð. Hann hafði áhuga á bridge og stofnaði bridgeklúbb árið 1965 með Halldóri vini sínum. Þeir félagar starfræktu þennan klúbb saman með félögum sínum allt hans líf. Hann vann ýmis störf sem ungur maður, m.a. í Fiskiðjuverinu og Slippnum allt þar til hann hóf störf í Matvörumiðstöðinni við Laugalæk árið 1963 og þar fann hann lífsstarfið. Í framhaldi af þessu opnaði hann matvöruverslun í Suðurveri árið 1966. Verslunin hét í upphafi Hamrakjör og síðar Kjötbúð Suðurvers eftir að hann keypti þann rekstur. Eftir að hann seldi fyrirtækið árið 1999 gerðist hann dagpabbi eins barnabarns síns og ári síðar hóf hann störf hjá Samkaup, fyrst í Vesturbergi og síðar í Hafnarfirði.

Ingibjörn var virkur í Kaupmannasamtökum Íslands og gegndi þar ýmsum trúnaðarstörfum og var m.a. formaður Félags matvörukaupmanna og hann var sæmdur æðsta heiðursmerki samtakanna 1994. Þegar hann var kominn á eftirlaun tók hann þátt í starfi lávarðadeildar samtakanna.

Hann var ákafur veiðimaður og veiddi aðallega lax hin síðari ár og vann um skeið sem leiðsögumaður veiðimanna. Hann var einnig mjög áhugasamur um fugla og afar fróður um þá og naut þess að fræða barnabörnin. Auk þessa byggði hann sér og fjölskyldunni sumarbústað í Grímsnesi þar sem hann stundaði skógrækt.

Útför Ingibjörns fer fram frá Fella- og Hólakirkju í dag, 16. október 2023, klukkan 13.00.

„Tilvera okkar er undarlegt ferðalag“ …

Þegar ég var barn þá vildir þú kenna mér ljóð. Við sátum saman á kvöldin og lásum ljóð eftir Tómas Guðmundsson. Ég lærði utan að Fjallgönguna, Í vesturbænum og Hótel jörð. Við lásum ljóðin og þú sagðir mér frá Tómasi og við ræddum hvað ljóðin þýddu. Við skoðuðum fleiri ljóðabækur en vorum sammála um að Tómas væri uppáhaldsskáldið okkar.

Þetta er bara eitt af ótalmörgu sem þú kenndir mér og bara lítill partur af öllum góðu stundunum sem við áttum saman. Síðustu vikur hafa ótal hugsanir og minningar skotið upp kollinum hjá mér.

Eins og oft þegar við stóðum á pallinum uppi í sumarbústað og þú sagðir mér hvað fjöllin hétu svo spurðir þú mig seinna hvort ég mundi hvar Hestfjall væri. Ég var fljót að læra hvar Ingólfsfjall var því þú talaðir líka um hvað fjöllin hétu þegar við vorum í bílferðum, á ferðalögum og þú spurðir: „Hvaða fjall er þetta?“

Þér leið alltaf vel uppi í sumarbústað. Lagðir vinnu í trjárækt og gafst fuglunum. Oft stóðstu úti á palli og varst að flauta til lóunnar. Oft flautaði lóan á móti, þá grínuðumst við systkinin með að lóan væri ekki að svara þér heldur einhver annar fuglaáhugamaður í öðrum sumarbústað. Fuglarnir áttu hug þinn allan. Þvílíkur fróðleiksbrunnur sem þú varst. Það var alltaf gaman að spyrja þig um fuglana. Þegar ég flutti í Hlíðartúnið með mína fjölskyldu og við fórum að setja út mat fyrir fuglana, sem komu ekki, þá vorum við viss um að það væri af því að því þeir væru enn þá saddir eftir að hafa verið í garðinum hjá þér. Allir fuglarnir vissu hvar afi Bjössi bjó og fóru þangað í mat. Við pössuðum alltaf upp á, ef við fórum upp í bústað, að fylla á matardallana, sérstaklega yfir veturinn, svo fuglarnir yrðu ekki svangir.

Þú gast verið svolítið stríðinn og hafðir gaman af að segja sögur og brandara. Þú hafðir gaman af því að spila en vildir helst ekki tapa. Við spiluðum síðast í september. Þá spiluðum við ólsen ólsen og þú vannst. Þú gekkst svo úr skugga um að ég skráði það niður svo mamma sæi hvað þú vannst mig með miklum mun! Við hlógum og skemmtum okkur og áttum gott kvöld saman, þú og ég. Mér finnst ótrúlegt að það sé komið að kveðjustund en þannig er víst lífið, það er ferðalag og öll ferðalög enda á einhverjum tímapunkti. Ég er þakklát fyrir það ferðalag sem við áttum saman.

Tilvera okkar er undarlegt ferðalag.

Við erum gestir og hótel okkar er jörðin.

Einir fara og aðrir koma í dag,

því alltaf bætast nýir hópar í skörðin.

(Tómas Guðmundsson)

Ég elska þig pabbi minn og sakna þín óendanlega mikið.

Þín dóttir,

Guðný Hulda.

Við stöndum saman allir sem einn

uppgjöf þekkir enginn hér.

Við erum harðir allir sem einn

öflug liðsheild sem fórnar sér.

Það er við hæfi að hefja minningu pabba/tengdapabba á KR-laginu. Frumburðurinn varð fyrir áhrifum úr versluninni í Hlíðunum og tók ástfóstri við Val. Tengdadóttirin náði hins vegar fljótt inn í hjarta Bjössa þar sem hún var KR-ingur og líka úr sveit, sem honum fannst gæðamerki. Pabbi var kaupmaður af líf og sál. Hans ástfóstur var að gera vel við viðskiptavini og eiga í samskiptum við félaga í geiranum og birgja. Hafsteinn byrjaði snemma að vinna í búðinni og með hækkandi aldri urðu verkefnin flóknari. Tengdadótturinni var fljótlega kippt inn að vinna og þar unnum við skötuhjúin með Mæju föðursystur, ömmu Guðnýju, Bjössa og fleiri fjölskyldumeðlimum. Vá lífið og fjörið, hasarinn og metnaðurinn! Það eru ófáar sögurnar frá heimilishaldinu í Vesturbergi þegar pabbi átti að kaupa jólamatinn en seldi til viðskiptavinar sem var í vandræðum á aðfangadag rétt fyrir lokun! Það var gæfa pabba að eiga úrræðagóða konu sem lærði fljótlega á að það þyrfti að fela veislumat fjölskyldunnar í versluninni og þar komu synirnir sterkir til leiks!

Þegar við Hafsteinn eignuðumst frumburðinn kom ekkert annað til greina en að skíra drenginn í höfuðið á afa sínum. Tómas var fyrsta barnabarnið og Bjössi naut þess að dekra við hann og barnabörnin sem seinna komu í fjölskylduna. Bjössi fékk samt af og til illt auga af ungu foreldrunum þegar okkur fannst hann vera að spilla drengnum. „Ef ég eyðilegg uppeldið á einni helgi þá er uppeldið ekki merkilegt“ fengum við framan í okkur og það var vissulega ekkert svar við því! Svo var kveikt á sjónvarpinu og afinn og afadrengurinn horfðu hamingjusamir á Shaniu Twain og ungu foreldrarnir krossuðu sig í bak og fyrir – hvert var uppeldið að fara?

Pabbi var mikill veiðimaður og átti fjölskyldan nokkrar stundir saman í veiðiferðum. Þar lagði pabbi áherslu á að þeir sem voru með í veiðinni skyldu fá fisk, það gladdi hann mest. Við dáðumst vissulega að kraftinum en það var ekki óalgengt að það væru allir búnir á því þegar pabbi var enn að við ána.

Seinni árin átti sumarbústaðurinn og skógræktin hug hans allan. Bústaðurinn var samkomustaður fjölskyldunnar og umhverfið dásamlegt sem þau hjónin höfðu saman komið upp. Pabbi setti niður ófá trén og með tímanum var komið ævintýraland fyrir barnabörnin og ekki síður fuglana. Það var fátt skemmtilegra sem pabbi gerði en að fylgjast með fuglum og tegundum sem komu í heimsókn. Þrátt fyrir heilsuleysi síðustu árin var sumarbústaðurinn vinin og þar naut hann sín best. Við erum þakklát fyrir allt sem pabbi stóð fyrir. Við þökkum pabba fyrir að vera til staðar fyrir okkur, hvetja, ögra og skapa samfélag sem fjölskyldan var. Við hefðum svo sannarlega viljað hafa hann lengur en illvígur sjúkdómur vann þessa lotu að sinni.

Mótlæti er til að sigrast á

sameinaðir við sigrum þá.

Við þekkjum bæði gleði og tár

titillinn er okkar í ár.

(Bubbi Morthens)

Hafsteinn og Þóranna.

Árið 1996 varð ég 17 ára. Það sumar fékk ég starf á skrifstofu eftir mörg góð sumur í sveitinni. Ég vann sem innisölumaður hjá Mjólkursamsölunni í Reykjavík og tók niður pantanir hjá kaupmönnum í gegnum síma. Þeir voru jafn mismunandi og þeir voru margir og mér þótti miserfitt að eiga við þá. Ég kynntist þeim mörgum þetta sumar en þó var einn sem var frábrugðinn öðrum. Þessi stóð upp úr og ég vissi að þegar hann svaraði fengi ég heiðarlegt, glaðlegt og gott viðmót og pöntunin var alltaf klár. Ef hann þurfti að teygja sig eftir henni flautaði hann stundum og svo var hann afburða kurteis – herramaður! Það var hápunktur dagsins að hringja í hann og ég hugsaði oft með mér: bara ef allir kaupmenn væru svona! Þetta var kaupmaðurinn í Þinni verslun Suðurveri, Ingibjörn T. Hafsteinsson.

Starfsframi minn hélt áfram og ég vann á Sólbaðsstofu Grafarvogs á kvöldin og um helgar meðan ég var í menntaskóla. Veturinn '97-'98 fór flokkur drengja úr Breiðholtinu að stunda ljósin í Grafarvogi. Það var töffaraorka og glens sem fylgdi þeim. Eitt kvöldið þegar ég var á vakt var mér boðið í partí hjá einum töffaranum. Ég var ekki á því að fara en lét tilleiðast og mætti í partí á Otrateigi ásamt sólbaðsstofuvinkonu. Það var eitthvað við strákinn sem hélt partíið, ég fann strax hvað hann var heiðarlegur og traustur þótt hann hafi verið töffari að segja brandara. Hann var eitthvað annað! Við féllum hvort fyrir öðru og síðar komst ég að því að flotti kaupmaðurinn í Suðurveri væri pabbi hans. Eplið féll ekki langt frá þessari eik!

Ég varð svo lánsöm að fá að kalla Ingibjörn Bjössa tengdapabba og vera tengdadóttir hans. Mér fannst ég hafa lært margt um náttúruna í sveitinni en Bjössi tók það á annað stig. Hann hafði mikinn áhuga á íslenskum fuglategundum sem smitaðist til mín og barnanna minna og er ástæðan fyrir öllum fóðurboxunum úti í garði sem sonur hans sinnir af mikilli natni. Hann elskaði gróður og ég lærði margt um tré og ýmsar plöntutegundir. Hann var mikill veiðimaður og fékk mig til að búa til skráningarskjal yfir veiði á svæði sem hann sá um og var mikið í mun að kenna okkur Kristjáni og krökkunum til verka í stangveiði. Bjössi var líka alltaf flottur til fara og þegar Kristján Hrafn var lítill vildi hann helst vera í afa Bjössa fötum, þ.e. fínum buxum, skyrtu og vesti eða jakkapeysu yfir. Hann var mikill matgæðingur og lét skýrt í ljós þegar honum fannst ég hafa farið út af sporinu í matseld. Hann og Hildur tengdamamma voru mér mikill stuðningur þegar ég gekk í gegnum erfið veikindi 2016, þá fékk ég að vera með honum að skipta um hurðir í Vesturberginu, horfa á Barnaby ræður gátuna og drekka kamillute. Umfram allt var hann strangheiðarlegur, traustur herramaður sem hafði sterka réttlætiskennd og elskaði fjölskylduna sína ofurheitt.

Elsku tengdapabbi, í dag fylgi ég þér til hinstu hvílu. Þú auðgaðir líf mitt á svo margan hátt og fyrir það er ég þakklát. Þín verður ævinlega saknað og minnst með hlýhug. Hvíldu í friði.

Þín tengdadóttir,

Helga Kristjánsdóttir.

Elsku Bjössi, það er sárt að kveðja. Okkur fannst við eiga meiri tíma eftir með þér. Þótt við vissum kannski í hvað stefndi þá er erfitt að sætta sig við það. Duglegur, sanngjarn, glettinn og réttsýnn. Þannig minnist ég tengdaföður míns. Oftar en ekki umkringdur fjölskyldunni, uppi í Vesturbergi eða sumarbústaðnum, þá var alltaf fjör, og nóg af verkefnum. Náttúruunnandi, fuglarnir þeir nutu góðs af gjafmildi þinni og skjól í skóginum þínum. Aldrei rólegur tími, byggðir kofar, ræktuð tré og grisjaður skógur. Þar var sannkallað ævintýrarjóður með bekk. Það var gaman að fylgjast með þér í könnunarleiðangri um sumarbústaðarlandið og þá með barnabörnin vappandi á eftir þér eins og andarunga og þú að passa upp á að allir væru að fylgjast með fuglunum, trjánum, blómunum og hestunum hinum megin við skurðinn.

Mikill veiðimaður, og undir þinni leiðsögn náði ég ágætum tökum á stangveiði með flugustöng, veiddi lax! Þú tókst ekki annað í mál, við vorum búnir að labba of lengi upp með ánni til að koma til baka með öngulinn í rassinum. Alltaf tilbúinn að hjálpa í þeim mörgu verkefnum sem við fjölskyldan tókum okkur fyrir hendur. Gera upp íbúð, skipta um eldhúsinnréttingu, byggja pall. Duglegur og sterkur, jafnvel hin síðari ár þegar heilsunni fór að hraka þá komstu og hjálpaðir okkur með húsið okkar.

Ég er þakklátur fyrir þær stundir sem við fengum saman, takk fyrir allt. Hvíldu í friði Bjössi minn.

Þinn tengdasonur,

Kristinn Viðar (Kiddi).

Ég mun aldrei gleyma því þegar ég hitti Bjössa fyrst. Á þeim tíma bjó ég í Kaupmannahöfn með börnin mín tvö og kynntumst við Ingibjörn þar. Þegar Ingibjörn kláraði meistaranámið sitt ákváðu bræður hans, konur þeirra og foreldrar að koma til Kaupmannahafnar og fagna með honum. Við Ingibjörn og krakkarnir héldum á leið í bæinn til að hitta alla í fyrsta sinn.

Um leið og við löbbuðum inn stóð Bjössi upp, tók rembingsfast utan um mig og kyssti mig á kinnina. Þetta lýsir Bjössa í hnotskurn. Hann tók á móti okkur með opnum örmum í fjölskylduna og það þótti mér svo vænt um. Nánast alla sambúð okkar Ingibjörns höfum við verið búsett erlendis. Það hefur þýtt að tími okkar með fjölskyldunni er takmarkaður. Bjössi og Hildur hafa alla tíð verið dugleg að heimsækja okkur hvar sem við höfum verið og er sá tími okkur mjög dýrmætur. Það gefur okkur tækifæri til að vinna upp tíma sem við höfum misst af. Ég held fast í minningar eins og þegar við fórum öll saman til Austin og borðuðum við Lake Travis og útsýnið var svo yndislegt. Eða þegar þú og Hildur komuð til Kaupmannahafnar þegar við tókum við nýja húsinu okkar og þú eyddir heilmiklum tíma í að klippa til tréð í miðjum garðinum svo það liti út eins og hjarta. Og svo þykir mér sérstaklega vænt um þegar þið komuð síðast í heimsókn til okkar sumarið 2022 þegar við borðuðum yfir okkur af sushi og smökkuðum að minnsta kosti fjórar mismunandi tegundir af bailys. Það var mikið hlegið það kvöld.

Elsku Bjössi, stórt skarð situr nú eftir meðal allra en þú skilur eftir fjölskyldu sem er samheldin og sterk og full af ást, þökk sé þér.

Þín tengdadóttir,

Eva.

Að segja sögur og minnast gamla tímans er eitthvað sem við sækjum flest í þegar aldurinn færist yfir. Forfeðurnir, ættaróðalið, leiksvæðin og gömlu áhugamálin verða jafnvel ljóslifandi á ný. Við rifjum upp gömlu sögurnar og minnumst skemmtilegra atvika úr bernskunni. Allar þessar minningar verða mikilvægar og dýrmætar.

Nýlega áttum við Bjössi frændi dýrmæta stund yfir kaffibolla í Vesturberginu. Umræðuefnið var meðal annars Kaplaskjólið og ættaróðalið okkar Sveinsstaðir við Nesveg en það stóð rétt handan við KR-völlinn. Þar bjuggu amma og afi, börnin þeirra og þar fæddust mörg af okkur barnabörnunum. Bjössi var elstur okkar systkinabarnanna og var hann svo heppinn að alast upp í túninu heima ef svo má segja. Foreldrar hans byggðu sér hús á landareign Sveinsstaða og þannig var einnig með fleiri börn ömmu og afa. Þau bjuggu mörg nánast á sama blettinum. Við Sveinsstaðakrakkarnir vorum því alla tíð nokkuð náin og oft var kátt á hjalla á svæðinu þar sem samheldni fjölskyldunnar var mikil. Svo breytast auðvitað tímarnir og við förum hvert í sína áttina. Við finnum samt alltaf hvar ræturnar liggja.

Það er margs að minnast þegar ég kveð elsku Bjössa frænda minn. Samverustundir eins og laxveiðitúrarnir í Miðfjarðará, sundferðirnar í hádegishléinu, og þegar KR, liðið okkar, lék fótbolta á Meistaravöllum. Allt eru þetta góðar minningar. Árin sem ég vann hjá Bjössa í Hamrakjöri voru góð og lærdómsrík. Hann var kaupmaður af lífi og sál og afar vinsæll hjá viðskiptavinunum.

Seinna opnaði hann tvær svokallaðar 10-10-verslanir í Reykjavík. Bjössi starfaði einnig um margra ára skeið fyrir Kaupmannasamtökin. Heiðarleiki og fagmennska voru hans aðalsmerki og ég veit að hann var mikils metinn af samferðamönnum sínum og vinum. Nú er komið að kveðjustund. Ég er þakklátur fyrir allar góðu stundirnar og ekki síst fyrir góðu stundina sem við áttum saman nýlega. Þá var Bjössi frændi þrotinn kröftum en neistinn og áhuginn enn til staðar til að ræða gömlu góðu dagana í Kaplaskjólinu.

Hvíl í friði kæri vinur. Hildi og fjölskyldu bið ég Guðs blessunar.

Gylfi.

Kynni okkar Bjössa hófust árið 1972. Ég átti veiðidag í Staðará í Strandasýslu en veiðifélagi minn forfallaðist á síðustu stundu og voru þá góð ráð dýr. Konan mín bauðst til að hringja í frænku sína, Hildi, og athuga hvort eiginmaður hennar, Ingibjörn, væri tilbúinn að hlaupa í skarðið. Þetta var fyrsta veiðiferð okkar en þær áttu að verða margar, bæði í stærri og minni veiðiár. Í sérstöku uppáhaldi voru ferðir okkar í Miðfjarðará. Þar kynntumst við frábærum veiðifélögum og eftirminnilegum. Oft var setið langt fram eftir og spilað bridds þótt ekki kæmi það niður á veiðiskapnum hjá okkur.

Frægt var „kaupmannahollið“ sem Bjössi stóð fyrir og þar var ætíð glatt á hjalla. Seinna tókum við að okkur að vera árnefndarmenn hjá SVFR, stangaveiðifélagi Reykjavíkur, og þá í Gufudalsá, Tungufljóti, Hörgsá og Eldvatni. Ætíð var Bjössi í forsvari í störfum okkar í stangaveiðifélaginu. Við vorum einnig saman í vikulegum briddshópi sem hittist reglulega yfir vetrartímann árum saman.

Fjölskyldur okkar voru líka mjög nánar og samgangur ætíð mikill. Við fórum í margar ógleymanlegar utanlandsferðir með bæði fjölskyldum okkar sem og bara við fjögur. Árið 1980 keyptum við samliggjandi sumarhúsalóðir fyrir austan fjall. Reistum okkur þar bústaði og hófum skógrækt af miklum móð og treystum vinaböndin enn frekar. Minningarnar eru margar sem ylja nú þegar við kveðjum góðan dreng og kæran vin. Elsku Hildur, innilegar samúðarkveðjur frá okkur Arnþrúði til þín og barna ykkar og fjölskyldna þeirra.

Jón Albert Kristinsson.

Elsku Bjössi var í fjölskyldunni og giftur systur minni svo lengi sem aldur minn er og því man ég ekki lífið öðruvísi en með Hildi og Bjössa til staðar í Vesturberginu. Mér skilst að þegar Bjössi var að gera hosur sínar grænar fyrir systur minni hafi hann séð til hennar með barnavagn og dottið í hug að hún væri einstæð móðir. Það reyndist hins vegar ekki raunin, heldur var hún þar á ferð með litlu systur sína. Það hefur oft verið hlegið að þessari sögu. Bjössi var þá 21 árs og vann í matvöruverslun í Laugarnesinu, í hverfinu þar sem Hildur bjó. Þannig hófst þeirra saga, sem varð löng og farsæl. Bjössi var kaupmaður allan sinn starfsferil. Þau Hildur gerðu allt af miklum myndarskap, innréttuðu húsið í Vesturberginu, byggðu sumarbústað og ráku verslun svo eitthvað sé nefnt. Ekki má gleyma myndarlegum hóp af börnum sem þau eiga. Litla systir Hildar var fengin til að passa Hafstein og Kristján eitt sumarið fyrir löngu þegar hjónin þurftu að vinna langa daga. Áhugamál Bjössa þá og síðar voru bridge, fuglar og laxveiði svo eitthvað sé nefnt. Tveir páfagaukar voru á heimilinu lengi. Þeir sungu og blístruðu ásamt Roger Whittaker, sem Bjössi setti gjarnan á fóninn. Þannig var ungi maðurinn Bjössi á þeim árum, alltaf kraftur í kringum hann.

Bjössi var harðduglegur, heiðarlegur, velviljaður og skemmtilegur húmoristi. Það sem stendur upp úr sem minning um hann er kankvíst brosið, hlátur og alltaf eitthvert grín handan við hornið. Ég á eftir að sakna þess. Á tímabili þegar ég hringdi í Vesturbergið og Bjössi svaraði spurði ég hann hvernig hann hefði það. Hann svaraði alltaf með tilþrifum: „Óóóó, life is wonderful!“ og svo hlógum við bæði.

Eitt sinn kom Bjössi mér mjög á óvart. Ég hafði talað um á samfélagsmiðlum að mig vantaði stækkunargler, væri bara alveg hætt að sjá almennilega. Nokkrum mánuðum seinna, á jólunum, kom jólagjöf sérstaklega frá Bjössa til mín. Þá var það sett af stækkunarglerjum. Þetta var mjög gaman og frábær gjöf.

Síðustu árin var Bjössi mjög veikur. Þegar ég kom við í Vesturberginu sat hann oftast í stólnum sínum í bókaherberginu og kankvíst brosið var til staðar þrátt fyrir veikindin. Í einni heimsókninni talaði hann um hversu heppinn hann væri að hafa systur mína sér við hlið á þessum erfiðu tímum og raunar alltaf. Hvernig hún væri lífæðin hans. Það var sannarlega þannig. Hildur hélt á Bjössa sinum síðasta spölinn af gríðarlegum styrk, hugsaði um hann af alúð.

Megi elsku Bjössi hvíla í friði. Hans er sárt saknað í fjölskyldunni.

Elsku Hildur systir, frændsystkini, Hafsteinn, Kristján, Guðný Hulda, Ingibjörn og fjölskyldur, votta ykkur innilega samúð.

Fylgi þér englar

í eilífðarljós

sárt er að kveðja

sæmdarmann

sár græði

syrgjandi Hildarrós

englar vakti

hana og hann

(Guðrún Þura)

Guðrún Þura Kristjánsdóttir.

Kveðja frá Kaupmanna- samtökum Íslands

Kaupmaðurinn á horninu, þeim fækkar sem störfuðu sem slíkir. Þetta var nokkuð fjölmenn stétt á árum áður og var þá átt við þá sem voru matvörukaupmenn og líka kjötkaupmenn. Ingibjörn var einn þeirra og vaktin hjá honum stóð í áratugi. Ingibjörn var farsæll kaupmaður og vel látinn, jafnt af viðskiptavinum sem birgjum, ábyrgur og traustur í hvívetna. Matvörukaupmenn fundu fljótt að akkur væri að fá hann til starfa í félagi sínu og sat hann í stjórn félagsins í mörg ár og var formaður þess frá 1985-1991. Samtímis var hann kjörinn í stjórn Kaupmannasamtaka Íslands sem gjaldkeri og gegndi því til 1991. Ingibjörn var sæmdur gullmerki Kaupmannasamtakanna árið 1992.

Árið 1997 stofnuðu nokkrir „gamlir“ kaupmenn kaupmannaklúbb sem nokkru síðar fékk nafnið „Lávarðadeildin“. Af og til árin á undan höfðu menn komið saman við ýmis tækifæri en ekki stofnað til formlegs félags/klúbbs fyrr. Félagarnir höfðu allir starfað sem kaupmenn í fjölmörgum greinum verslunar og sumir voru þá enn starfandi sem slíkir. Kjörin var stjórn yfir hópinn og mörg nú síðari árin var Ingibjörn þar í hópi. Flestir urðu félagarnir liðlega tuttugu og lengst af fundað mánaðarlega, hlé var um hásumarið. Í fyrstu var fundað á 6. hæðinni en síðar á 13. hæðinni. Nú eru tíu eftir í hópnum. Þessir fundir voru ævinlega vel sóttir, fundargerðir skrifaðar og lesnar upp á næsta fundi og undirritaðar.

Ég vil fyrir hönd stjórnar Kaupmannasamtaka Íslands sem og fyrir hönd stjórnar Lávarðadeildarinnar þakka Ingabirni fyrir hans störf í þágu félaganna og sendi Hildi og fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur.

Góður drengur er kært kvaddur.

Ólafur Steinar Björnsson.

hinsta kveðja

Afi Bjössi, ég ætla alltaf að passa að gefa fuglunum að borða þegar ég kem í húsið þitt. Ég mun alltaf muna okkar tíma saman.

Birna Dís.