Eins furðulegt og það er þá er enn hægt að reikna Ísland upp í annað sæti riðilsins, þótt Slóvakía hafi unnið Lúxemborg 1:0 á útivelli og farið langt með að tryggja sér EM-sætið. Portúgal valtaði yfir Bosníu á útivelli, 5:0, og er með 24 stig í efsta sætinu

Eins furðulegt og það er þá er enn hægt að reikna Ísland upp í annað sæti riðilsins, þótt Slóvakía hafi unnið Lúxemborg 1:0 á útivelli og farið langt með að tryggja sér EM-sætið.

Portúgal valtaði yfir Bosníu á útivelli, 5:0, og er með 24 stig í efsta sætinu. Slóvakía er með 16 stig, Lúxemborg 11 og Ísland 10 stig.

Ísland sækir Slóvakíu og Portúgal heim 16. og 19. nóvember og myndi ná 16 stigum með því að vinna báða leikina. Slóvakía á svo útileik gegn Bosníu í síðustu umferðinni.

Sigur í Slóvakíu í 9. umferðinni myndi í það minnsta halda möguleikum Íslands opnum fram að lokaleiknum í Portúgal.

En þetta er eins langsótt og það gerist og yrði eitthvert mesta ævintýri í sögu landsliðsins ef það gengi eftir.

Eftir stigamissinn gegn Lúxemborg á föstudaginn er umspilið hin raunhæfa leið Íslands á EM og ágæt niðurstaða í Þjóðadeildinni hefur haldið þeim möguleika galopnum allan tímann. Þar vænkaðist hagurinn í gærkvöldi þegar Hollendingar unnu Grikki á útivelli og komust í annað sætið í sínum riðli.

Fyrir vikið er Ísland inni í umspilinu eins og staðan í riðlunum er núna. Eftir leiki gærkvöldsins eru þessar tólf þjóðir á leið í umspilið: Króatía, Pólland, Ísrael, Bosnía, Finnland, Úkraína, Ísland, Georgía, Grikkland, Kasakstan, Lúxemborg og Eistland. Þetta getur þó tekið talsverðum breytingum í tveimur síðustu umferðunum.