Réttindi Veit hvernig landið liggur og vil láta til mín taka, segir Alma Ýr Ingólfsdóttir hér í viðtalinu.
Réttindi Veit hvernig landið liggur og vil láta til mín taka, segir Alma Ýr Ingólfsdóttir hér í viðtalinu. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
„Oft er sagt að þjónustu við fatlað fólk fylgi mikill kostnaður og því verða þessi mál stundum afgangsstærð. Þetta er þó algjörlega röng nálgun. Að gera öllum kleift að taka virkan þátt í lífinu, jafnvel þótt slíkt kosti nokkra fjármuni, felur í sér ávinning fyrir samfélagið allt

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Oft er sagt að þjónustu við fatlað fólk fylgi mikill kostnaður og því verða þessi mál stundum afgangsstærð. Þetta er þó algjörlega röng nálgun. Að gera öllum kleift að taka virkan þátt í lífinu, jafnvel þótt slíkt kosti nokkra fjármuni, felur í sér ávinning fyrir samfélagið allt. Hugarfarsbreyting er því nauðsynleg og dropinn holar steininn,“ segir Alma Ýr Ingólfsdóttir, nýr formaður ÖBÍ réttindasamtaka.

Í formannskjöri á aðalfundi ÖBÍ um síðustu helgi munaði aðeins einu atkvæði á Ölmu Ýri Ingólfsdóttur, sem 57 studdu, og Rósu Maríu Hjörvar, sem fékk 56 atkvæði. Einn skilaði auðu. Munurinn gat því ekki verið minni. Og nú eru kosningar að baki og veruleikinn tekinn við hjá Ölmu Ýri sem formanni í stórri fjöldahreyfingu – sem þúsundir tengjast í gegnum alls 40 aðildarfélög. Innan bandalagsins starfa svo ýmsir málefnahópar og á þeim vettvangi er slagurinn stundum tekinn.

Mikil breidd og fjölbreytt verkefni

Fram á síðasta ár hét ÖBÍ Öryrkjabandalag Íslands. Verkefni og tilgangurinn með starfi sambandsins er að berjast fyrir og bæta réttindi fólks með fötlun og í þeim efnum er víða borið niður. „Hlutverk samtaka eins og ÖBÍ er afar mikilvægt. Hér erum við í góðu sambandi við ýmsa fulltrúa stjórnvalda um framfaramál í þágu okkar fólks; bæði um kjör og framfærslu. Einnig sendum við inn umsagnir um til dæmis menntun, húsnæði, heilbrigðismál og fleira slíkt,“ segir Alma Ýr og bætir við:

„Þá er stór hluti af okkar starfi ráðgjöf og réttindagæsla fyrir skjólstæðinga okkar. Sum mál má leysa mjög auðveldlega með samtölum, önnur þarf að láta reyna á innan stjórnsýslu og þegar allt annað er fullreynt er dómstólaleiðin jafnvel farin. Verkefnin eru mörg og fjölbreytt. Breiddin í starfinu hefur aukist mikið á síðustu árum. Og hér erum við ekki aðeins að starfa í þágu fólks með örorku, heldur í raun samfélagsins alls. Því var breytingin á nafni samtakanna eðlileg.“

Endurskoðun á almannatryggingum mikilvæg

Alma Ýr kom til starfa hjá ÖBÍ fyrir sjö árum. Tvær lokaritgerðir hennar í laganámi fjölluðu um réttindamál fatlaðs fólks og framhaldsnám á því sviði á Írlandi markaði brautina. Árið 2016 kom Alma til starfa hjá ÖBÍ. Þar hefur hennar hlutverk einkum verið að fylgja eftir ýmsum verkefnum sem lúta að samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem Alþingi ákvað á sínum tíma að fullgilda. Því fylgir að gera þarf margvíslegar breytingar á lögum og þar vilja stjórnvöld samvinnu við ÖBÍ. Sama þarf í endurskoðun á almannatryggingakerfinu sem félags- og vinnumarkaðsráðuneyti vinnur nú að.

„Þegar samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verður loks lögfestur á Íslandi fylgir því mikil réttarbót, til dæmis ef fatlað fólk þarf að leita til dómstóla réttinda sinna vegna. Að almannatryggingar verði endurskoðaðar er einnig mjög mikilvægt. Kerfið á að gera einfaldara og einnig auka möguleika til að koma betur til móts við fólk sem almannatryggingar hafa ekki náð nógu vel til. Í þessari vinnu hefur okkar fólk margt fram að færa, enda eru bæði innan ÖBÍ og í aðildarfélögum okkar sérfræðingar á mörgum sviðum. Okkar er að sjá til þess að stjórnvöld uppfylli sínar skyldur og veita þeim aðhald. Nýjast þar hjá okkur er málshöfðun gagnvart ríkinu vegna skerðingar bóta krónu á móti krónu ef fólk vinnur sér inn laun. Nú fyrir stuttu var það mál tekið fyrir í Hæstarétti.“

Viðurkenna fjölbreytileika

Í málefnum fatlaðs fólks er í dag oft talað um inngildingu. Slíkt felur í sér að viðurkenna fjölbreytileikann. Gera á fjölbreyttum hópi fólks mögulegt að koma að ákvarðanatöku enda sé samfélagið þannig uppbyggt að allir hafi tækifæri til að njóta sín til fulls. Þetta segir Alma að sé sérstaklega mikilvægt í atvinnumálum fólks með skerta starfsgetu. Á vinnumarkaði þurfi að fjölga hlutastörfum þar sem ríki og sveitarfélög þurfi að sýna frumkvæði. Þarna vilji ÖBÍ einnig samstarf við verkalýðshreyfinguna og atvinnulífið. Mikilvægt sé að allir verði á sömu blaðsíðu.

„Aðstæður fatlaðs fólks og þeirra sem taka örorkulífeyri eru á stundum mjög erfiðar,“ segir Alma Ýr. „Sumt þetta fólk býr við allt aðrar aðstæður en þorri landsmanna. Er á öðru Íslandi ef svo má segja. Algengt er að fólk á örorkulífeyri hafi í dag kannski um 300 þúsund krónur í framfærslu á mánuði. Fæst búa í eigin húsnæði. Því er ekki mikið eftir þegar húsaleigan hefur verið greidd. Útkoman verður þá sú að fólkið verður í mjög erfiðum félagslegum aðstæðum; vítahring einangrunar og fátæktar. Og þessu verður að breyta og að því ætla ég að vinna. Ástandið sem ég lýsi er engum í hag.“

Láta til mín taka

Á unglingsaldri fékk Alma Ýr alvarlega blóðsýkingu af völdum heilahimnubólgu. Slíkt leiddi til þess að hún missti báða fætur og framan af fingrum. Endurhæfing kom Ölmu Ýri á þann stað sem hún er á í dag og viljinn er sterkur. Og þegar vinnu sleppir er hún móðir fjögurra ára drengs sem hún segist njóta að eiga gæðastundir með.

„Já, nokkrum sinnum hafði verið nefnt við mig hvort ég hefði áhuga á formennsku í ÖBÍ. Ég var hvött til þess af góðu fólki að taka slaginn sem ég og gerði. Eftir langt starf hér á skrifstofu ÖBÍ hef ég orðið tengslanet og þekki til margra þeirra málefna sem hér er unnið að. Veit hvernig landið liggur og vil láta til mín taka. Að bæta samfélagið er spennandi verkefni sem tekur aldrei enda og ef hugur og hjarta eru sett í málin sést alltaf árangur.“

Hver er hún?

Alma Ýr Ingólfsdóttir er fædd 1978 og ólst upp í Ólafsvík. Síðustu ár hefur hún starfað sem lögfræðingur og sérfræðingur í málefnum og réttindum fatlaðs fólks á skrifstofu ÖBÍ réttindasamtaka. Hún hefur setið í starfsnefndum og -ráðum á vegum ráðuneyta fyrir hönd ÖBÍ. Jafnframt er Alma Ýr formaður Mannréttindaskrifstofu Íslands.

Árið 2013 útskrifaðist Alma Ýr sem lögfræðingur frá Háskólanum á Bifröst. Þá stundaði hún nám við National University of Ireland, Galway (NUIG) 2014-2015 þar sem hún lauk L.LM-gráðu í alþjóða- og samanburðarlögfræði með áherslu á réttindi fatlaðs fólks. Hún tók við sem formaður ÖBÍ réttindasamtaka á aðalfundi samtakanna 7. október.