1957 Freysteinn Þorbergsson og Ingimar Jónsson á Skákþingi Íslands.
1957 Freysteinn Þorbergsson og Ingimar Jónsson á Skákþingi Íslands. — Ljósmynd/Hermann Ingimarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Dr. Ingimar Jónsson hefur sent frá sér bókina Íþróttapistla. „Ég vildi að þetta efni kæmi fyrir almenningssjónir,“ segir hann og vísar til þess að þótt margar greinarnar hafi áður birst í dagblöðum eða tímaritum hafi fáir lesið…

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Dr. Ingimar Jónsson hefur sent frá sér bókina Íþróttapistla. „Ég vildi að þetta efni kæmi fyrir almenningssjónir,“ segir hann og vísar til þess að þótt margar greinarnar hafi áður birst í dagblöðum eða tímaritum hafi fáir lesið Íþróttamál, félagsblað Íþróttakennarafélags Íslands. Auk þess hafi hann endurbætt flestar greinarnar sem áður hafi birst og síðan sé nýtt efni. „Ég tók mig til og lauk við nokkrar greinar sem ég var byrjaður á en hafði sett til hliðar.“

Ingimar lærði íþróttafræði í Leipzig í Austur-Þýskalandi og tileinkar skóla sínum þar, Deutsche Hochschule für Körperkultur, DHFK, bókina, en hann útskrifaðist 1968. Hann hefur komið að íþróttamálum síðan, bæði sem kennari, formaður Íþróttakennarafélagsins, ritstjóri Íþróttamála, námstjóri í íþróttum, þjálfari, formaður Blaksambands Íslands, formaður Skáksambands Íslands og höfundur fjögurra alfræðibóka um íþróttir (Alfræði menningarsjóðs A-Ö, Alfræðibók um skák, Alfræðibók um golf og Allt um vetrarleikana).

Skák og sund

Greinarnar flokkast undir sagnfræði og þeim fylgja ítarlegar tilvísanir. Flestar fjalla um sund, Ólympíuleika og skák. Ingimar var liðtækur skákmaður eins og foreldrar hans, Jón Ingimarsson, formaður Iðju, félags verksmiðjufólks á Akureyri, og Gefn Geirdal frá Grímsey.

Ingimar rekur upphaf skipulegs sunds á Íslandi og greinir frá ýmsum sundafrekum. Meðal annars er pistill um fyrsta nýárssundið, annar um Íslendingasundið 1910 til 1912, um fyrsta Viðeyjarsundið, Drangeyjarsund Péturs Eiríkssonar og fyrsta Engeyjarsund kvenna. „Lítið hefur verið skrifað um það síðastnefnda,“ segir hann, en Ruth Hanson var fyrst kvenna til að synda úr eynni.

Fróðlegar greinar eru um franska skákmanninn og listamanninn Marcel Duchamp og þýska skákmeistarann Ludwig Engels og kynni þeirra af íslenskum skákmönnum. „Ungur lærði ég að tefla í föðurhúsum,“ skrifar Ingimar. Hann var skákmeistari Akureyrar ásamt Júlíusi Bogasyni 1954 og efstur á Skákþingi Norðlendinga 1957. Með því vann hann sér þátttökurétt í landsliðsflokki á Skákþingi Íslands og varð í fjórða sæti á eftir Friðriki Ólafssyni, Freysteini Þorbergssyni og Arinbirni Guðmundssyni, eins og fram kemur í bókinni. Hann varð síðan í öðru sæti á eftir Inga R. Jóhannssyni á Skákþinginu árið eftir og í sveit Íslands á Ólympíuskákmótinu í München í Þýskalandi um haustið. Hann varð síðan aftur í öðru sæti á eftir Inga R. á Skákþinginu 1959. „Ég var sjötti stigahæsti skákmaður landsins skömmu síðar.“

Nokkrar skákskýringar eru birtar og á bókarkápu er meðal annars stöðumynd af lokastöðunni í skák Ingimars við norska skákmeistarann Svein Johannessen á alþjóðlegu unglingamóti í Ósló um áramótin 1957/58. Skákinni eru gerð góð skil og vitnað í umsagnir annarra. „Við sömdum um jafntefli í tímaþröng en ég var með unna skák í tveimur leikjum, sá það bara ekki.“

Ingimar er 85 ára og hvergi nærri hættur.

„Ég hef áhuga á íþróttasögu, hef viðað að mér miklu efni og geri ráð fyrir að ganga frá fleiri pistlum,“ segir hann. „Þeir eru til, gamlar samantektir sem ég vil ljúka við og koma á framfæri í bók.“