Svíþjóð Björn Zoëga forstjóri Karolinska sjúkrahússins í Stokkhólmi.
Svíþjóð Björn Zoëga forstjóri Karolinska sjúkrahússins í Stokkhólmi.
Björn Zoëga, forstjóri Karolinska sjúkrahússins, hefur þurft að grípa til frekari niðurskurðar vegna erfiðrar fjárhagsstöðu spítalans sem rekja má til verðbólgu og stórhækkandi lífeyrisskuldbindinga af þeim völdum

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Björn Zoëga, forstjóri Karolinska sjúkrahússins, hefur þurft að grípa til frekari niðurskurðar vegna erfiðrar fjárhagsstöðu spítalans sem rekja má til verðbólgu og stórhækkandi lífeyrisskuldbindinga af þeim völdum.

Meðal þeirra ráðstafana sem gripið verður til er endurmat á nýtingu hjúkrunarþjónustu, sem er miðuð að því að komast megi af með færri hjúkrunarfræðinga á hvern sjúkling og fresta allri endurmenntun, en Björn segir markmiðið að geta veitt sjúklingum meiri þjónustu þó að minni fjármunir séu til reiðu en vænst var.

„Það er forgangsatriði hjá okkur að geta sinnt og læknað eins marga sjúklinga og unnt er og sparað peninga. Sjúklingarnir verða að ganga fyrir öðru.

Sjúklingar geta ekki beðið

„Sumar deildir munu halda sínum hjúkrunarfræðingum,“ er haft eftir honum í sænska dagblaðinu Dagens Nyheter.

„Það tala margir um týnd ár í heilbrigðiskerfinu og að biðlistarnir muni lengjast eftir því sem efnahagurinn versnar. En sjúklingar okkar geta ekki beðið, þeir þurfa á hjálp okkar að halda núna, hvað sem líður allri verðbólgu og vaxtahækkunum.“

Jafnvægi í rekstri

Hann var spurður hvort ekki væri varhugavert að breyta starfsmannahaldi, jafnvel þannig að það yrði sjúklingum hættulegt.

„Nei, við teljum að það sé vel gerlegt. Og ef við sjáum að það er ekki öruggt fyrir sjúklinga, þá breytum við því.“ Markmiðið væri jafnvægi í rekstri.

Í bréfi Björns til starfsmanna í liðinni viku kom fram að halli á rekstri sjúkrahússins næmi 709 milljónum sænskra króna, sem er jafnvirði nær 9 milljarða íslenskra króna. Óhjákvæmilegt væri að leggja enn frekari áherslu á að ná niður kostnaði í rekstri þess, en Birni hefur orðið mjög ágengt við það á liðnum árum.

Nýju sparnaðaráformin voru kynnt á stjórnendafundi nú á föstudag, en þar var einnig greint frá tímabundnu ráðningarbanni og að öllum nýjum upplýsingatækniverkefnum yrði einnig slegið á frest.