Brussel Lögregla lokaði af svæðið þar sem árásin varð í gærkvöldi.
Brussel Lögregla lokaði af svæðið þar sem árásin varð í gærkvöldi. — AFP/Hatim Kaghat
Að minnsta kosti tveir létu lífið í skotárás í Brussel í gærkvöldi en ekki var vitað hvort einhverjir hefðu slasast, að sögn saksóknaraembættis höfuðborgar Belgíu. Skotárásin átti sér stað í norðurhluta höfuðborgarinnar nálægt íþróttaleikvangi þar…

Að minnsta kosti tveir létu lífið í skotárás í Brussel í gærkvöldi en ekki var vitað hvort einhverjir hefðu slasast, að sögn saksóknaraembættis höfuðborgar Belgíu. Skotárásin átti sér stað í norðurhluta höfuðborgarinnar nálægt íþróttaleikvangi þar sem landsleikur karla í fótbolta fór fram milli Svía og Belga og voru a.m.k. tvö fórnarlambanna stuðningsmenn sænska landsliðsins. Leiknum var aflýst þegar fyrri hálfleik var lokið eftir að búið var að ráðfæra sig við bæði landsliðin.

Myndband gekk um samfélagsmiðla í gærkvöldi þar sem árásarmaðurinn sást skjóta á gangandi vegfarendur. Var hann í flúruðum appelsínugulum jakka og flúði af vettvangi, en flæmska dagblaðið Het Laatste Nieuws deildi myndbandinu í gær.

Annað myndband, þar sem meintur árásarmaður lýsti yfir ábyrgðinni á hendur sér, gekk einnig um miðla, en hann sagðist þar vera á vegum Ríkis íslams. Sagðist hann hafa skotið þrjá til bana.

Rannsakað sem hryðjuverk

Saksóknaraembætti Belgíu í hryðjuverkamálum var með málið til frumkönnunar fyrst eftir árásina, en síðar um kvöldið var tilkynnt að það væri rannsakað sem hryðjuverk. Forsætisráðherra Belgíu, Alexander De Croo, lýsti í gær yfir sorg sinni yfir þessari hrottalegu árás á sænska ríkisborgara í höfuðborg Belgíu. „Ég hef nýverið vottað sænska forsætisráðuneytinu innilega samúð mína í kjölfar hryðjuverkaárásarinnar á sænska borgara í Brussel í kvöld,“ sagði De Croo á twitter-síðu sinni í gærkvöldi.

„Við hugsum til þeirra fjölskyldna og vina sem misstu ástvini. Sem nánir samstarfsaðilar eigum við það sameiginlegt að berjast gegn hryðjuverkum.“