Picasso Átti sannarlega sínar skuggahliðar.
Picasso Átti sannarlega sínar skuggahliðar.
BBC-sjónvarpsstöðin sýndi nýlega þriggja þátta heimildamynd, The Beauty and the Beast, um listmálarann stórkostlega Pablo Picasso. Ástamál hans komu þar vitanlega mjög við sögu en konurnar í lífi hans voru margar og stórmerkilegar en ekki fór vel fyrir þeim öllum

Kolbrún Bergþórsdóttir

BBC-sjónvarpsstöðin sýndi nýlega þriggja þátta heimildamynd, The Beauty and the Beast, um listmálarann stórkostlega Pablo Picasso. Ástamál hans komu þar vitanlega mjög við sögu en konurnar í lífi hans voru margar og stórmerkilegar en ekki fór vel fyrir þeim öllum. Þar mátti að mestu kenna Picasso um. Hann var nánast ófær um að vera nokkurri konu trúr og eins og á við um marga sjálfhverfa listamenn vildi hann helst eiga ástkonur sem voru áratugum yngri en hann. Samband sem byggðist á innilegri vináttu, einlægu trausti og heiðarleika var ekki hans tebolli. Konurnar í lífi hans elskuðu hann samt flestar innilega og tvær þeirra sviptu sig lífi eftir lát hans.

Í myndinni var rætt við börn hans, barnabörn, fjölskylduvini og listfræðinga. Dregin var upp mynd af manni sem var sannarlega heillandi en gat líka verið ósvífinn og grimmur.

Varpað var fram þeirri spurningu hvort dæma ætti verk listamanna eftir því hversu almennileg manneskja listamaðurinn hefði verið. Svarið er auðvitað að slíkt sé algjörlega galið. Kaldlyndir einstaklingar hafa sannarlega skapað ódauðleg listaverk og maður þarf engan veginn að kunna vel við listamanninn sjálfan til að geta notið þeirrra og dáðst innilega að þeim.

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir