Borgarráð hefur samþykkt tillögu borgarstjóra um að hefja viðræður við fimm fyrirtæki um þróun svokallaðra „lífsgæðakjarna“ á jafn mörgum lóðum í Reykjavík. Fyrir fundinum lágu drög að samningsmarkmiðum Reykjavíkurborgar vegna málsins

Borgarráð hefur samþykkt tillögu borgarstjóra um að hefja viðræður við fimm fyrirtæki um þróun svokallaðra „lífsgæðakjarna“ á jafn mörgum lóðum í Reykjavík. Fyrir fundinum lágu drög að samningsmarkmiðum Reykjavíkurborgar vegna málsins.

Með lífsgæðakjarna er átt við húsnæðisuppbyggingu fyrir eldri borgara í Reykjavík með fjölbreytt framboð af þjónustu í nærumhverfi kjarnans. Á vordögum fól borgarráð skrifstofu borgarstjóra og borgarritara að auglýsa eftir samstarfsaðilum og hugmyndum vegna þróunar slíkra kjarna og er ætlunin að nýta niðurstöðurnar við að móta umgjörð um auglýsingu á lóðum borgarinnar undir slík verkefni. Ef fram kæmu hugmyndir um þróun á eigin lóðum yrði hægt að hefja viðræður við þá aðila sem nú verður gert.

Þau fyrirtæki sem hér um ræðir eru Reitir vegna Loftleiðareits, Köllunarklettur vegna Köllunarklettsreits, Íþaka vegna lóðar á Stórhöfða, Þorpið vegna lóðar á Ártúnshöfða 2 og Klasi vegna lóða á Ártúnshöfða 1, í norðurhluta Mjóddar og í Álfheimum.

Í bókun fulltrúa Sósíalistaflokksins sem sat hjá við afgreiðslu málsins kemur m.a. fram að í drögum að samningsmarkmiðum komi fram að a.m.k. 30% íbúðanna verði hagkvæm og vistvæn og sérstaka áherslu skuli leggja á samstarf við óhagnaðardrifin uppbyggingarfélög, en viðkomandi telur að skilgreina þurfi betur hvað við sé átt með því að a.m.k. 30% íbúða verði hagkvæm og vistvæn, þar sem íbúðir geta t.a.m. verið vistvænar en þó ekki hagkvæmar.

Í greinargerð með tillögu borgarstjóra kemur m.a. fram að margir aðilar hafi sent inn hugmyndir og unnið sé að greiningu þeirra. Samráð hafi verið haft við umhverfis- og skipulagsráð sem og heilbrigðisráðuneytið.