Viðtal
Anna Rún Frímannsdóttir
annarun@mbl.is
„Við erum að halda hátíðina núna í sjötta skipti en þetta er í fyrsta skipti sem við erum ein af Borgarhátíðum Reykjavíkurborgar, í hópi góðra hátíða eins og Hinsegin daga, Airwaves og fleiri, þannig að þetta eru svolítil tímamót fyrir okkur,“ segir Guja Sandholt, listrænn stjórnandi Óperudaga, sem fram fara 19.-29. október á ýmsum stöðum í borginni og í sveitarfélögum í kringum höfuðborgarsvæðið.
„Þetta er í raun hátíð klassískra söngvara og þeirra samstarfsfólks og fjallar um að gera listformið okkar aðgengilegt, það er að segja klassíska sönglist, óperu, söngtónlist og alla þá tónlist sem klassískir söngvarar syngja. Markmiðið okkar er að leika okkur með formið og bjóða upp á fjölbreytta viðburði fyrir alla aldurshópa. Við förum því með formið út í samfélagið og erum líka með það á hefðbundnari stöðum,“ segir hún og bætir við að til dæmis komi Mjóddin til með að breytast í óperuhús.
Fjölbreytt úrval sýninga
Yfirskrift hátíðarinnar í ár er „Við erum öll …“ og dregur hún innblástur sinn úr kjarnaverkefni hátíðarinnar, senu úr óperunni As one eftir bandaríska tónskáldið Lauru Kaminsky, sem flutt verður á umræðutónleikum í Norðurljósum 28. október. Þá verða 11 óperur fluttar á hátíðinni, þar á meðal ungbarnaópera, örópera í Mjóddinni, ævintýraóperur, teknóópera, óperur með femínískum fókus, ópera fyrir áhrifavalda, glæný gamanópera um skandinavíska velferðarkerfið og brot úr nýsaminni óperu um Ríkharð III. eftir Sigurð Sævarsson við hið fræga leikrit Shakespeares.
„Við förum með sýningar í Kópavog, Garðabæ, Reykjanesbæ, Selfoss, Eyrarbakka og upp í Borgarbyggð og má þar meðal annars nefna leikskólasýninguna Vindurinn syngur sem Svafa Þórhallsdóttir, yndisleg söngkona sem býr í Danmörku, samdi og er hún ætluð börnum á aldrinum 2-6 ára. Okkur finnst tilvalið að fara með sýningu eins og þessa í sveitarfélögin og reyna að bjóða sem flestum börnum góðs að njóta. Við erum í virku samstarfi við sveitarfélögin þannig að þau leggja svolítið í púkk og þannig geta miklu fleiri notið góðs af.“
Þá verður einnig boðið upp á sérstaka ungbarnaóperu í salnum í Norræna húsinu og í Duus-safnahúsunum í Reykjanesbæ sem hugsuð er fyrir þau allra yngstu, eða börn á aldrinum 0-2½ árs.
„Þar búum við til ótrúlega rólegt umhverfi og börnin eru auðvitað með foreldrum eða forráðamönnum inni á rólegum stað. Þar er leikmynd sem þau fá sem er alveg örugg og þau fá að skríða um hana og taka svolítið virkan þátt með því að gefa frá sér hljóð en það er ýmislegt í rýminu sem vekur áhuga þeirra eins og mjúkir koddar og ullarkennd efni.“
Hátíðin orðin mjög umfangsmikil
Að sögn Guju tekur skipulag fyrir svona hátíð langan tíma enda að mörgu að huga.
„Þetta hefur óvart tekið yfir líf mitt því ég er bara venjuleg söngkona sem stofnaði þessa hátíð í samstarfi við Kópavogsbæ árið 2016 en það kom til af því að mér fannst ekki nógu mikið um að vera í söngsenunni á Íslandi. Maður er allt árið í þessari skipulagningu en við erum sem sagt lítið teymi núna að vinna að hátíðinni. Ég er með nokkra yndislega verkefnastjóra í hlutastarfi, sem eru líka söngvarar eða úr bransanum, sem gera þetta mögulegt sem og aðstandendur þátttökuverkefnanna sem sjá um sín verkefni sjálfir. Það er teymisvinnan sem gerir þetta mögulegt sem og fallega samstarfið við senuna sem hefur tekið hátíðina upp á sína arma.“
Þá segir hún svo fallegt að sjá hve hátíðin sé orðin umfangsmikil enda sé hún vettvangur fyrir fagfólk.
„Þarna kemur senan saman og fólk getur óskað eftir því að fá að taka þátt í Óperudögunum. Svo reynum við að styðja við verkefnin á ýmiss konar hátt en þetta er í raun sameiginlegt átak senunnar, sem heldur áfram að vaxa og dafna og hefur verið mjög gaman að verða vitni að, því það eru allir í fallegri samvinnu svo ekki sé talað um samlegðaráhrifin en með því að vinna saman getum við gert stærri hluti en ella,“ segir Guja og tekur sem dæmi að nú hafi þau bæði hljómsveit Óperudaga og séu með lokahátíðina í Hörpu, sem sé risastórt verkefni.
Nokkur hundruð manns taka þátt í hátíðinni
Um 40-50 erlendir listamenn taka þátt í hátíðinni í ár en þar ber helst að nefna 30 manna óperukór ungra atvinnusöngvara sem kemur fram í Norðurljósum ásamt Jóhanni Kristinssyni barítónsöngvara, íslensk-norsku óperuna Systemet eftir Gísla Jóhann Grétarsson og Odu Fiskum, dönsku barnaóperuna Hjartasöng í Norræna húsinu og Reykjanesbæ sem og hinsegin óperukabarettinn Sex, drag & opera í boði Freddies Love í Tjarnarbíói.
„Ef við teljum alla listamennina, bæði íslenska og erlenda, þá erum við komin upp í nokkur hundruð þátttakendur en þar á meðal eru margir kórar og er það líka gert til þess að auka þátttökuna að fá þá með okkur. Einnig kannski til þess að sýna fram á hvað þetta er stór sena, það eru svo margir að vinna í þessu og með því að taka höndum saman vekjum við athygli á því. Það taka margir erlendir listamenn þátt í hátíðinni líka en við erum með mikið norrænt samstarf í ár,“ segir Guja. Blaðamanni leikur forvitni á að vita hvar við Íslendingar stöndum samanborið við nágrannaþjóðirnar í að setja upp sýningar og viðburði tengda óperusenunni.
„Styrkur Íslendinga á menningarsviðinu er sá að hér er mikill sköpunarkraftur og framkvæmdagleði. Margir Íslendingar eru að slá í gegn á heimsmælikvarða þannig að útlendingar eru í auknum mæli farnir að taka eftir þessum súperkrafti sem býr í okkur. Ég hef oft verið spurð að því erlendis hvernig standi á því að við eigum svona marga góða söngvara þannig að við erum með mjög fjölbreytt starf en starfsumhverfið er erfitt. Þess vegna erum við að reyna að sýna fram á það með svona jákvæðum aktívisma að við þurfum að styrkja innviðina okkar. Ef þú vilt starfa sem klassískur söngvari hér á landi þá geturðu hvergi sótt um vinnu, það er ekki ein staða fyrir þennan hóp en vonandi breytist það með stofnun Þjóðaróperunnar.“
Metnaðarfull dagskrá
Dagskrá hátíðarinnar má nálgast inni á vef Óperudaga á slóðinni operudagar.is, en þar má sjá að fjöldi ókeypis hádegistónleika verður í Hörpuhorni, Salnum í Kópavogi og Listasafni Sigurjóns Ólafssonar svo borgarbúar geta átt von á alls kyns óperukitli á óvenjulegum stöðum meðan á hátíðinni stendur.
„Ég mæli með að fólk kynni sér dagskrána vel en á lokahátíðinni má til dæmis sjá fjölda spennandi viðburða. Það verða ellefu heilar óperur sýndar á hátíðinni og svo erum við með fjölda ókeypis hádegistónleika eins og nýju Sveppaljóðin sem verða í Salnum í Kópavogi. Svo verður opnunin í Mjóddinni 19. október, þegar Mjóddin breytist í óperuhús, en þar verður frumflutt ný örópera eftir Elínu Gunnlaugsdóttur og að sjálfsögðu eru allir velkomnir. Gestir geta svo tekið virkan þátt í flutningi á Mozart Requiem á „singalong“-tónleikum í Hallgrímskirkju sunnudaginn 22. október svo það er nóg um að vera,“ segir Guja að lokum.