Kennsla Foreldrar fái fræðslu líkt og nýir nemendur í skólum.
Kennsla Foreldrar fái fræðslu líkt og nýir nemendur í skólum. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Við finnum fyrir miklum áhuga á að taka saman höndum til að styðja vel við börn í leik- og grunnskólum,“ segir Anna Magnea Hreinsdóttir, aðjunkt við menntavísindasvið Háskóla Íslands. Anna Magnea er faglegur stjórnandi tveggja ára…

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Við finnum fyrir miklum áhuga á að taka saman höndum til að styðja vel við börn í leik- og grunnskólum,“ segir Anna Magnea Hreinsdóttir, aðjunkt við menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Anna Magnea er faglegur stjórnandi tveggja ára þróunarverkefnis mennta- og barnamálaráðuneytisins og Háskóla Íslands sem kynnt var snemma á árinu um þróun námskeiða um uppeldi barna fyrir foreldra. Þessi fyrirhuguðu námskeið um foreldrafærni voru kynnt með þeim hætti að geta og færni foreldra væri „lykilþáttur í því að börn í samfélagi okkar nái að þroskast og dafna á eigin forsendum,“ eins og það var orðað.

Anna Magnea tekur undir þetta, að mikilvægt sé að foreldrar séu vel undirbúnir fyrir nýtt hlutverk og fái bæði fræðslu og stuðning við hæfi. Sem kunnugt er hefur verið hávær umræða að undanförnu um ýmsan vanda er steðjar að börnum og unglingum. Má þar nefna samfélagsmiðla og símanotkun í skólum auk geðheilsu ungmenna. Hafa þarf í huga að foreldrar eru ávallt að gera sitt besta en þurfa oft meiri stuðning en þeir fá, segir hún.

„Það er góður gangur í þessu verkefni. Við höfum fengið til liðs við okkur um 60 leik- og grunnskóla víða um land. Þessa dagana erum við að funda með skólunum sem ætla að taka þátt og erum að kynna okkur ýmsar leiðir til námskeiðahalds.“

Hún segir mikilvægt að koma á góðu samstarfi foreldra og skóla. „Fræðslan gengur m.a. út á að skapa vettvang fyrir foreldra til að hittast þar sem hægt er að deila góðum ráðum og reynslu úr uppeldinu ásamt því að foreldrar fá ákveðin verkfæri í hendurnar sem styðja þau í að byggja upp jákvæð samskipti, setja mörk, styðja börnin sín í að byggja upp seiglu og efla tilfinningaþroska þeirra. Við viljum tengja þetta við skólana. Þannig gætu foreldrar til að mynda fengið tækifæri til að taka þátt í 6-10 vikna prógrammi við upphaf skólagöngu,“ segir Anna. Hún segir að þetta gæti í byrjun átt við þegar börn byrja í leikskóla og í grunnskóla en síðar þegar þau færast yfir á miðstig grunnskólans.

Hún kveðst búast við að slík fræðsla verði fljótt sjálfsögð enda eigi orðatiltækið að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn, þó klisjukennt sé, afar vel við. „Það hefur sýnt sig að þegar foreldrar taka sig saman um ákveðin efni, líkt og gerðist með unglingadrykkju og reykingar, þá gerast undur. Það er hægt að færa svo margt til betri vegar þegar fólk tekur sig saman.“

Anna Magnea segir að auk skóla og leikskóla hafi verið leitað eftir samstarfi við marga hópa sem láta sig málefni foreldrafærni varða. Þar á meðal eru þeir sem unnið hafa að samstarfi skóla og foreldra, stjórnendur foreldrafærnináms við HÍ og heilsugæslunnar þar sem hefur verið haldið úti uppeldisfræðslu. „Nú erum við að stilla saman strengina og hlökkum til samstarfsins og að takast á við þetta mikilvæga verkefni.“

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon