[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslenska kvennalandsliðið í handknattleik er með 4 stig eða fullt hús stiga í 7. riðli undankeppni EM 2024 eftir nokkuð þægilegan sigur gegn Færeyjum í Höllinni á Hálsi í Þórshöfn í gær. Leiknum lauk með fimm marka sigri Íslands, 28:23, en færeyska liðið leiddi með einu marki í hálfleik, 12:11

EM 2024

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Íslenska kvennalandsliðið í handknattleik er með 4 stig eða fullt hús stiga í 7. riðli undankeppni EM 2024 eftir nokkuð þægilegan sigur gegn Færeyjum í Höllinni á Hálsi í Þórshöfn í gær. Leiknum lauk með fimm marka sigri Íslands, 28:23, en færeyska liðið leiddi með einu marki í hálfleik, 12:11.

Ísland byrjaði leikinn betur og komst 4:1 yfir en færeyska liðið svaraði um hæl og tókst að jafna metin í 7:7 þegar rúmlega tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Ísland komst í 10:8 en Færeyjingar voru sterkari á lokamínútunum og Turid Arge Samulsen kom Færeyingum einu marki yfir með lokaskoti fyrri hálfleiks.

Jafnræði var með liðunum í upphafi síðari hálfleiks og skiptust þau á að skora. Þegar fimmtán mínútu voru til leiksloka kom Elín Klara Þorkelsdóttir Íslandi fjórum mörkum yfir í fyrsta skiptið í leiknum, 20:16. Á sama tíma hrökk Elín Jóna Þorsteinsdóttir aftur í gang eftir góðan fyrri hálfleik.

Færeyingum tókst að minnka muninn í þrjú mörk, 24:21, þegar fimm mínútur voru til leiksloka en lengra komust Færeyingar ekki og Sandra Erlingsdóttir tryggði Íslandi fimm marka sigur með lokaskoti leiksins.

Thea Imani Sturludóttir og Sandra Erlingsdóttir skoruðu sex mörk hvor fyrir Ísland, Hildigunnur Einarsdóttir skoraði fjögur, Elín Klára Þorkelsdóttir, Andrea Jacobsen og Díana Dögg Magnúsdóttir þrjú mörk hver, Sunna Jónsdóttir tvö og Þórey Rósa Stefánsdóttir eitt mark. Þá átti Elín Jóna stórleik í markinu, varði 15 skot og var með 39% markvörslu.

Stórsigur Svía í Lúxemborg

Á sama tíma vann Svíþjóð öruggan stórsigur gegn Lúxemborg í hinum leik riðilsins í Lúxemborg, 39:17. Leikurinn var í raun aldrei spennandi en Svíar leiddu með átta mörkum í hálfleik, 15:7.

Nathalie Hagman, Elin Hansson og Tyra Axnér voru markahæstar hjá sænska liðinu með sjö mörk ver en Tina Welter skoraði átta mörk í liði Lúxemborgar.

Svíþjóð og Ísland eru í efstu sætunum, með 4 stig, en Færeyjar og Lúxemborg eru án stiga. Næstu tveir leikir íslenska liðsins verða gegn Svíþjóð, á heimavelli 28. febrúar og svo úti hinn 2. mars en efstu tvö lið riðilsins tryggja sér þátttökurétt í lokakeppni Evrópumótsins sem fram fer í Austurríki, Sviss og Ungverjalandi í nóvember og desember á næsta ári.

Alls verða 20 þjóðir í pottinum þegar dregið verður í riðla fyrir lokakeppnina, tvö efstu lið átta undanriðlanna og þá komast fjórar þjóðir með bestan árangur í þriðja sæti riðlakeppninnar einnig áfram á lokamótið.

Undankeppninni lýkur í apríl þegar Ísland heimsækir Lúxemborg og tekur svo á móti Færeyjum en sigrarnir tveir í nýliðnum landsleikjaglugga setja liðið óneitanlega í vænlega stöðu upp á framhaldið að gera. Ísland lék síðast í lokakeppni Evrópumótsins árið 2012 í Serbíu.