Guðbjörg Magnúsdóttir fæddist 13. september 1974. Hún lést 22. september 2023.

Útför fór fram 13. október 2023.

Með miklum harm í hjarta sest ég niður til að skrifa og minnast kæru vinkonu minnar og dásamlegu söngsystur, Guðbjörgu Magnúsdóttur. Það er svo sárt að í miðjum blóma lífsins hafi hún verið kölluð í faðm almættisins. Eitthvað sem ég vil ekki skilja en verð því miður að reyna að gera. Guðbjörg fékk mörg erfið verkefni í gegnum lífið en æðruleysið og kærleikurinn sem hún bjó yfir kom henni í gegnum þær raunir. Hún fæddist inn í fjölskyldu sem stóð þétt við bakið á henni en hennar mesta gæfa í lífinu var að kynnast elsku Kristjáni sínum. Ég gleymi því aldrei þegar ég hitti fyrst Guðbjörgu en það var á Broadway. Hún var svo tignarleg og falleg þessa unga kona, ákveðin, brosmild og hress. Söngrödd hennar var engri lík, mýktin, styrkurinn og jafnvægið sem röddin hennar hafði að bera var slíkt að ég get fullyrt að hún var ein af bestu söngkonum landsins. Ég er svo stolt og þakklát að ekki bara hafa fengið að syngja með henni í þremur sýningum á Broadway, heldur í mörg ár til viðbótar eftir að tríóið Prímadonnur var stofnað af mér, Guðbjörgu og Huldu og saman sungum við ABBA og diskó-lög eins og engin væri morgundagurinn. Minningar hafa hrannast upp í huga minn, tíminn okkar í smink fyrir gigg og að fá sér staup af Grand var okkur gulls ígildi. Okkur leið eins og drottningum þegar við stóðum upp á sviði og fundum fyrir gleði og þakklæti áhorfenda. Við vorum allar lánsamar að eignast dætur á svipuðum tíma og fór alltaf vel á með þeim. Mér er sérstaklega minnisstæð ferð þegar að við fórum með mökum og börnum, gistum á Hótel Leirubakka og tróðum upp í Galtalæk, klæddar í bleikum og hvítum dressum. Þegar við hentumst til Akureyrar og sungum fyrir þakkláta ferðamenn, ferðin til Patreksfjarðar þar sem bæjarbúar voru trylltir af gleði og sungu og dönsuðu með okkur. Það voru ekki ófáar ferðirnar á Hótel Selfoss, alltaf slógum við í gegn. Ég tel nokkuð víst að þetta tímabil hafi verið ein af bestu stundum lífs okkar allra. Þegar ég rifja upp þessar minningar um Guðbjörgu finn ég fyrir lotningu. Þvílík elja og kraftur sem hún bjó yfir. Það var hennar blessun að fá þessa einstöku söngrödd. Þegar Guðbjörg flutti með fjölskyldu sinni í hverfið mitt hittumst við oftar og dætur okkar fóru í sama skóla. Þessi nánd milli heimilanna og vinátta stelpnanna stuðlaði að því að samband okkar varð meira.

Ég reyndi að missa aldrei af barnaafmælum hjá Guðbjörgu og Kristjáni því Guðbjörg gerði besta tertusmjörkrem í heimi. Eftir að fjölskyldan flutti til Osló varð sambandið eðlilega minna, en við héldum alltaf góðu sambandi þrátt fyrir fjarlægð. Söngur fyrir Guðbjörgu var hennar vítamín og næring fyrir sálina og var ég óskaplega glöð að henni gafst tækifæri til að vinna með frábæru tónlistarfólki og söngvurum í Noregi eftir að hún flutti þangað og með þeim skein sól hennar skært eins og endranær.

Elsku Kristján og fjölskylda, við munum ávallt sakna elsku Guðbjargar og minning hennar og fallegi söngur mun lifa með okkur alla tíð. Við sendum ykkur samúðar- og kærleikskveðjur.

Rúna, Helgi
og fjölskylda.