50 ára Jóhann er fæddur og uppalinn á Siglufirði en býr á Akureyri. „Við fjölskyldan byrjuðum búskap á Siglufirði en fluttum hingað 1999 þegar ég var að klára samninginn í rennismíði.“ Hann starfaði í um 20 ár við rennismíði en hefur núna unnið í fimm ár hjá Kraftbílum

50 ára Jóhann er fæddur og uppalinn á Siglufirði en býr á Akureyri. „Við fjölskyldan byrjuðum búskap á Siglufirði en fluttum hingað 1999 þegar ég var að klára samninginn í rennismíði.“

Hann starfaði í um 20 ár við rennismíði en hefur núna unnið í fimm ár hjá Kraftbílum. „Ég er núna kominn í að gera við stærri vinnutæki, dráttarvélar, vörubíla o.s.frv. Ég er alltaf að læra eitthvað nýtt hérna. Ég kláraði vélvirkjanámið á sama tíma og rennismíði en tók ekki sveinspróf í því. Tók meistarann í rennismíði 2016. Svo var ég byrjaður að læra rafvirkjann, kláraði það ekki en ég kláraði tölvuviðgerðartækni í fjarnámi. Námið var á VHS-spólu, það er orðið það langt síðan. En þetta nýtist allt, ég er að grúska í rafkerfinu og tölvukerfinu svo er það náttúrlega vökvakerfið og ég er að meta hvernig ástandið á því er. Hvort það er ónýtt eða viðgerðarhæft.“

Jóhann hefur setið í stjórn Félags málmiðnaðarmanna á Akureyri um árabil, var lengi varaformaður en er núna meðstjórnandi. Hann situr líka í stjórn Skátafélagsins Klakks. „Ég byrjaði í stjórninni þegar krakkarnir mínir voru í skátunum en nú er það orðið þannig að þau eru öll hætt en ég er ennþá þarna.“

Áhugamál Jóhanns eru margvísleg. „Ég er að brasa við þrívíddarprentun, á svoleiðis græju og er að leika mér með hana. Svo gaf tengdapabbi mér '80-módelið af Chevrolet Suburban og ég er að vinna í að gera hann upp.“


Fjölskylda Eiginkona Jóhanns er Dagbjört Þuríður Óskarsdóttir, f. 1969, fiskeldisfræðingur að mennt og er ræstitæknir hjá Dögum. Börn þeirra eru Jónanna Sigríður, f. 1995 og dætur hennar eru Amanda Ósk 5 ára og Alexandra Von 2 ára; Óskar Björn, f. 1998 og Bjartmar Ólafur, f. 2000. Foreldrar Jóhanns eru Sigríður Kristín Björnsdóttir, f .1940, fv. verkakona á Siglufirði, nú búsett í Ólafsfirði, og Jón Valberg Sigurjónsson, f. 1932, d. 2006, matráðsmaður, síðast búsettur á Blönduósi.