Töfrandi Laufey Lín Jónsdóttir þykir líkleg til stórræða með skífu sinni, Bewitched, og er sögð greiða jazz-tónlist leið að hlustum nýrra kynslóða.
Töfrandi Laufey Lín Jónsdóttir þykir líkleg til stórræða með skífu sinni, Bewitched, og er sögð greiða jazz-tónlist leið að hlustum nýrra kynslóða.
Andrés Magnússon andres@mbl.is Tónlistarkonan Laufey Lín Jónsdóttir er ofarlega á blaði í úttekt Variety um tilnefningar til næstu Grammy-verðlauna. Hún er meðal þeirra átta sem helst þykja koma til greina í nýliðaverðlaun Grammy en skífa hennar, Bewitched, sem út kom í liðnum mánuði þykir einnig eiga möguleika sem plata ársins hjá Variety, sem er helsta fagrit bandarísks skemmtanaiðnar.

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Tónlistarkonan Laufey Lín Jónsdóttir er ofarlega á blaði í úttekt Variety um tilnefningar til næstu Grammy-verðlauna. Hún er meðal þeirra átta sem helst þykja koma til greina í nýliðaverðlaun Grammy en skífa hennar, Bewitched, sem út kom í liðnum mánuði þykir einnig eiga möguleika sem plata ársins hjá Variety, sem er helsta fagrit bandarísks skemmtanaiðnar.

Næsta Grammy-verðlaunahátíð fer fram í Los Angeles hinn 4. febrúar en tilnefningar verða kynntar hinn 10. nóvember næstkomandi og spenningurinn því mjög vaxandi fyrir þessa árlegu verðlaunahátíð sem fram fer í 66. skipti á næsta ári.

Þar er þó ekkert í hendi enda við ramman reip að draga. Taylor Swift þykir líklegust til þess að sópa að sér verðlaunum, en minnt er á að Grammy-verðlaunin falli ekki alltaf eftir bókinni. SZA og Olivia Rodrigo eru taldar líklegastar til þess að veita henni samkeppni um plötu ársins en fleiri eru tilnefndir og þar á meðal Laufey, auk meistara eins og Jon Batiste, Boygenbius, Lana Del Rey, Karol G og fyrrnefndrar þrenningar.

Meðal fremstu nýliða

Laufey er einnig nefnd meðal þeirra átta sem líklegastir eru taldir til að hreppa nýgræðingsverðlaunin og er þar í félagskap með Gracie Abrams, Ice Spice, Noah Kahan, Peso Pluma, Raye og Jelly Roll.

Í þeim hópi þykir Ice Spice líklegust á pappírnum en Variety minnir á að valnefndin sé höll undir söngvaskáld:

„Lítið ekki framhjá Laufeyju, 24 ára gömlum kínversk-íslensk-bandarískum nýliða, en hún yrkir popp-jazz í anda amerískrar söngvahefðar, sem er stórkostlega vinsælt meðal ungra hlustenda og nánast skapað fyrir Grammy-verðlaunin.“

Sem fyrr segir kom út ný skífa með Laufeyju í liðnum mánuði sem flaug inn í 23. sæti á hinum almenna plötulista Billboard, beint í efsta sæti beggja jazz-lista Billboard og í 3. sæti yfir vinyl-skífur. Hitt þykir ekki minna um vert að engin jazzplata hefur nokkru sinni náð viðlíka árangri við útgáfu en Bewitched gerði á streymisveitunni Spotify og fór beint í 2. sætið á lista nýrra skífna.

Laufey er nú á tónleikaferð í Vesturheimi sem standa mun fram í nóvember. Eftir áramót tekur svo við tónleikaröð í Evrópu en hún mun leika tvívegis í Eldborg í Hörpu snemma í mars. Uppselt er á alla tónleikana.

Súperstjarna jazzins

Það er ekki algengt að jazz-tónlistarmenn nái slíkum árangri á almennum listum, en það er engin tilviljun segja sérfræðingar, því það sé ljóslega keppikefli Laufeyjar að koma jazz-tónlist að eyrum Z-kynslóðarinnar, fólks sem fætt er um það bil á árunum 1996 til 2010, en af sölutölunum blasir við að henni hefur orðið vel ágengt við það og sennilegast vel út fyrir þann hóp.

Að sögn MWB, sem er fagrit í tónlistargeiranum, er því ekki undarlegt að jazz-geggjarar ræði um Laufeyu sem „súperstjörnu“ í jazz-tónlist, en á hana hlusta mánaðarlega um 12 milljón manns á Spotify og samanlagt hefur henni verið streymt um 925 milljón sinnum.