Gestur Ólafsson
Gestur Ólafsson
Að skipuleggja byggð, svo vel sé, getur verið talsvert flókið mál og ábyrgð þeirra sem taka það að sér umtalsverð.

Gestur Ólafsson

Á undanförnum árum hefur mörgum orðið tíðrætt um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu og kennir þar margra grasa. Engu er heldur líkara en að þessi mál hafi eignast sérstakt líf, óháð öllu öðru, en ekki verið eðlilegt framhald af skynsamlegum ákvörðunum um landnotkun og landnýtingu á þessu svæði eins og yfirleitt er hjá öðrum þjóðum.

Auðvitað skipta þessi mál okkur öll miklu og auðvitað skiptir það líka meginmáli, hvað umferðarsköpun varðar, hvar stórum stofnunum og fyrirtækjum sem margir þurfa að sækja eins og spítölum, háskólum, stórum vinnustöðum, öryggis- og viðbragðsstarfsemi (slökkviliði, lögreglu) og þjóðarleikvangi er valinn staður. Ef höndum er kastað til þessara ákvarðana getur verið erfitt eða illmögulegt að byggja upp þokkalega hagkvæmt samgöngukerfi í kjölfarið. Margt bendir líka til þess að ráðamenn hafi alls ekki gert sér grein fyrir samhengi þessara mála því ákvarðanir sem hafa verið teknar bara á síðustu áratugum viðvíkjandi skipulagi þessa svæðis hafa leitt til ónauðsynlegra útgjalda í samgöngum sem nú nema á þessu svæði tugum milljarða á hverju ári. Þótt t.d. hafi verið ítrekað á það bent að nú þegar sé nauðsynlegt að velja góða lóð fyrir næsta spítala hefur því ekkert verið sinnt. Einnig flækir það málið að talsvert mismunandi afstaða til skipulagsmála virðist ríkja hjá sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins.

Að leiðbeina um þróun þéttbýlis á einhvern skynsamlegan hátt getur verið talsvert flókið mál og ábyrgð þeirra sem taka það verk að sér fyrir okkur hin er umtalsverð. Að gera þetta sómasamlega er miklu flóknara verk en að hanna t.d. umferðarslaufu, brú, jarðgöng eða stokka, þótt það geti verið talsvert flókið. Við verðum líka að gera þá kröfu til þessara aðila að þeir þekki þokkalega það fólk og fyrirtæki sem þeir eru að vinna fyrir og vandamál þeirra; hvaða óskir þeir hafa; hvaða þróun sé almennt að eiga sér stað og hafi þekkingu og getu til þess að beina þessari þróun inn á farsælar brautir. Þótt sniðugt geti verið að halda alþjóðlegar samkeppnir um málið þá er oft megintilgangur þeirra sem taka þátt í samkeppnum að vinna keppnina en ekki endilega að leysa vandamál fólks og fyrirtækja.

Yfirleitt leysir það heldur ekki vandamál fólks og fyrirtækja að reyna að berja það inn í einhverja staðlaða hugmyndafræði, hvort sem hún er kennd við Baba Yaga, Bara Maga eða einhver 15 mínútna hverfi. Flest okkar eiga heldur ekki bara dagleg erindi frá A til B og heim aftur, heldur reynum við að gegna fjölmörgum erindum í öllum áttum, helst í sömu ferðinni. Auðvitað ættu skipulagsaðilar líka að auðvelda fólki þessar samgöngur. Það hefur líka sýnt sig að þannig ferðafrelsi stuðlar bæði að aukinni lífsánægju fólks og aukinni þjóðarframleiðslu.

Þétting byggðar er heldur engin allsherjarlausn fyrir þá sem eru að reyna að reka fyrirtæki á þessu svæði og hugsanlega ekki heldur fyrir marga íbúa höfuðborgarsvæðisins, sem bráðvantar gott húsnæði á viðráðanlegu verði. Þetta vissi Guðmundur Hannesson, einn af höfundum fyrstu íslensku skipulagslaganna fyrir meira en 100 árum, og hvaða áhrif sólarlítið þröngbýli, eins og nú er víða stefnt að, hefur bæði á líkamlega og andlega heilsu fólks. Þeim sem vilja kynna sér frekar þá fjölbreyttu möguleika sem okkur standa enn þá til boða við skipulag byggðar á höfuðborgarsvæðinu má t.d. benda á rit Constantinos Apostolous Doxiadis „Dynapolis The City Of The Future“ eða bók Christophers Alexanders „A City Is Not a Tree“. Ekki skaðar heldur að kynna sér borgina Milton Keynes sem Bretar byggðu nokkru fyrir norðan London.

Nú þegar er búið að vinna við „hágæða borgarlínu“ hér á höfuðborgarsvæðinu í allmörg ár án þess að íbúarnir hafi fengið að sjá greinilega og skiljanlega fyrirhugaða útfærslu hennar og t.d. hvaða áhrif hún kemur til með að hafa á gömul hverfi borgarinnar og menningararf og hvernig þarf hugsanlega að ganga á Tjörnina og aðliggjandi svæði til þess að koma henni fyrir. Auðvitað eigum við íbúarnir, sem höfum greitt fyrir þessa vinnu, heimtingu á að fá að sjá og ræða þessar endanlegu tillögur sem nú hljóta að liggja fyrir – og fá að vita hvaða þar til bær sérfræðingur leggur þetta til og ber faglega ábyrgð á málinu. Ef okkur líst ekkert á þessar hugmyndir, sem allt eins getur verið, þá getum við í öllu falli farið að leita að öðrum leiðum.

Höfundur er arkitekt og skipulagsfræðingur FAÍ, FSFFÍ.