Skíði Skíðabrekkan í Breiðholti hefur notið mikilla vinsælda meðal barna og ungmenna í nálægum hverfum.
Skíði Skíðabrekkan í Breiðholti hefur notið mikilla vinsælda meðal barna og ungmenna í nálægum hverfum. — Ljósmynd/ÍTR
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ég hef ekki fengið neitt svar. Það getur tekið tímana tvo að fá svör,“ segir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn, spurð hvort svör hafi borist við fyrirspurn hennar um hvers vegna skíðalyfta í Breiðholti hafi verið tekin niður.

„Ég hef ekki fengið neitt svar. Það getur tekið tímana tvo að fá svör,“ segir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn, spurð hvort svör hafi borist við fyrirspurn hennar um hvers vegna skíðalyfta í Breiðholti hafi verið tekin niður.

„Þetta er ótrúlega vinsælt þegar veður leyfir og margir sakna þess,“ segir hún en Reykjavíkurborg hyggst reisa svokallaðan vetrargarð á svæðinu þar sem skíðalyftan var.

Spurð hvort Reykjavíkurborg hafi haft samráð við íbúa þegar lyftan var tekin svarar hún því neitandi.

Gegn áformum meirihlutans

„Fyrirhugaður vetrargarður á í rauninni að vera klesstur ofan í hraðbrautina og skíðalyftusvæðið er hluti af honum. Þetta er allt í einni kös,“ segir hún og bendir á mengunina sem berast muni frá fyrirhuguðum Arnarnesvegi á leiksvæðið. Hún segir heilmikla umræðu hafa skapast meðal íbúa í Vatnsendahverfinu og Breiðholtinu á samfélagsmiðlum.

„Þetta stríðir algjörlega gegn græna planinu hjá meirihlutanum yfirhöfuð, að byggja hraðbraut í byggð og hjá leiksvæði.“

Íbúar verða fyrir vonbrigðum

„Það eru vonbrigði fyrir íbúa að sjá að svæðið verði ekki opnað fyrr en eftir að minnsta kosti þrjú ár,“ segir Helga Kristín Gunnarsdóttir. Borgin hafði tilkynnt við upphaf framkvæmdanna að brekkan yrði lokuð í eitt ár en nýverið kom í ljós að áætluð opnun svæðisins væri sumarið 2025.

Helga er ein af stofnendum samtakanna Vinir Vatnsendahvarfs og hefur tekið þátt í umræðum um vetrargarðinn.

„Fyrst og fremst held ég að það sé mikilvægt fyrir borgina að segja íbúum satt og rétt frá. Ekki segja að eitthvað muni bara taka eitt ár þegar það mun taka að minnsta kosti þrjú,“ segir Helga og bætir við að brekkan sé afar vinsæl meðal yngri barna.

„Þetta eru þrjú ár sem þau [börnin] missa af í þessari brekku.“

Áhyggjur vegna vegarins

Spurð hvað íbúum finnist um staðsetningu Arnarnesvegarins við fyrirhugaðan vetrargarð segir Helga íbúa áhyggjufulla.

„Sérstaklega í ljósi þess að ekki var gert neitt umhverfismat. Það á ekki að gera neitt umhverfismat fyrir vetrargarðinn og það hefur ekki verið gert neitt umhverfismat í meira en tvo áratugi fyrir Arnarnesveginn,“ segir hún og bendir á að þegar það umhverfismat hafi verið framkvæmt hafi aldrei verið á dagskrá að setja upp svona vetrargarð.

„Í rauninni hefur ekki verið gert neitt mat á því hvernig þessi nálægð við svona stór gatnamót og svona stóra vegi muni hafa áhrif á lýðheilsu barnanna sem koma til með að leika sér í brekkunum.“

Helga segir brekkuna líklegast verða mest notaða á gráum dögum. „Þegar mengunin er mest.“