Blönduós Ný þjóðleið myndi breyta miklu og færa umferð út úr bænum.
Blönduós Ný þjóðleið myndi breyta miklu og færa umferð út úr bænum. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Líklegt er að einkaaðilar hafi slíkan áhuga á því að leggja og standa að rekstri Húnavallaleiðar á Norðurlandi vestra að hið opinbera þyrfti einasta að heimila framkvæmdina og setja um hana reglur. Þetta segir í tillögu til ályktunar sem Njáll…

Líklegt er að einkaaðilar hafi slíkan áhuga á því að leggja og standa að rekstri Húnavallaleiðar á Norðurlandi vestra að hið opinbera þyrfti einasta að heimila framkvæmdina og setja um hana reglur. Þetta segir í tillögu til ályktunar sem Njáll Trausti Friðbertsson þingmaður Sjálfstæðisflokks hefur lagt fram á Alþingi. Nái tillagan fram að gangi fæli innviðaráðherra Vegagerðinni að uppfæra forsendur fyrir uppbyggingu Húnavallaleiðar og bæta henni inn í samgönguáætlun.

Húnavallaleið myndi, ef af verður, liggja frá Brekkukoti í Þingi, vestan við Blönduós, og þaðan um holt og hæðir að Skriðulandi í Langadal. Þetta væri 16,8 km langur kafli á hringveginum sem með þessu færi fram hjá Blönduósi. Með þessu yrði vegurinn umhverfis landið jafnframt styttur um 14 km.

„Um 1.000 ökutæki fara þarna um á degi hverjum og vegfarendur kæmust leiðar sinnar á nýjum og öruggum 17 km vegi í stað rúmlega 30 km á núverandi hringvegi sem er ekki mjög breiður og liggur í gegnum þéttbýli,“ segir í greinargerð með þingsályktunartillögunni.

Fram kom á dögunum í Morgunblaðinu, í viðtali við Pétur Arason bæjarstjóra í Húnabyggð, að lítil stemning væri þar í sveit fyrir Húnavallaleið. Heimamenn velta fyrir sér forgangsröðun í samgöngumálum og telja að af þessari dýru framkvæmd yrði ávinningur óljós. Einnig er bent á að rask við laxveiðiár sem framkvæmd fylgi sé slæmt.

Mótrök við sjónarmiðum fólks í Húnabyggð um vegarlagningu þessa, sem nefnd eru í greinargerð með þingsályktunartillögunni, eru að í könnun Gallup fyrir Samgöngufélagið 2019 kom fram að 66,2% svarenda voru hlynnt Húnavallaleið. Á Norðurlandi eystra hafi fáir verið andvígir. Mesta andstaðan hafi verið á Norðurlandi vestra. sbs@mbl.is