Á flótta Ísraelsher hefur beðið yfir milljón manns um að flýja heimili sín vegna yfirvofandi innrásar fótgönguliða í norðurhluta Gasasvæðisins.
Á flótta Ísraelsher hefur beðið yfir milljón manns um að flýja heimili sín vegna yfirvofandi innrásar fótgönguliða í norðurhluta Gasasvæðisins. — AFP/Mohammed Abed
Ísraelski herinn hefur sakað hryðjuverkasamtökin Hamas um að koma í veg fyrir brottflutning fólks frá norðurhluta Gasa til suðurhluta svæðisins. Nokkrir dagar eru liðnir síðan ísraelski herinn sendi út viðvörun á íbúa Gasa um að flýja suður til að…

Ísraelski herinn hefur sakað hryðjuverkasamtökin Hamas um að koma í veg fyrir brottflutning fólks frá norðurhluta Gasa til suðurhluta svæðisins.

Nokkrir dagar eru liðnir síðan ísraelski herinn sendi út viðvörun á íbúa Gasa um að flýja suður til að tryggja öryggi sitt vegna yfirvofandi hernaðaraðgerða í norðurhluta Gasa.

Hamas hefur komið þeim skilaboðum áleiðis til íbúa í norðurhluta Gasa að halda kyrru fyrir á heimilum sínum, þvert á tilmæli Ísraela. Markmiðið með þessari umfangsmiklu aðgerð verður að uppræta Hamas og innviði þeirra að sögn stjórnvalda Ísraels.

Herinn hefur gripið til margra ráðstafana til að vara almenna borgara á Gasasvæðinu við, á borð við það að sleppa blöðungum yfir borgina þar sem íbúar eru hvattir til að færa sig. Herinn hefur einnig hringt í íbúa á Gasasvæðinu og gefið út yfirlýsingar á helstu samfélagsmiðlum.

Ofursti hjá ísraelska hernum, Jonathan Conricus, sýndi í gær í daglegri uppfærslu um stöðu stríðsins loftmynd þar sem sjá mátti sjá Hamas-liða á bílum loka vegum til að íbúar gætu ekki flúið suður.

„Ef þetta er ekki ískyggilegasta og svívirðilegasta notkun óbreyttra borgara í stríði þá veit ég ekki hvað, en það sýnir aftur allan skort á virðingu fyrir mannslífum af hálfu hryðjuverkasamtakanna,“ sagði ofurstinn í myndbandsfærslu á samfélagsmiðlinum X, áður Twitter.