Höskuldur Ólafsson
hoskuldur@mbl.is
„Ég vil nú ekki uppljóstra um alla sólarsöguna svona rétt fyrir tónleikana en Barbara Strozzi fæddist árið 1619 í Feneyjum og var hyllt sem ein af bestu söngkonum og afkastamestu tónskáldum síns tíma og önnur af aðeins tveimur konum svo vitað sé sem nutu þeirrar virðingar,“ segir hin kanadísk-íslenska Kathleen Kajioka, fiðluleikari og sögumaður alþjóðlega kammertónlistarhópsins Ensemble Masque sem í kvöld kl. 19.30 kemur fram í Norðurljósum Hörpu. Þar mun Kajioka, sem einnig heldur úti klassískum útvarpsþætti í Toronto, fara yfir stórmerkilegt lífshlaup Barböru Strozzi á milli laga.
Á efnisskránni eru aríur og aríettur fyrir sópran og fylgirödd og sópran, fiðlu og fylgirödd eftir Strozzi í bland við hljóðfæratónlist eftir feneyska samtímamenn hennar, Francesco Cavalli, Dario Castello, Marco Uccellini og fleiri, í stíl sem hefur verið kallaður „stylus phantasticus“.
Franska sópransöngkonan Maïlys de Villoutreys kemur til landsins með hópnum en nokkrir meðlimir Alþjóðlegu barokksveitarinnar í Reykjavík leika einnig undir í kvöld.
Styrkir fjölskylduböndin
Morgunblaðið náði tali af Kajioka laust fyrir helgi þegar hún var að leggja lokahönd á útvarpsþátt sinn í Toronto. Hún baðst vinsamlegast undan því að viðtalið færi fram á íslensku.
„Ég skil heilmikið en ég tala því miður ekki nema örfá orð,“ segir Kajioka en móðir hennar, Sigrún Torfadóttir Hjartarsonar, fluttist ung til Toronto þar sem hún kynnist föður Kajioka, Kanadamanni af japönsku bergi brotnum.
„Móðir mín var mikill óperuunnandi og minn áhugi á tónlist er að miklu leyti kominn frá henni,“ segir hún. Ég byrjaði að læra á fiðlu og síðar á víólu og að grunnnámi loknu fékk ég inngöngu í Eastmann School of Music í Rochester í New York og það var þar sem ég komst í kynni við miðaldatónlist og sérhæfði mig í framhaldi í þeirri tegund klassískrar tónlistar.“
Frá útskrift hefur Kajioka starfað með nær öllum klassískum tónlistarstofnunum Toronto-borgar, þar á meðal Tafelmusik, Toronto Symphony Orchestra, Kanadísku óperunni, Þjóðarballett Kanada, Soundstreams, Toronto Masque Theatre og Amici Ensemble. Hún hefur einnig starfað sem fyrsti víóluleikari með Arion Baroque í Montréal auk þess sem hún er meðlimur Alþjóðlegu barokksveitarinnar í Reykjavík, gestakonsertmeistari Kammersveitar Reykjavíkur og gestastjórnandi Bach-sveitarinnar í Skálholti. Þetta er í annað sinn sem kammerhópurinn sækir Ísland heim en hann lék í Salnum í nóvember 2022.
„Það voru einstaklega skemmtilegir tónleikar og tókust mjög vel upp. Þar fyrir utan eru ættingjar mínir á Íslandi flestir búsettir í Reykjavík þannig að mér gafst kjörið tækifæri til að styrkja fjölskylduböndin sem var ekki síður ánægjulegt,“ segir Kajioka.
En hver er þessi kammertónlistarhópur, Ensemble Masque?
Kajioka útskýrir fyrir blaðamanni að Ensemble Masque hafi verið stofnaður árið 1999 af Olivier Fortin, kanadískum sembal- og orgelleikara sem enn starfar með hópnum. Hópurinn starfi hins vegar án stjórnanda og að fjöldi hljóðfæraleikara fari eftir efnistökum og aðstæðum hverju sinni.
„Þessi hljóðfæraskipan sem kemur til Íslands hefur starfað saman síðan 2007 og við komum hvaðanæva; frá Ástralíu, Finnlandi, Kanada og Belgíu, þannig að þetta er mjög áhugaverð blanda.“
Spurð í lokin út í stöðu klassískrar tónlistar í Kanada segir Kajioka að klassísk tónlist sé þar í miklum blóma.
„Við búum að mjög flottum tónlistarstofnunum sem komu tvíefldar til baka eftir covid en þar fyrir utan er umræða og umfjöllun um klassíska tónlist af mjög háum standard. Þannig að framtíð klassískrar tónlistar í Kanada er björt.“