Í Washington Guðmundur og Oddvar Nordli, síðar forsætisráðherra Noregs, árið 1960, nýkomnir úr móttöku með Eisenhower Bandaríkjaforseta.<o:p></o:p>
Í Washington Guðmundur og Oddvar Nordli, síðar forsætisráðherra Noregs, árið 1960, nýkomnir úr móttöku með Eisenhower Bandaríkjaforseta.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðmundur Helgason Garðarsson fæddist 17. október 1928 í Hafnarfirði. Hann var skírður eftir afa sínum Guðmundi Helgasyni, framkvæmdastjóra trésmiðjunnar Dvergs í Hafnarfirði, sem lést skömmu eftir að Guðmundur fæddist

Guðmundur Helgason Garðarsson fæddist 17. október 1928 í Hafnarfirði. Hann var skírður eftir afa sínum Guðmundi Helgasyni, framkvæmdastjóra trésmiðjunnar Dvergs í Hafnarfirði, sem lést skömmu eftir að Guðmundur fæddist. Guðmundur ólst upp hjá ömmu sinni, Vigdísi Þorbjörgu Þorgilsdóttur, á Merkurgötu 3 og gekk í Kaþólska skólann í Hafnarfirði sem þýskar nunnur starfræktu.

Guðmundur gekk í Verzlunarskóla Íslands og þar kynntist hann lífsförunaut sínum, Ragnheiði Ásgeirsdóttur. Þau urðu samstúdentar frá skólanum árið 1950. Guðmundur lauk viðskiptafræðiprófi frá Háskóla Íslands 1954, stundaði framhaldsnám í hagfræði við Christian Albrechts-háskóla í Kiel í Vestur-Þýskalandi 1954-1955, starfsnám í endurtryggingum hjá Lloyd's í London 1955 og nám í alþjóðamarkaðsfræðum hjá International Marketing Institute, Harvard-háskóla, í Bandaríkjunum 1965.

Á unglingsárum var Guðmundur sendisveinn hjá Ferdinant Hansen kaupmanni, starfaði á sumrum á símstöðinni í Hafnarfirði og síðar í heildsölu föður síns, en frá og með sumrinu 1947 stundaði hann sjómennsku á togaranum Júpíter sem Tryggvi Ófeigsson gerði út en líka togurum Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar, Júní og Júlí. Þá var meðal annars siglt með karfa til Þýskalands sem var hluti af Marshallaðstoð Bandaríkjamanna.

Guðmundur var skrifstofustjóri hjá Iðnaðarmálastofnun Íslands 1955-1961 og fulltrúi og ritari stjórnar Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna 1961-1987. Hann sinnti sérverkefnum fyrir SH 1987-1997. Hann var um áratugaskeið á faraldsfæti í erindagjörðum fyrir Sölumiðstöðina, jafnt vestan sem austan járntjalds, sótti m.a. messuna í Leipzig í Austur-Þýskalandi um áratugaskeið, en hann dvaldi líka löngum í Bandaríkjunum í störfum sínum fyrir SH og Coldwater, dótturfélag þess. Í starfi sínu kynntist hann högum atvinnulífsins mjög vel, sér í lagi markaðssetningu sjávarfangs. Það kom að góðu gagni er hann var kjörinn til setu á Alþingi árið 1974 en hann tók fyrst sæti á þingi sem varamaður fyrir Jóhann Hafstein árið 1967.

Hann var þingmaður eða varaþingmaður til ársins 1991 og vann ötullega að mörgum framfaramálum á þeim vettvangi. Munaði þar mest um þátt hans í lausn deilunnar við Breta og Vestur-Þjóðverja um útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 200 mílur. Einnig hafði hann forystu í umræðum um lífeyrismál og mikilvæg mál sem sneru að vinnumarkaðnum. Þá flutti hann frumvarp um afnám einkaréttar Ríkisútvarpsins til reksturs ljósvakamiðla árið 1977 en þar var hann allnokkrum árum á undan sinni samtíð.

Guðmundur var formaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur 1957-1979. Hann opnaði félagið með þeim árangri að VR varð og er enn fjölmennasta og öflugasta launþegafélag landsins. Í formannstíð hans varð VR stórveldi innan verkalýðshreyfingarinnar. Verslunarmenn voru ekki aðilar að ASÍ en Guðmundur og félagar hans sóttu það fast að komast inn í ASÍ en pólitískar ástæður réðu því að það reyndist torsótt. En það hafðist með harðri baráttu og eftirfylgni.

Guðmundur sat í miðstjórn Alþýðusambands Íslands 1966-1976 og miðstjórn Alþýðusambands Vestur-Evrópu (European Trade Union Confederation), aðal- og varamaður 1972-1982. Hann tók fyrstur sjálfstæðismanna sæti í miðstjórn ASÍ.

Hann sat í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna 1968-2001, þar af formaður um árabil. Þáttur Guðmundar í uppbyggingu lífeyrissjóðakerfisins á Íslandi er stór. Hann áttaði sig fljótt á gildi öflugra lífeyrissjóða fyrir framtíð Íslands og lagði mikið af mörkum í upphafi þegar fáir höfðu skilning á mikilvægi sjóðanna.

Guðmundur sat í ráðgjafarnefnd EFTA 1971-1982, í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins 1971-1975 og 1980-1985, í bankaráði Verslunarbanka Íslands hf. 1973-1989, í bankaráði Íslandsbanka hf. 1990-2001. Guðmundur sat í stjórn Fjárfestingarfélags Íslands 1973-1992, þar af formaður 1986-1992, í samninganefnd um útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 200 mílur 1975-1976, í stjórn Íslenskrar endurtryggingar 1983-1987. Hann var formaður fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík 1980-1985, sat í tryggingaráði 1979-1983 og var fulltrúi í þingmannasamtökum Norður-Atlantshafsríkjanna 1987-1990.

Á stríðsárunum fékk Guðmundur áhuga á heimsmálunum. Hann lærði fljótt ensku og hlustaði með athygli á fréttir BBC í útvarpinu. Í hans huga kom aldrei annað til greina en styðja vestræna samvinnu og hann var meðal þeirra ungu manna sem vörðu Alþingishúsið hinn örlagaríka dag 30. mars 1949. Guðmundur var meðal stofnenda Varðbergs árið 1961 og fyrsti formaður þess. Hann hreifst af uppganginum í Vestur-Þýskalandi eftirstríðsáranna og sér í lagi félagslegum markaðsbúskap sem Kristilegir demókratar (CDU) byggðu á undir forystu Konrads Adenauer kanslara. Guðmundur var um langt árabil í vinfengi við ýmsa af helstu forystumönnum CDU, þeirra á meðal Gerhard Stoltenberg, síðar fjármála- og varnarmálaráðherra, og Prof. Dr. Otto Wulff, forseta þýska þingmannasambandsins, sem enn er virkur í starfi í CDU, kominn á tíræðisaldur.

Maður nýrra tíma, æviminningar Guðmundar komu út árið 2017 en þær skráði Björn Jón Bragason sagnfræðingur.

Fjölskylda

Eiginkona Guðmundar var Ragnheiður Guðrún Ásgeirsdóttir, f. 5.6. 1931, d. 7.7. 2008, læknaritari. Þau gengu í hjónaband 21.11. 1953 og bjuggu lengst af í Stigahlíð í Reykjavík, þar sem þau reistu fjölskyldu sinni myndarlegt heimili. Guðmundur dvelur nú í góðu yfirlæti á hjúkrunarheimilinu Sóltúni í Reykjavík.

Foreldrar Ragnheiðar voru hjónin Elín Jóhanna Guðrún Hafstein, f. 25.12. 1900, d. 4.9. 1988, húsfreyja og Ásgeir Þorsteinsson, f. 7.10. 1898, d. 1.1. 1971, efnaverkfræðingur og forstjóri Samtryggingar ísl. botnvörpunga í Reykjavík. Þau voru búsett í Reykjavík.

Kjörsynir Ragnheiðar og Guðmundar eru 1) Guðmundur Ragnar, f. 11.7. 1956, forritari, búsettur í Reykjavík. Dætur hans eru Ragnheiður Freyja, f. 30.11. 1992, og Katrín, f. 8.10. 1998; 2) Ragnar Hannes, f. 28.10. 1969, viðskiptafræðingur, búsettur í Reykjavík. Dætur hans eru Guðrún Erla, f. 9.10. 1999, og Anna Lára, f. 17.9. 2000.

Foreldrar Guðmundar voru hjónin Garðar Svavar Gíslason, f. 20.9. 1906, d. 9.12. 1962, stórkaupmaður í Hafnarfirði, og Matthildur Guðmundsdóttir, f. 18.1. 1910, d. 15.5. 1998, húsfreyja.