Helga Dögg Sverrisdóttir
Helga Dögg Sverrisdóttir
Markmið foreldrafélaganna er að ungu fólki í kynama sé mætt með hreinskilni og varúð.

Helga Dögg Sverrisdóttir

Í Noregi og Svíþjóð eru starfrækt foreldrafélög barna sem glíma við kynama. Félögin bera sama nafn, Genid. Félögin halda úti upplýsingasíðu, hvort í sínu landi, fyrir foreldra sem eru í sömu stöðu. Hér á landi fellur foreldrafélagið inn í hagsmunasamtökin.
Foreldrafélögin hafa sérstöðu. Þau tengjast ekki á neinn hátt inn í trans-hugmyndafræðina eða samtökum sem henni tengjast, pólitík eða trúarbrögðum. Þetta eru foreldrar sem vilja börnum sínum allt hið besta og nota til þess gagnreyndar aðferðir og þekkingu. Þau vilja réttar upplýsingar sem sérfræðingar hafa fram að færa, m.a. um lyfjagjöf. Foreldrafélögin voru stofnuð því foreldrum fannst þau vanta hlutlausar upplýsingar og ráðgjöf.

Foreldrar vilja að börnin fái að taka út kynþroska án aðkomu læknisfræðilegrar íhlutunar. Þau vilja að börnin fái leiðsögn óháðra aðila, ekki hagsmunasamtaka. Þau hafa lagt áherslu á að hlusta á fræðimenn á sviðinu í heimalöndum sínum.

Foreldrarnir benda á að oft eru aðrir andlegir sjúkdómar undirliggjandi hjá barni sem allt í einu glímir við kynama. Þau nefna sjálfsskaða, ADHD, einhverfu, átraskanir, áföll, o.fl. Allt veikindi sem þarfnast annars konar umönnunar.

Markmið foreldrafélaganna er að ungu fólki í kynama sé mætt með hreinskilni og varúð og að umönnun þeirra, eins og öll önnur umönnun, sé gagnreynd. Við elskum börnin okkar og viljum þeim allt hið besta, segja þau.

Foreldrarnir í Noregi benda á að rannsóknir sýni að félagsleg umskipti, að skipta um nafn og fornafn, geti orsakað að barn festist í kynjamisræminu og þar með verður erfiðara fyrir barn að viðurkenna líffræðilegt kyn sitt.
Foreldrafélögin benda á að trans-aðgerðasinnar og -hagsmunasamtök hafi gagnrýnt þau. Þetta fólk hefur kallað foreldrana fordóma- og hatursfulla. Sænska deildin skrifaði grein í Göteborgs-Posten undir fyrirsögninni „Mætið okkur með málefnalegum rökum í stað þess að kalla okkur transfóbísk“ til að vekja athygli á þessu.

Þau segja m.a.: Við höfum lengi velt því fyrir okkur hvers vegna trans-aðgerðasinnar og bandamenn þeirra hafi meiri áhyggjur af því að fordæma samtökin og foreldra í stað þess að svara okkur málefnalega.

Foreldrarnir spyrja: Hvað segjum við börnunum okkar eftir tíu ár ef við þegjum núna og þau draga okkur til ábyrgðar fyrir þöggunina?

Heimasíða sænska félagsins er Genid.se og bæði félög hafa snjáldursíður.

Höfundur er grunnskólakennari.

Höf.: Helga Dögg Sverrisdóttir