Kát Margrét „Maddý“ Kristjánsdóttir Arnar og Örn Arnar með stokkinn.
Kát Margrét „Maddý“ Kristjánsdóttir Arnar og Örn Arnar með stokkinn. — Morgunblasðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hjartaskurðlæknirinn Örn Arnar, fyrrverandi aðalræðismaður Íslands í Minnesota, hefur búið í Bandaríkjunum frá 1959 að undanskildum árunum 1970-1972 og…

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Hjartaskurðlæknirinn Örn Arnar, fyrrverandi aðalræðismaður Íslands í Minnesota, hefur búið í Bandaríkjunum frá 1959 að undanskildum árunum 1970-1972 og unnið að því að bjarga íslenskum menningarverðmætum vestra undanfarin 50 ár. Hann vekur athygli á mikilvægi málsins þegar gagnagrunnur verkefnisins „Í fótspor Árna Magnússonar í Vesturheimi“ verður formlega opnaður í Eddu við Arngrímsgötu í Reykjavík á laugardag.

Eiginkona hans, Margrét „Maddý“ Kristjánsdóttir Arnar, lést 2019. Hann segir að áhugi þeirra á íslenskum menningarverðmætum í Vesturheimi hafi vaknað þegar Jónas Kristjánsson, þáverandi forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar, var í fyrirlestraferð vestra 1974. „Ég spurði hann hvort íslensk handrit væru fyrir vestan og hann svaraði já. Þá fór ég að líta í kringum mig.“

Örn segir að Haraldur Bessason, þáverandi prófessor og yfirmaður íslenskudeildar Manitoba-háskóla í Kanada, hafi sagt Jónasi frá tilurð svokallaðrar Melsteðs-Eddu, myndskreytts handrits Snorra-Eddu. Hann hafi fengið hana að láni fyrir hönd Árnasafns. „Í kjölfarið talaði ég við eigandann, Kenneth Melsteð í Wynyard í Saskatchewan í Kanada, og þá kom fram að hann átti einnig Guðbrandsbiblíu sem var á safni í Winnipeg.“ Hann hafi keypt bækurnar af honum og Árnastofnun hlotið Edduna en Skálholtskirkja biblíuna, sem er í upprunalegu bandi. Þess má geta að svipaðar myndir eru í öðru ungu Edduhandriti sem nú er í Kaupmannahöfn.

Löng bið

Maddý og Örn fengu fyrst fregnir af íslenskum spónastokki á fyrirlestri forstöðumanns Vesterheim-safnsins í Decorah í Iowa skömmu eftir að þau fluttu aftur vestur. Örn spurðist stöðugt fyrir um hann en fékk ekki svör fyrr en 30 árum síðar. „Loksins var mér send ljósmynd af gripnum, sem þá var í Vesterheim-safninu.“ Í næstu Íslandsferð hafi hann sýnt Þór Magnússyni þáverandi þjóðminjaverði myndina. Hann hafi lesið höfðaletrið, Sigríður Jónsdóttir 1655, og staðfest að gripurinn væri íslenskur. Í kjölfarið hafi hann haft samband við safnið og veitt því fjárstuðning með hjálp norskra vina í Minnesota. Þeir hafi sannfært forstöðumann safnsins um að gripurinn ætti ekki heima í norsku safni heldur ætti hann að vera í höndum Íslendinga. Örn og Maddý færðu síðan Þjóðminjasafninu spónastokkinn 2015 eftir að hafa geymt hann um hríð. Auk þess hafa þau gefið Þjóðminjasafninu tvo íslenska aska frá 19. öld sem þau keyptu í Minneapolis 1975.

Umrætt verkefni Árnastofnunar undir stjórn Guðrúnar Nordal forstöðumanns hófst með styrk frá Háskólasjóði Eimskipafélagsins 2015. Örn segir að til að byrja með hafi þeir Svavar Gestsson unnið að verkefninu og Svavar hafi unnið ötullega að því að fá umræddan styrk. Síðan hafi margir komið að verkefninu, meðal annars Gísli Sigurðsson, Ryan Johnson og Katelin Marit Parsons. „Það hefur verið hugarfóstur mitt í áratugi og ég gaf því líka nafn,“ upplýsir Örn og bætir við að aðdragandann megi rekja til fyrirlestraferðar Jónasar.

„Ég velti fyrir mér hvað Árni Magnússon hefði gert í mínum sporum vitandi að eitthvað væri að finna,“ heldur Örn áfram. „Hann hefði farið vestur. Hann fór í öll horn á Íslandi í leit að skósólabændum við gerð manntalsins og af hverju ættum við ekki að taka leiðsögn hans til að koma þessu verkefni í gegn á 21. öldinni, nota eldmóð hans til að koma verkefninu í gegn? Þetta hefur verið mitt leiðarljós í hálfa öld.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson