Samráð Friðrik Sophusson forstjóri og fyrrverandi iðnaðarráðherra, Finnur Ingólfsson iðnaðar- og viðskiptaráðherra og Jóhannes Geir Sigurgeirsson stjórnarformaður á árlegum samráðsfundi Landsvirkjunar í apríl 1999.
Samráð Friðrik Sophusson forstjóri og fyrrverandi iðnaðarráðherra, Finnur Ingólfsson iðnaðar- og viðskiptaráðherra og Jóhannes Geir Sigurgeirsson stjórnarformaður á árlegum samráðsfundi Landsvirkjunar í apríl 1999. — Ljósmynd/Emil Þór Sigurðsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Framtíðarsýn Skömmu eftir að viðræðunefnd eignaraðila að Landsvirkjun var skipuð í febrúar 1996 setti iðnaðarráðherra aðra nefnd á laggirnar. Henni var falið ærið verkefni að vinna. Hún skyldi vera ráðherra til ráðuneytis við endurskoðun löggjafar…

Framtíðarsýn

Skömmu eftir að viðræðunefnd eignaraðila að Landsvirkjun var skipuð í febrúar 1996 setti iðnaðarráðherra aðra nefnd á laggirnar. Henni var falið ærið verkefni að vinna. Hún skyldi vera ráðherra til ráðuneytis við endurskoðun löggjafar um vinnslu, flutning, dreifingu og sölu orku, um framtíðarskipan raforkumála hér á landi með öðrum orðum. Að vonum var hún því fjölskipuð. Í henni sátu samtals nítján menn, fulltrúar orkufyrirtækja, sveitarfélaga, aðila vinnumarkaðarins og allra stjórnmálaflokka. Hún var ýmist nefnd orkunefnd eða orkulaganefnd. Formaður hennar var Þórður Friðjónsson forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar en fulltrúar Landsvirkjunar í henni voru Helga Jónsdóttir og Halldór Jónatansson.

Nefndin lauk störfum í október. Í skýrslunni kom fram að sú skipan raforkumála, sem hér var komin á, hefði reynst vel. Raforkukerfið stæði traustum fótum, það væri tæknilega vel í stakk búið og notendur gætu gengið að gæðum og afhendingaröryggi vísu. Þó væri markaðurinn lítill og einangraður og gæti því verið á brattann að sækja að koma hér á fullnægjandi samkeppni. Það kynni því að vera óhjákvæmilegt að hafa þá skipan að eitt fyrirtæki á þessum markaði væri langstærst, að minnsta kosti fyrst um sinn. Þó skyldi reynt að virkja markaðsöflin eftir því sem aðstæður leyfðu: „Skemmst er frá því að segja að skipan raforkumála hefur víða um lönd tekið miklum breytingum á undanförnum árum. Breytingarnar eru undantekningalítið sama eðlis þótt þær miðist jafnframt að hluta við aðstæður á hverjum stað. Meginefni þeirra felst í því að skilja í sundur náttúrulega einkasöluþætti raforkukerfisins og þá þætti þar sem samkeppni verður við komið. Þannig hefur verið lagður grunnur að markaðsbúskap í raforkukerfi margra landa.

Hefðbundin viðhorf til raforkumála hafa því verið að breytast. Hér áður fyrr var það viðtekin skoðun að hið opinbera hefði óhjákvæmilega lykilhlutverki að gegna á öllum sviðum þeirra vegna þess að markaðslausnir ættu þar ekki við, meðal annars vegna einkaréttar í starfsemi af þessu tagi. Á síðustu árum hafa hins vegar verið þróaðar aðferðir þar sem markaðsöflin hafa verið hreyfiaflið á mikilvægum sviðum, einkum í vinnslu og sölu raforku. Þessar aðferðir hafa í aðalatriðum reynst vel og er það nú skoðun flestra að samkeppnisumhverfi skili að jafnaði meiri árangri í vinnslu og sölu en hefðbundið einkaréttarumhverfi.“

Halldór Jónatansson, forstjóri Landsvirkjunar, taldi þó að markaðsvæðing í raforkugeiranum hér á landi orkaði tvímælis og vildi fara hægt í sakirnar. Hann benti á að tvö ólík sjónarmið væru uppi um framtíðarskipan raforkumála hér á landi. Sumir væru þeirrar skoðunar að Landsvirkjun ein hefði burði til að takast á við verkefni framtíðarinnar svo að næg raforka væri tryggð og unnt að lækka hana í verði á grundvelli verðjöfnunar. Hin leiðin, að smærri raforkufyrirtæki kepptu sín á milli á frjálsum orkumarkaði, vekti ýmsar spurningar – til dæmis hvort kostnaður færi úr böndunum, hvort hætta yrði á orkuskorti, hvort verðjöfnun yrði þar með fyrir bí og rafmagnsverð hækkaði úr hófi.

Á fundum orkunefndar hafði Halldór látið efasemdir sínar í ljós. Samkeppni í orkumálum hér væri annars vegar samkeppni Landsvirkjunar við erlend orkufyrirtæki um orkufrekan iðnað og hins vegar samkeppni vatns- og jarðhitaorku við aðra orkugjafa, fyrst og fremst olíu. Markmið breytinga á skipulagi raforkumarkaðarins hlyti að vera að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmri nýtingu orkulinda landsins til að standast erlendum orkufyrirtækjum snúning í samkeppni um nýjan orkufrekan iðnað og að hefja útflutning raforku. Það yrði því að fara varlega í sakirnar ef innleiða skyldi samkeppni og markaðsfyrirkomulag raforkugeirans eins og tíðkaðist erlendis. Hafa yrði í huga að hin öra rafvæðing landsins hafði það í för með sér að raforkukerfið hér væri bundið á skuldaklafa, ólíkt þeim löndum Evrópu „þar sem mjög vel stæðum orkufyrirtækjum með lítt skuldsettar eignir var gefinn laus taumur til að leita hagræðingar á samkeppnismarkaði.“

Halldór vék hér að útflutningi raforku, en sá þráður hafði að tilhlutan iðnaðarráðuneytisins verið tekinn upp aftur og Landsvirkjun átt í viðræðum við norska fyrirtækið Statkraft. Einnig áttu sér stað viðræður með Reykjavíkurborg við hollensk orkufyrirtæki, sem Landsvirkjun tók síðan þátt í. Hugmyndin var að með því að tengjast raforkukerfi í Evrópu um sæstreng ykist afhendingaröryggi raforku til muna. Vonast var til að unnt yrði að tryggja í samningum um raforkusölu um sæstreng að Íslendingar ættu þess kost að skerða raforkuafhendingu tímabundið og ráðstafa þeirri raforku, sem þá lægi á lausu, til þess að uppfylla þarfir orkufreks iðnaðar meðan unnið væri að virkjanagerð sem til þyrfti.

Á Alþingi lagði iðnaðarráðherra fram þingsályktunartillögu um stefnumótun í orkumálum í framhaldi af sjónarmiðum orkunefndar sem einkum hafi verið:

 Að vinnsla, flutningur, dreifing og sala á rafmagni verði aðskilin, a.m.k. bókhaldslega.

 Að raforkuvinnsla verði gefin frjáls í áföngum.

 Að stofnað verði sjálfstætt félag um meginflutningskerfið, hugsanlega að hluta í eigu Landsvirkjunar.

 Að einkaleyfi rafveitna til sölu á rafmagni á tilteknu orkusölusvæði verði afnumin í áföngum.

 Að viðskipti með raforku verði gefin frjáls í áföngum.

 Að lagður verði grundvöllur að því að unnt verði að fá einkafjármagn inn í raforkugeirann, meðal annars með því að gera arðkröfur til fjármagns sem bundið er í greininni.

 Að stefna beri að verkefnafjármögnun nýrra stórverkefna á orkusviði með þátttöku innlendra og erlendra fjárfesta og verði þau ekki á ábyrgð ríkisins eða Landsvirkjunar.

Tillagan varð ekki útrædd, en meirihluti þingnefndar mælti eindregið með hlutafélagsformi orkufyrirtækja: „Framundan eru miklar fjárfestingar vegna raforkuöflunar. Líklegt má telja að sá háttur sem hingað til hefur verið á hafður, að fjármagna raforkuver einungis með lántökum, muni ekki duga til þegar takast þarf á við stærstu verkefnin á þessu sviði. Því þarf að opna leið fyrir fjárfesta til að leggja áhættufé í slík mannvirki og laða fjármagn til þeirra eins og annarrar atvinnustarfsemi. Að mati meirihlutans verður það best gert með því að skapa fyrirtækjum og fjárfestum í raforkugeiranum starfsumhverfi sambærilegt því sem aðrir atvinnuvegir búa við. … Til þess að raforkufyrirtækin geti nýtt sér þessa möguleika er nauðsynlegt að breyta eignarformi þeirra í hlutafélög.

Á ársfundi Landsvirkjunar í aprílmánuði 1999 varð sú breyting á skipan stjórnar að þar tóku sæti Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri og Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri á Akureyri. Um áramót hafði Halldór Jónatansson forstjóri látið af störfum fyrir aldurs sakir. Við tók Friðrik Sophusson, en stjórnin hafði á fundi sínum hinn 15. júlí 1998 samþykkt einróma að ráða hann. Friðrik hafði um skeið farið með málefni fyrirtækisins sem iðnaðarráðherra en síðar gegnt stöðu fjármálaráðherra.

Framtíðin, nýir og breyttir tímar voru eitt helsta umræðuefnið á samráðsfundinum sem tók við að ársfundi loknum. Friðrik Sophusson vék að því í ræðu að um áramótin stæði til að stíga skref til móts við nýja tíma. Ætlunin væri að tvískipta starfsemi Landsvirkjunar, annars vegar í framleiðslusvið, hins vegar í flutningasvið. Bókhald þeirra yrði aðskilið og hvort hefði sína gjaldskrá. Með þeirri breytingu fengist reynsla sem í hag kæmi þegar laga yrði starfsemina að tilskipun Evrópusambandsins um aðskilnað flutnings- og dreifikerfis raforku frá vinnslu og sölu. Ísland átti að innleiða tilskipunina fyrir 1. júlí 2002.

Þegar hafði verið tekið til við að gaumgæfa hvað það hefði í för með sér fyrir Landsvirkjun ef fyrirtækið yrði rekið sem hlutafélag. Raunar var ekki seinna vænna að huga að því enda átti þeirri athugun að vera lokið fyrir árslok 2003 samkvæmt sameignarsamningi eigenda Landsvirkjunar eins og honum var breytt í samræmi við tillögur eigendanefndarinnar haustið 1996, samanber athugasemdir við frumvarpið um breytingu á Landsvirkjunarlögunum.

Í Reykjavík höfðu þegar orðið umskipti í orkumálum. Hinn 1. janúar höfðu Hitaveita Reykjavíkur og Rafmagnsveita Reykjavíkur sameinast og til varð nýtt fyrirtæki, Orkuveita Reykjavíkur. Ári síðar bættist Vatnsveita Reykjavíkur í hópinn. Árið 2001 urðu enn þáttaskil í sögu Orkuveitunnar. Stofnað var sameignarfyrirtæki um rekstur Orkuveitu Reykjavíkur, Akranesveitu, Andakílsárvirkjunar og Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar undir nafninu Orkuveita Reykjavíkur. Voru eigendur þess sex: Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður, Hafnarfjarðarkaupstaður, Borgarbyggð, Garðabær og Borgarfjarðarsveit.

Jóhannes Geir Sigurgeirsson stjórnarformaður Landsvirkjunar lýsti þeirri skoðun sinni í ræðu á ársfundinum að orkufyrirtæki ættu hvorki að heyra undir ríki né sveitarfélög ef þau ættu að verða framtíðaratvinnuvegur á Íslandi. Ríkið væri að vísu „að átta sig á þessu nú þessi árin.“ Öðru máli virtist gegna um sveitarfélögin. Þar væri engu líkara en ætlunin væri að hverfa til fyrri tíma þar sem „hver virkjar og dreifir orku fyrir sig.“

Framtíðarsýn stjórnarformannsins var þessi: „Ég get séð fyrir mér að orkugeirinn verði allur settur í hlutafélög. Fyrst um sinn að fullu í eigu núverandi eigenda. Í þeirri flóru sé ég Landsvirkjun fyrir mér sem fyrirtækjasamstæðu með starfsemi í orkuframleiðslu, flutningi og ráðgjöf á þessum sviðum bæði á innlendum og erlendum markaði.“

Jóhannes Geir sá fyrir sér „að framleiðslusvið Landsvirkjunar verði „risinn“ í orkuframleiðslunni.“ Landsvirkjun yrði meirihlutaeigandi í sérstöku fyrirtæki um jarðvarmavinnslu á Norðausturlandi sem Kröfluvirkjun rynni inn í. Hitaveita Suðurnesja og Orkuveita Reykjavíkur yrðu sameigendur að tveimur fyrirtækjum, annars vegar um orkuvinnslu og hins vegar dreifingu. Orkufyrirtækin ættu saman hlutafélag sem ræki meginflutningskerfi landsins, sömuleiðis:
„fyrirtæki á sviði ráðgjafar og framkvæmda sem geti eitt sér eða í samvinnu við erlend fyrirtæki tekið að sér ráðgjöf og framkvæmdir á erlendri grund og jafnvel átt þar og rekið starfsemi á þessu sviði.

Ég get séð fyrir mér að þrátt fyrir eignatengslin innan íslenska orkugeirans sem ég hef hér nefnt þá keppi þau innbyrðis um aukninguna á innanlandsmarkaði fyrir raforku, bæði hinn almenna markað og stóriðju og til lengri framtíðar litið einnig á erlendum mörkuðum um sæstreng.

Ég sé fyrir mér að erlendir fjárfestar mundu þegar þar að kæmi líta á íslenska orkugeirann – í því formi sem ég hef sett upp hér – meira og minna sem eina heild sem mundi auðvelda íslenskum fyrirtækjum skráningu á erlendum hlutabréfamörkuðum til þess að byggja sig enn frekar upp.“

Um viðhorf hins nýskipaða stjórnarmanns í Landsvirkjun, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, þurfti enginn að efast. Þegar hún ræsti hið nýja raforkuver á Nesjavöllum á haustdögum 1998 komst hún svo að orði í ræðu: „Með raforkuvirkjuninni á Nesjavöllum er Reykjavík komin í þá sérkennilegu stöðu að vera allt í senn, nær helmingseigandi í Landsvirkjun, mjög mikilvægur viðskiptavinur fyrirtækisins og þegar fram líða stundir, samkeppnisaðili … Það fer varla hjá því að þetta veki upp spurningar um framtíðaraðild borgarinnar að Landsvirkjun.

Það stefnir allt í það að Reykjavík verði í þessu þríþætta hlutverki, 45% eigandi Landsvirkjunar, stór viðskiptavinur og samkeppnisaðili … Mér finnst þetta mótsagnakennd staða. Það er gert ráð fyrir því að sameignarsamningur eigendanna um Landsvirkjun verði endurskoðaður í síðasta lagi árið 2003 og þegar það verður gert hljóta menn að skoða það alvarlega hvort ekki eigi að koma til þessa aðskilnaðar borgar og ríkis vegna þess að ég held að hagsmunir fari ekki endilega alltaf saman.“

Annar nýr stjórnarmaður í Landsvirkjun, Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri á Akureyri, lét hafa eftir sér að hann hefði boðist til þess að kaupa hlut borgarinnar í Landsvirkjun. Ekki löngu síðar ritaði Ingibjörg Sólrún honum og iðnaðarráðherra bréf og fór þess á leit að teknar yrðu upp formlega viðræður milli eignaraðila Landsvirkjunar um endurskoðun á sameignarsamningnum. Víst var að þeir fjármunir, sem rynnu til Reykjavíkurborgar ef svo æxlaðist, færu ekki í rekstur borgarinnar heldur yrðu þeir notaðir til þess að fjárfesta í nýjum atvinnutækifærum. Ingibjörg Sólrún nefndi meðal annars fjármögnun ráðstefnu- og tónlistarhúss í borginni með ríkinu í því sambandi en það taldi hún miklu skipta bæði fyrir borgarbúa og aðra landsmenn þegar fram liðu stundir. Færi á hinn bóginn svo að Reykjavíkurborg yrði að taka með sér eignir út úr Landsvirkjun kæmu Sogsvirkjanir til greina. Það yrði búbót enda hlyti borgin að blanda sér í samkeppni á raforkumarkaði þegar þar að kæmi.