Birgir Þórarinsson
Birgir Þórarinsson
Flóttamannanefnd Evrópuráðsins hugðist skipa Birgi Þórarinsson alþingismann sérstakan fulltrúa nefndarinnar í eftirlitsferð til Nagorno-Karabakh, en Birgir á sæti í nefndinni fyrir Íslands hönd. Aserbaídsjan, sem nú hefur tekið öll yfirráð í…

Flóttamannanefnd Evrópuráðsins hugðist skipa Birgi Þórarinsson alþingismann sérstakan fulltrúa nefndarinnar í eftirlitsferð til Nagorno-Karabakh, en Birgir á sæti í nefndinni fyrir Íslands hönd. Aserbaídsjan, sem nú hefur tekið öll yfirráð í Nagorno-Karabakh og hrakið íbúana á brott – yfir 120 þúsund manns, mótmælti því að Birgir yrði skipaður en ætlunin var að Birgir myndi gefa nefndinni og Evrópuráðinu skýrslu um málið.

„Mér skilst að ég sé á svörtum lista hjá stjórnvöldum í Aserbaídsjan. Ástæðan er sú að ég ferðaðist til Nagorno-Karabakh þegar stríð geisaði þar í nóvember 2020 og fór þangað í gegnum Armeníu,“ segir Birgir.

„Ég sá með eigin augum þá miklu eyðileggingu sem Aserar stóðu fyrir í Karabakh, engu var hlíft. Þeir sprengdu allt sem fyrir var. Fjölbýlishús, skóla, kirkjur og sjúkrahúsið svo dæmi sé tekið, en þar var meðal annars glæný kvennadeild sem var gjöreyðilögð í loftárás. Ég hitti fólk í loftvarnabyrgi í kjallara dómkirkjunnar og þetta var ömurlegt ástand. Ég gagnrýndi Aserbaídsjan harðlega í Evrópuráðinu fyrir stríðsrekstur gegn óbreyttum borgurum. Þeir hafa greinilega sett mig á svartan lista fyrir vikið.“

Birgir segir mikilvægt að skipuð verði alþjóðleg eftirlitsnefnd til að íbúar Nagorno-Karabakh geti snúið aftur heim til sín, enda treysti íbúar ekki stjórnvöldum Aserbaídsjan. Hann segir að Sameinuðu þjóðirnar (SÞ) hafi brugðist seint og illa við ástandinu. Sendinefnd SÞ, skipuð fulltrúum Rússlands, Tyrklands, Ungverjalands, Pakistan og Albaníu, heimsótti Karabakh í einn dag, eftir að allir íbúar höfðu flúið og skilaði nefndin yfirlýsingu um að hún hefði verið í áfalli yfir því að allir íbúarnir hefðu yfirgefið Karabakh.

„Ég spyr nú bara: Við hverju bjóst nefndin eiginlega? Að fólk stæði og fagnaði komu kvalara sinna?“ spyr Birgir og bætir því við að sumar þessara þjóða styðji beinlínis Aserbaídsjan í deilunni. hng@mbl.is