[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Knattspyrnumaðurinn Theódór Elmar Bjarnason hefur framlengt samning sinn við uppeldisfélag sitt KR. Samningurinn er til næstu tveggja ára og gildir út keppnistímabilið 2025. Miðjumaðurinn, sem er 36 ára gamall, gekk til liðs við félagið á nýjan leik …

Knattspyrnumaðurinn Theódór Elmar Bjarnason hefur framlengt samning sinn við uppeldisfélag sitt KR. Samningurinn er til næstu tveggja ára og gildir út keppnistímabilið 2025. Miðjumaðurinn, sem er 36 ára gamall, gekk til liðs við félagið á nýjan leik fyrir tímabilið 2021 eftir sautján ár í atvinnumennsku í Skotlandi, Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Tyrklandi og í Grikklandi þar sem hann lauk atvinnumannaferlinum. Hann lék 24 leiki með KR í Bestu deildinni í síðasta keppnistímabili þar sem hann skoraði þrjú mörk en alls á hann að baki 70 leiki í efstu deild þar sem hann hefur skorað fimm mörk. Þá á hann að baki 41 A-landsleik þar sem hann hefur skorað eitt mark en hann var í lokahópi Íslands á EM í Frakklandi árið 2016.

Breski auðkýfingurinn sir Jim Ratcliffe hefur sent inn tilboð til eigenda Manchester United, Glazer-fjölskyldunnar, um kaup á fjórðungshlut í enska knattspyrnufélaginu. Ratcliffe, sem hefur lengi verið stuðningsmaður félagsins, bauð 1,8 milljarð dollara fyrir hlutinn en hann hafði áður reynt að kaupa allt félagið af Glazer-fjölskyldunni. Bandaríska fjölskyldan neitaði á dögunum rúmlega sjö milljarða dollara tilboði katarska sjeiksins Jassim bin Hamad Al-Thani í félagið en hann vildi eignast 100% hlut í knattspyrnufélaginu. Hann var hins vegar ekki tilbúinn að fjárfesta í minnihlutaeign í félaginu og tilkynnti um helgina að hann væri hættur við að fjárfesta í félaginu sem hefur verið í eigu Glazers-fjölskyldunnar frá 2003.

Óskar Hrafn Þorvaldsson er nálægt því að taka við þjálfun norska knattspyrnufélagsins Haugesund. Það er vefmiðillinn fótbolti.net sem greinir frá þessu en Óskar Örn var látinn fara sem þjálfari Breiðabliks í síðustu viku eftir fjögur ár í herbúðum Breiðabliks. Hann gerði Breiðablik að Íslandsmeisturum í annað sinn í sögu félagsins á þarsíðasta keppnistímabili og þá kom hann liðinu í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu í haust. Eirik Opdedal, yfirmaður knattspyrnumála hjá Haugesund, staðfesti að viðræður við Óskar væru langt á veg komnar en Haugesund er í þrettánda sæti norsku úrvalsdeildarinnar með 24 stig að 24 umferðum loknum, stigi frá umspilssæti um fall úr deildinni.

Casemiro, miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United og Brasilíu, fór meiddur af velli þegar Brasilía og Venesúela mættust í Suðurameríku-riðli undankeppni HM 2026 í Cuiabá í Brasilíu á laugardaginn. Casemiro haltraði af velli á 79. mínútu en leiknum lauk með jafntefli, 1:1. Alls eru 16 leikmenn United að glíma við meiðsli þessa dagana og er liðið afar þunnskipað baka til þar sem þeir Luke Shaw, Lisandro Martínez og Aaron Wan-Bissaka eru allir frá.

Jökull Elísabetarson hefur framlengt samning sinn við knattspyrnudeild Stjörnunnar og mun hann stýra karlaliði félagsins áfram næstu fjögur árin. Samingurinn gildir út keppnistímabilið 2027 en hann hefur starfað hjá félaginu frá árinu 2021 þegar hann var ráðinn aðstoðarþjálfari Ágústar Gylfasonar. Jökull tók svo alfarið við liðinu í maí á þessu ári eftir að Ágústi var sagt upp störfum en undir hans stjórn endaði Stjarnan í fjórða sæti Bestu deildarinnar og tryggði sér um leið Evrópusæti.

Bandaríska knattspyrnukonan Caroline Van Slambrouck hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna, 31 árs að aldri, og mun hún nú snúa sér að þjálfun hjá Keflavík. Hún á að baki 114 leiki í efstu deild hér á landi með Keflavík og ÍBV þar sem hún hefur skorað sex mörk.

Körfuknattleikskonan Isabella Ósk Sigurðardóttir hefur samið við gríska félagið Panseraikos í grísku B-deildinni og mun hún leika með liðinu út yfirstandandi keppnistímabil. Isabella Ósk, sem er 26 ára gömul, gekk til liðs við króatíska félagið Zadar Plus í sumar en eftir stutt stopp þar í landi heldur hún til Grikklands. Panseraikos leikur í norðurriðli grísku B-deildarinnar og er í öðru sæti deildarinnar með 4 stig eftir fyrstu tvær umferðir tímabilsins. Hún er uppalin hjá Breiðabliki en lék með Njarðvík áður en hún hélt út í atvinnumennsku síðasta sumar. Hún á að baki 8 A-landsleiki fyrir Ísland.