Miðstöð Margt var um manninn við opnun sýningarrýmis í Fredericiagade. Illums Bolighus hefur tekið vörur FÓLK Reykjavík í endursölu og framundan sókn inn á Evrópu, Asíu og BNA.
Miðstöð Margt var um manninn við opnun sýningarrýmis í Fredericiagade. Illums Bolighus hefur tekið vörur FÓLK Reykjavík í endursölu og framundan sókn inn á Evrópu, Asíu og BNA.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vörur hönnunarfyrirtækisins FÓLK Reykjavík hafa vakið athygli á heimsvísu en þetta unga íslenska félag opnaði fyrir skemmstu sýningarsal í Kaupmannahöfn og…

Viðtal

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Vörur hönnunarfyrirtækisins FÓLK Reykjavík hafa vakið athygli á heimsvísu en þetta unga íslenska félag opnaði fyrir skemmstu sýningarsal í Kaupmannahöfn og hyggst stýra þaðan sókn inn á Evrópumarkað.

Ragna Sara Jónsdóttir er listrænn stjórnandi FÓLK en hún stofnaði reksturinn árið 2017 með það að markmiði að stuðla að sjálfbærni í hönnun og framleiðslu heimilis- og lífstílsvara. „Ég hafði rekið mig á hvað neytendur hafa takmarkaðan aðgang að upplýsingum um þær vörur sem þeir kaupa fyrir heimilið, s.s. um hvaða hráefni eru notuð, hvar varan var framleidd og hvernig má endurvinna vöruna. Hugmyndin hélt áfram að vaxa og mótast og höfum við það í dag að leiðarljósi hvernig hraða má grænni umbreytingu í gegnum hönnun,“ segir hún og bendir á að hönnunin ráði mestu um hversu jákvæð eða neikvæð áhrif vörur hafa á umhverfisþætti, enda hefur hönnunin áhrif á framleiðslu, hráefnisval, flutninga, endingu og endurnýtingu þegar líftíma vörunnar er lokið.

FÓLK steig sín fyrstu skref á Íslandi en skrifstofur félagsins voru nýlega fluttar til Kaupmannahafnar og verður sölustarfi merkisins stýrt þaðan. Nýja sýningarrýmið er á Fredericiagade 17, steinsnar frá Amalíuborg, og þá hafa Illum, Illums Bolighus og H Skjalm P tekið vörur FÓLKs í endursölu og á föstudag bættist við verslunin Miðstöð dansks arkitektúrs (e. Danish Architecture Center). Fyrirtækið hefur einnig náð að nema land í Bandaríkjunum og má finna vörur FÓLKs til sölu hjá Teak Store í New York. Á Íslandi fást vörur FÓLK í Epal, Kokku, Rammagerðinni, Garðheimum, Hönnunarsafninu í Garðabæ og hjá Nielsen í Bankastræti.

Er stefnt að því að fjölga endursöluaðilum á komandi árum, einkum í Evrópu, en einnig í Bandaríkjunum og í Asíu, samhliða því að vörulínur fyrirtækisins verða breikkaðar.

Alls starfa fimm manns hjá FÓLK í dag, en framleiðslan fer fram hjá samstarfsaðilum hér og þar í Evrópu og gaman frá því að segja að Birna Einarsdóttir fyrrverandi bankastjóri kom á dögunum inn í félagið sem nýr stjórnarformaður og eins er Sif Jakobsdóttir nýr meðlimur í stjórn en skartgripavörumerki hennar, Sif Jakobs Jewellry, er selt í 38 löndum.

Þykir nálgun FÓLK einkar frumleg og vel heppnuð og hafa vörur fyrirtækisins ratað á síður virtra tímarita og dagblaða á borð við Vogue, Elle Decor, Figaro og Frankfurter Allgemeine Zeitung.

Loftpúðar fá framhaldslíf

FÓLK framleiðir skemmtilegan púða sem lýsa vel hringrásarnálgun fyrirtækisins. Varan er einfaldlega kölluð „Lofpúðinn“ og spratt upp úr samtali við Aðalheiði Jacobsen, stjórnanda bílapartasölunnar Netpartar á Selfossi, um hvernig mætti bæta nýtingu á íhlutum úr bílum sem voru ýmist skemmdir eða úr sér gengnir. „Við fengum Stúdíó Fléttu með okkur í lið og fengu þær það hlutverk að heimsækja bílapartasöluna og leita þar að efni sem hægt væri að umbreyta í góða hönnunarvöru. Þær uppgötvuðu að nota mætti textílinn sem er í loftpúðum bifreiða, en þessir púðar eru mjög slitsterkir, hafa vatnsfráhrindandi eiginleika, eru í fallegum pastellitum – bleikir, mintugrænir og ljósbláir – auk þess að vera með snotran útsaum. Púðana fyllum við með efnum sem falla til við úlpuframleiðslu hjá 66°Norður. Í raun þurftum við að gera ósköp lítið annað en að klippa loftpúðana úr stýrinu, ganga fallega frá þeim, sauma á þá handfang og setja í þá fyllingu og er varan þá klár,“ útskýrir Ragna Sara en púðarnir eru framleiddir í Danmörku og aðföng koma frá Þýskalandi og Litháen.

Loftpúðarnir og aðrar vörur FÓLK seljast á svipuðu verði og sambærileg hönnunarvara og segir Ragna Sara að það sé algjört grundvallaratriði að hönnun, framleiðsla og markaðssetning gangi upp rekstrarlega þó hvergi sé vikið frá grænum markmiðum fyrirtækisins: „Þó að við byggjum á öðrum forsendum en aðrir framleiðendur þá endurspeglar verð okkar heilbrigða virðiskeðju og samkeppnishæfa framleiðslu.“

Höf.: Ásgeir Ingvarsson