Gdansk Ung kona að kjósa á sunnudaginn í Gdansk, en metþátttaka var í kosningunum, ekki síst meðal kvenna.
Gdansk Ung kona að kjósa á sunnudaginn í Gdansk, en metþátttaka var í kosningunum, ekki síst meðal kvenna. — AFP/Janek Skarzynski
Búist er við lokatölum úr þingkosningum í Póllandi í dag. Í gær var búið að telja 80% atkvæða og miðað við þær tölur er búist við að stjórnarflokkurinn Lög og réttlæti (PiS) haldi ekki meirihluta, þrátt fyrir að hann verði áfram stærsti flokkur landsins með 37% atkvæða

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

Búist er við lokatölum úr þingkosningum í Póllandi í dag. Í gær var búið að telja 80% atkvæða og miðað við þær tölur er búist við að stjórnarflokkurinn Lög og réttlæti (PiS) haldi ekki meirihluta, þrátt fyrir að hann verði áfram stærsti flokkur landsins með 37% atkvæða. Líklegasti samstarfsflokkur Laga og réttlætis er flokkurinn Samtökin, sem er enn lengra til hægri en ríkisstjórnarflokkurinn, en miðað við spár í gær var talið að flokkarnir tveir myndu ekki ná nægilega mörgum sætum til að geta myndað ríkisstjórn, eða aðeins 212 sætum þegar 231 sæti þarf til að mynda stjórn.

Það lítur því enn út fyrir að Borgaravettvangur, flokkur Donalds Tusks, hafi möguleika til að mynda stjórn með Þriðju leiðinni og Vinstriflokknum, en miðað við tölur í gær er þeim spáð 249 sætum samanlagt, sem skiptist í 158 hjá Borgaravettvangi, 61 sæti hjá Þriðju leiðinni og 30 hjá Vinstriflokknum. Þetta myndi þýða miklar breytingar í Póllandi en Lög og réttlæti hafa verið við stjórn undanfarin átta ár og var fyrir kosningarnar spáð sigri.

73,7% kvenna kusu á sunnudag

Aldrei hafa jafn margir gengið til kosninga í Póllandi og á sunnudag frá því að landið losnaði úr viðjum kommúnismans 1989, eða yfir 70%. Lög og réttlæti hafa sterk tengsl við kaþólsku kirkjuna og forseta landsins Andrzej Duda, sem í gær var í heimsókn í Vatíkaninu þar sem hann hældi mikilli kjörsókn í Póllandi. Flokkurinn hefur verið með harða stefnu gegn þungunarrofi, en Tusk lofaði að hann myndi gera breytingar á þeirri stefnu næði flokkur hans í stjórn. Það voru skilaboð sem greinilega hafa náð til pólskra kvenna, sem flykktust á kjörstað á sunnudaginn, og er talið að 73,7% kvenna í Póllandi hafi kosið, sem er algjört met.

Ungar konur í Póllandi hafa sagt að harðlínustefnu stjórnvalda hvað viðkemur málefnum kvenna verði að linna og þær létu aðgerðir fylgja orðunum á kjörstað á sunnudaginn. Félagsfræðingurinn Justyna Kajta við SWPS-háskólann í Varsjá sagði við AFP-fréttaveituna í gær að þar til nýverið hefði nær helmingur allra kvenna ekki sagst myndu kjósa. „Nú lítur út fyrir að fleiri konur en karlar hafi kosið í þessum kosningum,“ sagði hún.

Stríð, innflytjendur og öryggi

Harðasta baráttan í undanfara kosninganna var á milli Laga og réttlætis og Borgaravettvangsins og reyndi hvor flokkur um sig að mála hinn upp sem ógn við landið. Lög og réttlæti, sem hefur stuðning forsetans, jók við orðræðu sína um pólskt fullveldi og stillti venjulegum Pólverjum upp sem andstæðu við elítu Evrópusambandsins, sem myndi reyna að stjórna beint eða óbeint næði Borgaravettvangur með stuðningi vinstriflokkanna völdum, en Donald Tusk var forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins frá 2014-2019 og hefur enn mikil tengsl við sambandið. Þá lögðu þeir mikla áherslu á að Pólland væri í hættu vegna stríðsins í Úkraínu og stöðugs fjölda innflytjenda sem herjuðu á landið, ekki síst innflytjenda frá Mið-Austurlöndum sem kæmu í gegn um Hvíta-Rússland og lofuðu kjósendum að þeirra flokkur myndi tryggja öryggi Póllands.

Samskipti þjóðanna

Þegar forsætisráðherra Póllands, Mateusz Morawiecki, sagði fyrir nokkrum vikum að Pólland hygðist ekki senda vopn lengur til Úkraínu var það mikið bakslag fyrir flokkinn. Spenna milli landanna hafði aukist vegna banns Póllands á innflutningi á korni frá Úkraínu sem talið var hafa áhrif á kornmarkaðinn í Póllandi. Orð forsætisráðherrans voru þó dregin til baka fljótlega og sagt að þau hefðu verið túlkuð á allra versta veg, en spenna hefur ríkt áfram milli landanna eftir að þessi ummæli féllu. Á sama tíma gekk kosningabarátta Borgaravettvangsins út á að færa Pólland til nútímans og aukinna kvenréttinda, bæta samskipti við Evrópusambandið og fá aðgang að sjóðum sambandsins sem hafa verið frystir, m.a. vegna afskipta stjórnvalda af dómstólum og flóttamannamála. Þá sagði Tusk að ný stjórn myndi endurreisa orðspor Póllands á alþjóðavettvangi. Tusk náði að safna saman hundruðum þúsunda Pólverja til að mótmæla á götum úti og fullyrti að milljón manna hefði mótmælt og krefðist breytinga á stjórnarheimilinu.

Eins og staðan er virðast meiri líkur á nýrri stjórn í Póllandi en ekki. „Pólland er komið aftur,“ sagði Manfred Weber leiðtogi Evrópuflokksins, stærsta flokks Evrópuþingsins, í Strassborg í gær og víst að margir stjórnendur í Evrópu myndu fagna nýrri ríkisstjórn í Póllandi.

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir